Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1041  —  471. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.


    Fyrirliggjandi frumvarp og breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar fela í sér nýjar virkjanaheimildir fyrir Landsvirkjun sem nema allt að 270 megavöttum í afli. Orku frá við­komandi þremur virkjunum er að langmestu leyti fyrirhugað að selja til orkufreks iðnaðar. Orkuframleiðsla frá þessum virkjunum gæti numið um 2,0 teravattstundum á ári (Twh/a) miðað við sölu til stóriðju. Heildarraforkuframleiðsla á árinu 1998 nam um 6,5 teravatt­stundum, þar af til stóriðju um 3,8 teravattstundum að ótryggðri orku meðtalinni.
    Þá er lagt til í frumvarpinu að flytja virkjanaheimild vegna Villinganesvirkjunar í Skaga­firði frá Landsvirkjun til Rafmagnsveitna ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði. Er þar um að ræða heimild sem nemur 40 MW afli og áætlaða 180 gígavattstunda orkuframleiðslu á ári (um 0,2 Twh). Minni hlutinn getur stutt þá breytingu en með öllum fyrirvörum um útfærslu virkjunarinnar og samhengi hennar við áform um virkjun ofar í Héraðsvötnum.
     Vöxtur almenns orkumarkaðar kallar ekki á umtalsverðar virkunarframkvæmdir á næstu fimm árum umfram það sem yrði til ráðstöfunar í raforkukerfinu eftir að núverandi virkjunar­framkvæmdum lýkur. Orkuspárnefnd áætlar vöxt í almennri raforkuþörf fram til ársins 2005 um 350 gígavattstundir (0,350 Twh/a).

Stóriðjuáformin bak við heimildarákvæðin.
    Virkjanaheimildirnar sem afla á fyrir Landsvirkjun samkvæmt tillögum meiri hlutans eru vegna Vatnsfellsvirkjunar (110 MW) og Búðarhálsvirkjunar (120 MW) á Þórisvatns-Tungnársvæðinu og jarðgufuvirkjunar í Bjarnarflagi í Mývatnssveit (40 MW). Stóriðjan sem sögð er kalla á þessar virkjanaheimildir er stækkun álbræðslu Norðuráls á Grundartanga um 30 þúsund tonn á ári, hugsanleg orkusala til fjórða ofns járnblendiverksmiðjunnar og bygging álbræðslu á Reyðarfirði, en þangað sé fyrirhugað að selja orkuna frá Bjarnarflagsvirkjun.
    Þessar stóriðjuhugmyndir hvíla á veikum grunni svo ekki sé meira sagt. Að minnsta kosti á það við um fjórða ofn við járnblendiverksmiðjuna sem engum dettur í hug að verði á dag­skrá á næstunni sem og álbræðslu Norsk Hydro á Reyðarfirði. Því eru út frá stóriðjufor­sendum ríkisstjórnarinnar lítil sem engin rök til þess að veita nú umbeðnar virkjanaheimildir til Landsvirkjunar.

Enn stærri stóriðjudraumar.
    Í greinargerð með frumvarpinu er staðhæft að gera þurfi „ráð fyrir að sala til stóriðju­fyrirtækja aukist umtalsvert og að ný fyrirtæki hefji rekstur“. Auk fyrrgreindrar stóriðju er þar nefnd stækkun álbræðslu Ísals um 40 þúsund tonn, stækkun álbræðslu Norðuráls um 90 þúsund tonn í viðbót og magnesíumverksmiðja á Reykjanesi. Þetta samanlagt mundi sam­kvæmt greinargerð með frumvarpinu kalla á um 4 teravattstundir í viðbót í orku á ári (480 MW aflaukningu). Er þá ekki meðtalin 480 þúsund tonna risaálbræsðla Norsk Hydro á Reyðarfirði og virkjanir Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Dal til að fullnægja orkuþörf hennar upp á um 7 teravattstundir á ári.
    Í heild gera þannig stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar „næsta áratug eða svo“, sem fjallað er um í greinargerð með frumvarpinu, ráð fyrir aukinni orkuþörf til stóriðju sem svarar um 12 teravattstundum í viðbót við núverandi 4 teravattstundir bundnar í stóriðjusamningum. Ríkisstjórnin sér þannig fyrir sér að hér verði samtals um 16 teravattstundir af orku bundnar í málmbræðslum útlendinga eftir 10–12 ár!

