Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1056  —  521. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og um breyt. á l. nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur skrifstofu­stjóra og Vilborgu Þ. Hauksdóttur deildarstjóra frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Frá Öryrkjabandalagi Íslands komu Helgi Seljan, Garðar Sverrisson og Haukur Þórðarson. Bjarney Friðriksdóttir kom frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Karl Magnússon og Helgi Jóhannesson frá Samtökum psoriasis- og exemsjúklinga og Andri Árnason hrl. frá Lög­mannafélagi Íslands.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Samtökum psoriasis- og exemsjúklinga, Aðgerðahópi aldraðra, Landssambandi eldri borgara, Sjálfsbjörgu og Lögmannafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sérstök úrskurðarnefnd almannatrygginga er skeri úr um réttindi einstaklinga í málum þar sem deilt er um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta og að hlutverk tryggingaráðs verði þrengt frá því sem nú er. Þá eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð, einkum hvað varðar skilyrði um lögheimili.
    Meiri hlutinn telur ákvæði frumvarpsins um sérstaka óháða úrskurðarnefnd fela í sér veru­legar réttarbætur fyrir skjólstæðinga Tryggingastofnunar ríkisins. Ákvæði frumvarpsins um skipun í nefndina hafa verið gangrýnd töluvert og telur meiri hlutinn rétt að breyta þeim ákvæðum til að tryggja réttaröryggi borgaranna enn frekar.
    Meiri hlutinn telur rétt að geta þess að þær breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, sem felast í 7.–9. gr frumvarpsins hafa engin áhrif á efnisréttinn eins og hann er nú. Þá tekur meiri hlutinn skýrt fram að með breytingu á f-lið 33. gr. þeirra laga eins og 14. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir er ekki verið að fella úr gildi möguleika psoriasis- og exem­sjúklinga til að sækja loftslagsmeðferð erlendis. Samkvæmt 35. gr. almannatryggingalaga er sérstakri nefnd sérfræðinga sem skipuð er fimm læknum falið að meta þörf sjúklinga fyrir slíka meðferð við erlendar sjúkrastofnanir. Meiri hlutinn telur ekki rétt að ákveðnir hópar sjúklinga njóti sérstakrar málsmeðferðar umfram aðra heldur sé jafnræðis milli sjúklinga­hópa gætt. Því er farsælast að allar ákvarðanir um sérstaka meðferð erlendis verði í höndum sérfræðinganefndarinnar skv. 35. gr. laganna.
    Meiri hlutinn mælir með að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á a-lið 2. gr. um skipun í úrskurðarnefnd almannatrygginga. Lagt er til að í stað þess að ráðherra skipi alla nefndarmenn án tilnefningar verði formaður og varaformaður tilnefndir af Hæstarétti. Þriðji nefndarmaðurinn verði skipaður án tilnefningar. Ákvæði um hæfi og skipunartíma nefndarmanna eru hins vegar óbreytt.
     2.      Í öðru lagi er lagt til að c-lið 2. gr. verði breytt þannig að báðir málsaðilar eigi sama rétt til að krefjast frestunar á réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar ef þeir hyggjast bera málið undir dómstóla. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði sem ætlað er að tryggja að tryggingaráð geti ávallt borið úrskurði nefndarinnar undir dómstóla.
     3.      Að lokum er lagt til að fjárhæð ellilífeyris verði leiðrétt í a-lið 4. gr. Fjárhæðin misritaðist við gerð frumvarpsins og var ritað 181.476 kr. í stað 188.736 kr.
    Sólveig Pétursdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 1999.Siv Friðleifsdóttir,


varaform., frsm.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.Guðni Ágústsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.