Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1052  —  546. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um búnaðarfræðslu.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson frá landbúnað­arráðuneyti, Magnús B. Jónsson, skólastjóra Bændaskólans á Hvanneyri, Svein Aðalsteins­son, skólastjóra Garðyrkjuskóla ríkisins, og Jón Bjarnason skólastjóra Hólaskóla.
    Umsagnir um málið bárust frá Bændasamtökum Íslands, Landgræðslu ríkisins og Félagi garðyrkjumanna.
    Frumvarpið miðar að því að marka stefnu í búfræðslumálum og samræma störf þeirra sem að þeim vinna. Er kveðið á um grundvallaratriði í stjórnskipulagi menntastofnana landbún­aðarráðuneytisins en gert ráð fyrir að yfirstjórn hvers skóla taki nánari ákvarðanir um starf­semi stofnananna að öðru leyti. Miðað er við að þær fái viðhaldið hæfi og möguleikum til að laga starfsemi sína að síbreytilegum kröfum og nýjum forsendum á hverjum tíma í sam­ræmi við óskir og þarfir samfélagsins og gegni auk þess fjölþættu menningarhlutverki á hér­aðs- og landsvísu. Var við samningu frumvarpsins höfð hliðsjón af lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og lögum nr. 136/1997, um háskóla, og leitast við að laga ákvæði frum­varpsins að þeim lögum eins og frekast var unnt.
    Fjölmargar breytingar frá núgildandi lögum eru lagðar til í frumvarpinu. Helst má nefna að lagt er til að ákvæði laga um búnaðarnám og garðyrkjunám verði samræmd í einni löggjöf og að heildarstefna í búnaðarfræðslu verði mótuð af búfræðsluráði. Þá er gert er ráð fyrir auknu svigrúmi skólanna til að bjóða upp á fjölbreyttara nám, námstíma o.fl. Lagt er til að formlega verði stofnaður landbúnaðarháskóli með aðsetur á Hvanneyri og að öllu stjórn­skipulagi skólans verði breytt í samræmi við það. Þá er lagt til að heimilt verði að stofna til kennslu á háskólastigi við Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins með samþykki landbúnaðar­ráðherra og að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Lagt er til að menntastofnanir landbúnaðar­ins geti komið á fót og átt aðild að sjálfstæðum rekstrareiningum til styrktar og eflingar meginviðfangsefnum þeirra. Loks er lagt til að við menntastofnanirnar verði stundaðar rann­sóknir sem skuli skipulagðar með öðrum rannsóknum á sviði landbúnaðar og landnýtingar í landinu.
    Nokkur umræða varð um það í nefndinni hvort þessi málaflokkur ætti að heyra undir land­búnaðarráðuneyti eða menntamálaráðuneyti. Telur nefndin að það ætti að skoða nánar.
    Nefndin leggur til fjölmargar breytingar á frumvarpinu. Helstu efnisbreytingar eru eftir­farandi:
     1.      Lagt er til að búfræðsluráð verði landbúnaðarráðherra til ráðuneytis um mörkun heildarstefnu í búfræðslumálum en marki ekki sjálft slíka heildarstefnu eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
     2.      Búfræðsluráð verði skipað níu mönnum og tilnefni menntamálaráðherra tvo, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra skipi einn mann í ráðið.
     3.      Almennt háskólanám í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri miðist við þriggja til fjögurra ára nám en ekki tveggja til fjögurra ára nám eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Hins vegar verði skólanum heimilt að bjóða upp á styttri námsbrautir.
     4.      Ekki verði skylt að sérfræðingar sem ráðnir eru til rannsókna við menntastofnanir landbúnaðarins hafi kennsluskyldu.
     5.      Heimilt verði að starfrækja endurmenntunardeildir við menntastofnanir landbúnaðarins en ekki skylt.
     6.      Lagðar eru til nokkrar breytingar á skipan manna í háskólaráð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og í skólanefndir Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins.
     7.      Loks er lagt til að ekki þurfi heimild landbúnaðarráðherra til að menntastofnanir landbúnaðarins geti komið á fót eða átt aðild að sjálfstæðum rekstrareiningum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. mars 1999.



Guðni Ágústsson,


form., frsm.


Egill Jónsson.


Guðjón Guðmundsson.



Magnús Stefánsson.


Katrín Fjeldsted.


Hjálmar Jónsson.



Ágúst Einarsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Sigríður Jóhannesdóttir.