Gjafverð á orkunni til stóriðju.
    Ríkisstjórnin hefur, sumpart með stuðningi þeirra sem nú standa að Samfylkingunni, á undanförnum árum gert hvern samninginn á fætur öðrum við erlend stóriðjufyrirtæki. Má þar nefna samninginn um stækkun Ísal-verksmiðjunnar, um álbræðslu Norðuráls á Grundartanga og um þriðja ofn Íslenska járnblendifélagsins. Öllum þessum samningum fylgdu starfsleyfi um langtum rýmri framleiðslumörk á sama tíma og í undirbúningi var Kyoto-bókunin sem setur losun gróðurhúsalofttegunda ákveðin mörk. Þannig voru fyrirtækjunum færðar á silfur­fati losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir sem hefðu getað kostað þau stórar fjár­hæðir að gerðri Kyoto-bókuninni. Þessi fyrirframgreiðsla til stóriðjufyrirtækjanna bætist við sáralágt raforkuverð í samningum Landsvirkjunar við þau sem lýstir hafa verið viðskipta­leyndarmál!
    Ekki þarf hins vegar langt að leita til að við blasi óhæfilega lágt raforkuverð samkvæmt gildandi stóriðjusamningum, gömlum og nýjum. Undirritaður óskaði eftir yfirliti frá Lands­virkjun um rafmagnssölu fyrirtækisins á árinu 1998 og barst það iðnaðarnefnd. Samkvæmt því var söluverð til almenningsveitna að meðaltali 2,86 kr. á kílóvattstund en til stóriðju aðeins 0,88 kr. eða innan við þriðjungur af verði til almenningsveitna.

Losun gróðurhúsalofttegunda og Kyoto-bókunin.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem Ísland undirritaði á Ríó-ráðstefnunni og staðfesti vorið 1994 gerði ráð fyrir að iðnríki, þar á meðal Ísland, leituðust við að stöðva aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2000 þannig að hún yrði þá ekki meiri en hún var árið 1990. Nú stefnir í 16% aukningu hérlendis árið 2000 og allt að 40% aukningu árið 2010 miðað við „staðfesta“ stóriðjusamninga og þau starfsleyfi sem nú­verandi stóriðjufyrirtæki hafa tryggt sér, þ.e. 4.186.000 tonn í stað 2.877.000 tonn árið 1990. Samkvæmt Kyoto-bókuninni við samninginn átti Ísland að fá +10% í aukningu losunarheimilda á sama tíma, en flestum öðrum iðnríkjum er ætlað að skera verulega niður losun frá 1990-mörkunum. Stóriðjudraumar stjórnvalda stefna óralangt fram úr þessum mörkum, t.d. losar 500 þúsund tonna álbræðsla um 1 milljón tonna árlega af gróðurhúsaloft­tegundum umreiknað í CO 2-ígildi.
    Skilyrði ríkisstjórnarinnar fyrir aðild Íslands að Kyoto-bókuninni hljóðar upp á að engin takmörk verði sett fyrir losun frá málmbræðslum hérlendis. Með þessari kröfu eru Íslend­ingar settir í afar slæmt ljós í umhverfismálum á alþjóðavettvangi og um leið afvopna íslensk stjórnvöld sig í viðleitni við að draga úr losun hjá öðrum atvinnugreinum en stóriðju.

