Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1118  —  526. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson og Sigríði A. Arnardóttur frá umhverfisráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Sambandi íslenskra sveit­arfélaga og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá fyrir eftir­litsskylda starfsemi sé eftirlitið á vegum sveitarfélaganna sjálfra. Með frumvarpinu er horfið frá því að ráðherra setji hámarksgjaldskrá sem gildi fyrir öll sveitarfélög. Í stað þess er lagt til að gefnar verði út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sem settar verði á grundvelli 1. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til eina breytingu á frumvarpinu. Eðlilegt þykir að fulltrúi atvinnu­rekenda á eftirlitssvæðinu í heilbrigðisnefndinni hafi fulla aðild að nefndinni og hafi at­kvæðisrétt á fundum hennar.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Landið skiptist í eftirlitssvæði og skal heilbrigðisnefnd, kosin eftir hverjar sveitarstjórnar­kosningar, starfa á hverju svæði. Í hverri nefnd skulu eiga sæti sex menn, fimm kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum, þar af skal einn vera formaður, og einn tilnefndur af sam­tökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jafnt í nefndinni. Náttúruverndarnefndir sveitarfélaga á eftirlitssvæðinu eiga rétt á að til­nefna einn fulltrúa í nefndina til viðbótar en hann hefur ekki atkvæðisrétt við afgreiðslu mála í nefndinni. Sömu reglur gilda um varamenn.

Alþingi, 10. mars 1999.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Árni M. Mathiesen.


Kristján Pálsson.



Tómas Ingi Olrich.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.




Prentað upp.