Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1109  —  509. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um Háskóla Íslands.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein frá menntamála­ráðuneyti og Gunnar Jóhann Birgisson hrl., Pál Skúlason rektor og Þórð Kristinsson frá Há­skóla Íslands, Guðvarð Má Gunnlaugsson og Sveinbjörn Gizurarson frá Félagi háskóla­kennara og Ásdísi Magnúsdóttur og Pétur Maack Þorsteinsson frá stúdentaráði Háskóla Ís­lands.
    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar þess að almenn lög voru sett um háskóla í árslok 1997. Þau lög, nr. 136/1997, hafa að geyma meginreglur um starfsemi háskóla þar sem kveðið er almennt á um hlutverk háskóla, stjórnsýslu hans og fjárveitingar til hans frá ríkis­valdinu. Við setningu laganna var gert ráð fyrir að lög hvers háskóla yrðu endurskoðuð og einfölduð, nánari útfærslur á starfsemi hvers skóla yrði að finna í sérlögum, reglugerð og öðrum reglum hvers skóla. Ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við þetta.
    Í frumvarpinu er að finna grundvallarreglur um stjórnskipulag, stjórnsýslu, starfslið og nemendur skólans. Nánari reglur um starfsemi Háskóla Íslands setur háskólaráð sem er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans. Í samræmi við lög um háskóla, nr. 136/1997, er eitt af grundvallarmarkmiðum frumvarpsins að auka sjálfstæði Háskóla Íslands. Kemur það m.a. fram í því að lagt er til að háskólinn fái aukið vald til þess að setja sjálfur reglur um ýmis framkvæmdar- og útfærsluatriði, án atbeina menntamálaráðherra. Í samræmi við það er lagt til í frumvarpinu að háskólarektor ráði kennara skólans og flesta aðra starfsmenn í stað menntamálaráðherra eins og nú er. Einnig er gert ráð fyrir að reglur sem varða starfsemi skólans og deilda innan hans verði settar af aðilum innan háskólans en samkvæmt gildandi lögum setur ráðherra í reglugerð ýmsar af þessum reglum. Þá eru lagðar til róttækar breyt­ingar á æðstu stjórn háskólans en gert er ráð fyrir að hún verði falin háskólaráði og rektor. Þá er gert ráð fyrir að komið verði á háskólafundi sem yrði eins konar þing háskólamanna þar sem saman koma fulltrúar deilda og stofnana háskólans, fulltrúar starfsmanna, stjórn­sýslunnar, stúdenta og þjóðlífs. Honum er ætlað tvenns konar hlutverk, annars vegar að vera samráðsvettvangur og koma að sameiginlegum málefnum háskólans og hins vegar að veita umsögn þegar meginreglur er varða stjórnskipulag háskólans eru settar. Æðsta stjórn há­skólans er í höndum háskólaráðs, rektors og sameiginlegrar stjórnsýslu.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar til samræmingar annars vegar við lög um háskóla, nr. 136/1997, og hins vegar við lög um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997, og frumvarp um Háskólann á Akureyri sem liggur fyrir þinginu:
     1.      Lögð er til orðalagsbreyting á 3. mgr. 2. gr. þar sem tilvísun til háskólaráðs hefur fallið út í frumvarpinu.
     2.      Í lögum um háskóla er í 3. mgr. 19. gr. kveðið á um að í sérlögum skuli setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla. Í 3. mgr. 13. gr. frumvarpsins er kveðið á um greiðslu skrásetningargjalds. Fjárhæð skrásetn­ingargjalds tekur mið af kostnaði vegna innritunar, kennsluefnis og annars sem skólinn lætur nemendum í té og er nauðsynlegt vegna starfsemi skólans. Nefndin leggur til orða­lagsbreytingu á þeirri grein til samræmis við sérlög um aðra háskóla en í 2. mgr. 4. gr. laga um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997, er að finna sambærilegt orðalag. Með breytingunni kveður frumvarpið á um að við skrásetningu til náms greiði stúdent skrá­setningargjald, allt að 25.000 kr. Ekki er um efnisbreytingu að ræða.
     3.      Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á 2. mgr. 18. gr. til samræmis við sambærileg ákvæði í frumvörpum sem eru til afgreiðslu í þinginu um breytingu á lögum um Kenn­araháskóla Íslands og um Háskólann á Akureyri. Lögð skal áhersla á að háskólaráði er heimilt að semja við ýmsa aðila, t.d. stúdentaráð Háskóla Íslands sem samtök stúdenta, um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands að því tilskildu að farið sé að ákvæðum 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Samið hefur verið við stúdentaráð hingað til um að veita ákveðna þjónustu og komið hefur fram í máli fulltrúa Háskóla Íslands að engin áform eru uppi um að breyta því fyrirkomulagi.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. mars 1999.Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Kristín Ástgeirsdóttir.Guðný Guðbjörnsdóttir,


með fyrirvara.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Svanhildur Árnadóttir.Elín R. Líndal.


Svanfríður Jónasdóttir,


með fyrirvara.


Árni Johnsen.