Orkulindirnar eru takmarkaðar.
    Þingflokkur óháðra flutti í byrjun yfirstandandi löggjafarþings tillögu til þingsályktunar um sjálfbæra orkustefnu. Þar er meðal annars dregið fram með skýrum hætti að nýtanlegar orkulindir landsmanna eru langtum takmarkaðri að magni til en haldið hefur verið fram til þessa. Því valda gjörbreytt viðhorf í umhverfismálum, ekki síst að því er varðar vatnsafls­virkjanir og miðlunarlón á hálendinu. Óvarlegt er að reikna með að þjóðin hafi í raun til ráð­stöfunar meira en um 20–30 teravattstundir til raforkuframleiðslu úr vatnsafli og jarðvarma á næstu öld, ef taka á tilliti til umhverfissjónarmiða. Á síðasta ári var raforkuframleiðslan um 6,5 teravattstundir og stefnir vegna þegar gerðra stóriðjusamninga í um 9 teravattstundir á næsta ári. Vöxtur almennrar raforkunotkunar um 2% á ári sem orkuspárnefnd nú gerir ráð fyrir kallar á um 8 teravattstunda orkuaukningu á ári frá því sem nú er þegar komið er fram um 2050. Framleiðsla vistvæns eldsneytis eða raforku í stað jarðefnaeldsneytis kallar á um 15 teravattstundir árlega í raforkuframleiðslu. Samtals eru þetta um eða yfir 30 teravattstundir árlega án nokkurrar frekari stóriðju eða fimmföldun frá núverandi raforku­framleiðslu. Af þessu dregur Vinstrihreyfingin — grænt framboð þá ályktun að algjört óráð sé að binda meiri orku en orðið er í samningum um málmbræðslur af hvaða tagi sem er. Alveg sérstaklega er óráðlegt að binda meiri orku en þegar er orðið í langtímasamningum á meðan engin framtíðarstefna hefur verið mótuð í orkumálum önnur en sú að keyra í blindni gegn náttúru landsins og úthrópa þá sem snúast henni til varnar, eins og núverandi valdhafar tíðka.

Bjarnaflagsvirkjun — forsaga.
    Með bréfi til iðnaðarnefndar 19. febrúar 1999 óskaði Landsvirkjun „í samráði við iðn­aðarráðuneytið“ eftir því við umhverfisnefnd að „leyfð verði virkjun jarðgufuorku til rafmagnsframleiðslu í Bjarnarflagi við Námafjalla (Bjarnaflagsvirkjun) með allt að 40 MW afli.“ Nefndin fjallaði um þetta erindi á nokkrum fundum og fékk af því tilefni til viðræðu auk talsmanna Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis fulltrúa frá sveitarstjórn Skútustaða­hrepps, Náttúruvernd ríkisins, stjórn Náttúrurannsóknastöðvar við Mývatn, Náttúruverndar­ráði og Orkustofnun. Lögðu sumir þessara aðila fram greinargerðir sem birtar eru í fylgi­skjölum sem útbýtt er með nefndaráliti þessu.
    Landsvirkjun yfirtók eignir Kröfluvirkjunar af íslenska ríkinu með samningi sumarið 1985 og ári síðar eignir Jarðvarmaveitna ríkisins við Bjarnarflag ásamt rétti til hagnýtingar jarð­hitaorku þar. Fylgdi með gamla 3 MW jarðvarmavirkjunin sem þar hefur verið rekin síðan 1969. Haustið 1994 hafði Landsvirkjun lokið við verkhönnum 40 MW virkjunar í Bjarnar­flagi með ráðgerða staðsetningu sunnan Kísiliðju og þjóðvegar austan við svonefnt Krumma­skarðsmisgengi. Í framhaldi af því lét Landsvirkjun taka saman frummatsskýrslu sem lá fyrir hjá Skipulagi ríkisins í september 1996 sem sendi hana meðal annars til stjórnar Náttúru­rannsóknastöðvarinnar við Mývatn og til Náttúruverndarráðs (nú Náttúruverndar ríkisins). Veitti stjórn rannsóknastöðvarinnar umsögn, sem Náttúruverndarráð vísaði meðal annars til um leið og ráðið lagðist gegn fyrirhugaðri jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi. Í framhaldi af því hætti Landsvirkjun við að setja málið í mat á umhverfisáhrifum. Er það fyrst nú fyrir skemmstu að fyrirtækið tekur málið upp að nýju og beitir nú fyrir sig heimaaðilum til að þrýsta á um að heimild verði veitt fyrir virkjuninni.

