Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1084  —  521. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og um breyt. á l. nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á stofn sérstök óháð úrskurðarnefnd, þangað sem viðskiptavinir Tryggingastofnunar ríkisins geti skotið ágreiningsefnum varðandi ákvarðanir stofnunarinnar um bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð.
    Nefndin varð öll sammála um að leggja til að af þeim þremur mönnum sem ráðherra skip­ar í úrskurðarnefndina skuli Hæstiréttur tilnefna tvo. Sömuleiðis var samstaða um að gera tillögu um að úrskurðarnefndin gæti að kröfu beggja málsaðila frestað réttaráhrifum úr­skurðar. Minni hlutinn styður því breytingartillögu meiri hlutans við 2. gr. frumvarpsins í þskj. 1057.
    Gildandi lög um almannatryggingar mæla fyrir um tvenns konar hlutverk tryggingaráðs. Annars vegar er ráðið úrskurðaraðili í deilumálum sem koma upp milli Tryggingastofnunar og viðskiptavina hennar. Hins vegar hefur það ákveðna stjórn og eftirlit með starfsemi stofn­unarinnar. Öryrkjar og aldraðir, sem eru fjölmennir í hópi viðskiptavina stofnunarinnar, hafa lengi óskað eftir því að eiga fulltrúa í tryggingaráði. Því hefur jafnan verið hafnað og með vísan til úrskurðarhlutverks ráðsins hafa stjórnvöld talið óeðlilegt að þessir hópar ættu full­trúa þar. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að úrskurðarhlutverk ráðsins flytjist alfar­ið til hinnar nýju úrskurðarnefndar. Helstu rökin sem beitt hefur verið gegn setu fulltrúa framangreindra hópa í ráðinu eru því ekki lengur fyrir hendi. Reyndar er mikilvægt að að­haldshlutverk tryggingaráðs sé eflt með hliðsjón af því að úrskurðarvald í ágreiningsmálum er fært til annars aðila. Minni hlutinn telur því að Landsamband aldraðra og Öryrkjabanda­lag Íslands ættu að fá fulltrúa í ráðinu.
    Í a-lið 4. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um upphæð fulls árlegs ellilífeyris. Minni hlutinn telur að breyting á lífeyri eigi að fylgja hækkunum á launavísitölu Hagstofu Íslands. Miðað við hækkun hennar frá desember 1994 til desember 1998 ætti upphæð fulls lífeyris að vera 191.622 kr. en ekki 181.476 kr. eins og lagt er til í framangreindu ákvæði. Minni hlutinn tel­ur því að fjárhæðinni þurfi að breyta til samræmis við þetta.
    Í b-lið sömu greinar er fjallað um skerðingu lífeyris hjóna ef bæði fá lífeyri. Minni hlutinn tekur undir álit frá Aðgerðahópi aldraðra sem telur að mismunun fólks eftir heimilishaldi stríði gegn jafnrétti og að skerðing grunnlífeyris af þessari ástæðu feli því í sér ranglæti. Af þeim sökum telur hann að ákvæðinu þurfi að breyta þannig að lífeyrir hjóna sem bæði fá líf­eyri verði tvöfaldur lífeyrir einstaklings.
    Í 14. gr. frumvarpsins er breyting sem varðar kostnað við læknismeðferð psoriasissjúk­linga. Í greinargerð með frumvarpinu er breytingin m.a. skýrð með því að eftir tilkomu Bláa lónsins sé ekki þörf á sérákvæðum um læknishjálp psoriasissjúklinga á meðferðarstofnunum erlendis. Rétt er að geta þess að í nefndinni komu fram upplýsingar um að meðferð í Bláa lóninu dugar ekki öllum sjúklingum. Með þessu er verið að afnema sérákvæði sem fortaks­laust hafa veitt psoriasissjúklingum rétt á loftslagsmeðferð erlendis. Minni hlutinn telur það rangt og leggur áherslu á að þessari grein þurfi að breyta.
    Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson, áheyrnarfulltrúi þingflokks óháðra, er samþykkur álitinu.

Alþingi, 5. mars 1999.



Össur Skarphéðinsson,


form., frsm.


Bryndís Hlöðversdóttir.