Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1054  —  520. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón S. Sigurjónsson frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Sigurð Thorlacius og Karl Steinar Guðnason frá Tryggingastofn­un ríkisins, Helga Seljan, Garðar Sverrisson og Hauk Þórðarson frá Öryrkjabandalagi Ís­lands og Arnór Pétursson og Lilju Þorgeirsdóttur frá Sjálfsbjörgu.
    Umsagnir bárust nefndinni um málið frá Öryrkjabandalagi Íslands og Sjálfsbjörgu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum á lögum um almannatryggingar þannig að for­sendur við ákvörðun örorku byggist á læknisfræðilegum staðli og að allir sem metnir eru a.m.k. 75% öryrkjar njóti tiltekinna réttinda. Þá er gert ráð fyrir að meiri áhersla verði lögð á endurhæfingu sem forsendu fyrir örorkumati.
    Nefndin telur breytingarnar sem felast í frumvarpinu vera mjög til bóta en með samþykkt laganna verður örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins algerlega óháð tekjum og tekjumögu­leikum öryrkja. Í viðræðum nefndarinnar við fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins um endur­hæfingarlífeyri kom m.a. fram að tryggingalæknir getur með skömmum fyrirvara metið þörf sjúklings fyrir endurhæfingu og úrskurðað honum endurhæfingarlífeyri. Þurfi menn utan af landi að mæta hjá tryggingalækni vegna þessa mun stofnunin greiða ferðakostnað þeirra líkt og gildir um slys. Ef þeir af einhverjum ástæðum komast ekki og þurfa að bíða eftir að trygg­ingalæknir komi í þeirra byggðarlag gætu viðkomandi fengið úrskurðaðan endurhæfingarlíf­eyri eða örorkulífeyri til bráðabirgða á grundvelli læknisvottorðs, án þess þó að í því fælist nokkur viðurkenning á slíkum rétti af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins. Þá kom fram að um leið og tryggingalæknir hefur metið þörf einstaklings fyrir endurhæfingu getur einstaklingur átt rétt á endurhæfingarlífeyri skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 118/1993. Nefndin vill þó vekja athygli á því að með hliðsjón af markmiði frumvarpsins um meiri áherslu á endurhæfingu þarf að endurskoða ákvæði laganna um endurhæfingarlífeyri en samkvæmt þeim er endurhæfingarlífeyrir aldrei greiddur lengur en í átján mánuði. Telur nefndin brýnt að ákvæði um tímalengd endurhæfingarlífeyris verði endurskoðuð fljótlega eftir að lögin eru komin til framkvæmda svo að þau nái tilgangi sínum.
    Nefndin leggur mikla áherslu á að Tryggingastofnun ríkisins hafi þegar samband við þá einstaklinga sem hafa lækkað í örorkumati vegna vinnu og kynni þeim rétt þeirra til að fá ör­orkumatið endurskoðað samkvæmt reglum frumvarpsins.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Í fyrsta lagi er lagt til að gildistöku laganna verði frestað til 1. september 1999 enda þarfnast reglur um breyttar forsendur örorkumats verulegs undirbúnings og kynningar af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins.
     2.      Í öðru lagi er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða sem ætlað er að skýra ákvæðið nánar en gætt hefur misskilnings á þýðingu þess. Tekin eru af tvímæli um að nýju regl­urnar gildi um þá sem metnir eru öryrkjar í fyrsta skipti eftir gildistöku laganna en hrófli ekki við stöðu þeirra sem hafa verið metnir í gildistíð eldri laga nema þeir óski sérstak­lega eftir því að til endurmats komi. Þannig mundu þeir sem fengið hafa metna meiri en 75% örorku samkvæmt gömlu reglunum halda því hafi forsendur upphaflegs örorkumats ekki breyst en þeir sem metnir eru með minni örorku (65%, 50% eða minni en 50% ör­orku) geta sótt um endurmat samkvæmt nýju reglunum.
    Sólveig Pétursdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 5. mars 1999.Össur Skarphéðinsson,


form., frsm.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.Guðmundur Hallvarðsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Guðni Ágústsson.Sigríður A. Þórðardóttir.