Hvers vegna ekki stækka Kröfluvirkjun?
    Fjölmargar spurningar vakna við ákvörðun Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis um að leita nú eftir heimild Alþingis fyrir stórri jarðgufuvirkjun við Námafjall. Hið sama á við um ákvörðun meiri hluta iðnaðarnefndar að fallast á þá beiðni. Fyrst af öllu þarf að svara því hvers vegna leitað er nú eftir virkjunarheimild á nýju svæði í hjarta Mývatnssveitar í stað þess að stefna að stækkun Kröfluvirkjunar. Einnig má benda á að á norðausturlandi eru stór jarðhitasvæði sem í framtíðinni hljóta að koma til athugunar, svo sem hátitasvæðið í Öxarfirði. Samkvæmt skriflegum upplýsingum Landsvirkjunar til iðnaðarnefndar er ómælda jarðhitaorku að hafa við Kröflu. „Kröflusvæðið (30 km 2) er talið geta staðið undir um 300–400 MW raforkuframleiðslu í 50 ár. ... Jarðhitasvæði við Bjarnarflag (8 km 2) er álitið geta staðið undir tæplega 100 MW raforkuframleiðslu í 50 ár.“ (Greinargerð Landsvirkjunar um virkjun jarðvarma í Bjarnarflagi og Kröflu, dagsett 1. mars 1999.)
    Ein af fáum skýringum sem Landsvirkjun gefur fyrir vali sínu er eftirfarandi: „Boranir í ný svæði yrðu markvissari og einnig skipulag við uppbyggingu hugsanlegra virkjana í 20–30 MW áföngum. Rannsóknir vegna gufuöflunar á Kröflusvæðinu er talið að muni taka nokkur ár áður en hægt verður að taka ákvörðun um aukna orkuframleiðslu.“ (Sama heimild.) Ekki getur þetta talist frambærileg skýring í ljósi þess m.a. að markaðurinn sem vísað er til fyrir orku úr Bjarnarflagsvirkjun er hugsanleg álbræðsla á Reyðarfirði. Allir vita hvar það mál er statt og að meira en „nokkur ár“ munu líða uns þær fyrirætlanir skýrast. Jafnvel þótt eitt­hvað gerðist í því máli innan nokkurra ára væri nógur tími til að afla orku frá Kröflu, teldu menn það ráðlegt.

Samvinna iðnaðarráðuneytis, Landsvirkjunar og sveitarstjórnar.
    Reynt hefur verið að afla málinu stuðnings með því að vísa til þess að í tengslum við virkjunina megi skapa ýmiss konar aðstöðu fyrir ferðamenn, m.a. til baða. Minni hlutinn telur sjálfsagt ef einhverntíma yrði tekin ákvörðun um að setja niður orkuver á þessum stað að hugsa til slíkra þátta, en þeir geta ekki talist gild rök fyrir að veita heimild fyrir Bjarnar­flagsvirkjun.
    Hafa verður í huga í öllu þessu máli að Kröfluvirkjun er í fárra kílómetra fjarlægð, með gnótt orku, nóg af affallsvatni til að koma upp baðlónum og er opin til skoðunar fyrir ferða­fólk. Þess utan ætti að vera hægurinn hjá að koma upp sómasamlegum gufuböðum við Bjarnarflag, ef áhugi er fyrir hendi, því að talsvert er þar af óbeislaðri orku. Svo langt er seilst í rökleysunni fyrir Bjarnarflagsvirkjun að staðhæft er að Landsvirkjun hafi heitið því að taka sæmilega til á svæðinu, fái fyrirtækið að koma þar upp nýrri jarðgufuvirkjun. — Vert er að nefna að fram kom í iðnaðarnefnd að ekki væri hægt að yfirfæra hugmyndir um „blá lón“ frá Svartsengi til Bjarnarflags. Bláa lónið í Svartsengi byggist á jarðsjó, en allt önnur efnasamsetning er á affallsvatni á hefðbundnum háhitasvæðum sem gæti kallað á ýmiss konar efnaíblöndun vegna baða til að halda niðri gerlagróðri.
    Sagt er að um tvö ársverk mundu bætast við í Mývatnssveit til frambúðar ef til kæmi Bjarnarflagsvirkjun. Svipað gæti væntanlega átt við ef Kröfluvirkjun yrði stækkuð. Atvinnu­leg rök fyrir þessari virkjunarheimild vega þannig ekki þungt og orkuna er fyrirhugað að flytja austur á firði til álbræðslu.

Bjarnarflagsvirkjun og verndun náttúru Mývatnssveitar.
    Aðalatriði þessa máls varðar verndun náttúru Mývatnssveitar og þær hugmyndir sem menn gera sér um sjálfbæra þróun mannlífs og atvinnulífs á svæðinu. Það er næsta ótrúlegt skref sem Alþingi mundi taka með því að veita heimild fyrir nýrri 40 MW virkjun í Bjarnar­flagi. Þegar Náttúruverndarráð fjallaði um jarðgufuvirkjun á Mývatnssvæðinu 1974–75 voru bornar rækilega saman hugmyndir um staðsetningu við Kröflu og Námafjall. Niðurstaðan varð Kröflusvæðið eins og lesa má um í greinargerðum frá þessum tíma. Í þessu fólst um leið það álit að vernda bæri jarðhitasvæðið við Námafjall og halda mannvirkjagerð og nýtingu þar í lágmarki.
    Heimild fyrir Bjarnarflagsvirkjun gengur þvert á þessi markmið. Viðurkennt er að öflun jarðgufu austan Krummaskarðsmisgengis vestan Námafjalls geti haft ófyrirsjánleg áhrif á hverasvæðið við Hverarönd. Á bak við óskir Landsvirkjunar vaka hugmyndir um gjörnýtingu háhitasvæðisins og skýrt er gefið til kynna í fyrirliggjandi gögnum að fyrirtækið hafi hug á að reisa aðra virkjun síðar á svipuðum slóðum.
    Náttúruverndaryfirvöld og áhugafélög um umhverfisvernd hafa lýst miklum áhyggjum og andstöðu við að lagt verði út á þessa braut. Með nefndarálitinu fylgja umsagnir stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn frá 6. desember 1996 og Náttúruverndarráðs (nú Náttúruverndar ríkisins) frá 17. desember 1996 þar sem lagst er gegn fyrirhugaðri jarð­varmavirkjun í Bjarnarflagi. Þá fylgir ný greinargerð Náttúruverndarráðs frá 7. mars 1999 þar sem eindregið er lagst gegn heimild til virkjunar í Bjarnarflagi.

Lagaheimild óþörf til að fram fari mat á umhverfisáhrifum.
    Vekja verður athygli á því viðhorfi sem fram kom hjá talsmönnum Landsvirkjunar fyrir iðnaðarnefnd, að með því að fá nú virkjunarheimild geti fyrirtækið komist bakdyramegin að lögunum um verndun Mývatns og Laxár (nr. 36/1974) sem áskilja leyfi Náttúruverndar rík­isins fyrir hvers konar mannvirkjagerð í Skútustaðahreppi og með fram Laxá. Hugsunin virðist vera sú að ef reyni á höfnun Náttúruverndar ríkisins á virkjuninni mætti kæra slíka niðurstöðu til æðra stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum. Af ummælum iðnaðarráðherra nýverið má einnig ráða að hann telji lögin um verndun Mývatns og Laxár óþörf vegna til­komu löggjafar um mat á umhverfisáhrifum!
    Það er algjör misskilningur að heimild frá Alþingi til virkjunar þurfi að liggja fyrir til að Landsvirkjun láti fara fram mat á umhverfisáhrifum hugsanlegrar virkjunar í Bjarnarflagi. Þvert á móti verður að telja eðlilegt að slíkt mat liggi fyrir áður en Alþingi tekur afstöðu til virkjunarinnar.

Stuðningur við atvinnuþróun í Mývatnssveit.
    Svo vill til að þingmenn Óháðra hafa á fyrri tíð haft frumkvæði að tillöguflutningi á Alþingi þess efnis að ríkisvaldið styðji við atvinnuþróun í Mývatnssveit. Í tillögu sem undir­ritaður flutti ásamt Kristínu Einarsdóttur á 115. og 116. löggjafarþingi var meðal annars lagt til „að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á þróunarforsendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit er falli að markmiðum um náttúruvernd á svæðinu.“ Í greinargerð með tillögunni sagði meðal annars:
    „Íslenska ríkið hefur óvenjumiklar skyldur við Mývatnssveit og svæðið með fram Laxá, Því valda ákvarðanir sem teknar hafa verið um lögverndun á náttúru svæðisins og aðild ríkisins að uppbyggingu atvinnufyrirtækja þar síðustu áratugi, einkum Kísiliðjunnar og Kröfluvirkjunar.“ — Í tillögunni sem allsherjarnefnd þá studdi var meðal annars vísað til eldri tillögu sem Steingrímur J. Sigfússon hafði frumkvæði að á 110. löggjafarþingi (458. mál) „um áætlun um uppbyggingu og eflingu atvinnulífs í Mývatnssveit“.
    Umhverfisnefnd Alþingis flutti á 117. þingi tillögu um sjálfbæra atvinnuþróun í Mývants­sveit, sem var samþykkt sem ályktun Alþingis 14. desember 1993. Byggðist hún á fyrri til­lögum um þetta efni og er svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta Byggðastofnun, í samvinnu við Skipulag ríkisins, Náttúruverndarráð og sveitarstjórn Skútustaðahrepps, gera úttekt á þróunarfor­sendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit er falli að markmiðum um náttúruvernd á svæðinu. Við úttektina verði m.a. höfð hliðsjón af skýrslu Skipulags ríkisins um umhverfismat fyrir Skútustaðahrepp frá í júlí 1993.“
    Þessari ályktun hefur lítið verið fylgt eftir. Forsætisráðuneytið vísaði henni til Byggða­stofnunar þar sem málið lenti í útideyfu. Heimaaðilar voru á þessum tíma tortryggnir gagn­vart tillögunni þar eð þeim fannst sumum hverjum sem hún beindist gegn starfrækslu Kísil­iðjunnar. Málið er í raun brýnna nú en þegar Alþingi gerði sína ályktun og því full ástæða til að minna rækilega á það og krefjast aðgerða af hálfu ríkisins til stuðnings við sjálfbæra atvinnuþróun í Mývatnssveit.

Niðurstaða.
    Samkvæmt framangreindu er minni hlutinn því andvígur að Alþingi veiti lagaheimildir fyrir raforkuverum sem yfirlýst er að eigi að þjóna hefðbundinni stóriðjuuppbyggingu. Alþingi á ekki að veita frekari virkjanaheimildir fyrr en mótuð hefur verið sjálfbær orku­stefna til framtíðar og einstökum virkjanakostum hefur verið raðað í forgangsröð, sbr. ályktun Alþingis frá 24. apríl 1989, um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða (108. mál á 111. löggjafarþingi) og tillögu um sjálfbæra orkustefnu (12. mál á 123. löggjafarþingi). Þá er rétt að áður en afstaða er tekin til virkjunarheimildar liggi ætíð fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna viðkomandi virkjunarhugmyndar.
    Minni hlutinn leggst ekki gegn því að Rafmagnsveitur ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði yfirtaki virkjunarheimild Laandsvirkjun vegna Villinganesvirkjunar en telur að takmarka beri virkjunarheimildina við 30 MW, sbr. umsögn Náttúruverndar ríkisins um frumvarpið á umhverfisáhrifum, áður en Alþingi veitir virkjanaheimild í nýju samhengi.
    Sérstaklega er minnt á ályktun Alþingis frá 14. desember 1993 um stuðning af hálfu ríkis­ins við sjálfbæra atvinnuþróun í Mývatnssveit.
    Með vísan til þessa leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi 8. mars 1999.

Hjörleifur Guttormsson.     Eftirtöldum fylgiskjölum er útbýtt með nefndarálitinu:
     1.      Landsvirkjun. Erindi til iðnaðarnefndar 19. febrúar 1999.
     2.      Landsvirkjun. Greinargerð um orkumarkað og virkjanir 23. febrúar 1999.
     3.      Landsvirkjun. Rafmagnssala Landsvirkjunar 1998. 26. febrúar 1999.
     4.      Útstreymi gróðurhúsalofttegunda og spá fram til 2010.
     5.      Gufuaflsvirkjun í Bjarnarflagi. Erindi Skútustaðahrepps 18. febrúar 1999.
     6.      Greinargerð Landsvirkjunar um virkjun jarðvarma í Bjarnarflagi og Kröflu. 01. mars 1999.
     7.      Gufuvirkjun við Bjarnarflag í Mývatnssveit. Umsögn stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn 6. desember 1996.
     8.      Bréf Náttúruverndarráðs ([Náttúruverndar ríkisins] til Skipulags ríkisins vegna jarðvarmavirkjunar í Bjarnarflagi, 17. desember 1996.
     9.      Umsögn Náttúruverndarráðs um orkuver í Bjarnarflagi, 7. mars 1999.
     10.      Um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða. Ályktun Alþingis 24. apríl 1899 og þingsályktunartillaga.
     11.      Tillaga til þingsályktunar um sjálfbæra atvinnuþróun í Mývatnssveit. Samþykkt óbreytt 14. desember 1993.