Ferill 41. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1134  —  41. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um undirritun Kyoto-bókunarinnar.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna. Á fund nefndarinnar kom Magnús Jóhannesson, ráðu­neytisstjóri umhverfisráðuneytisins. Umsagnir bárust frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Landsvirkjun, Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands. Þá óskaði nefndin eftir umsögn utanríkismálanefndar og er hún birt sem fylgiskjal með þessu áliti.
    Ísland hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegri umræðu um umhverfismál og tók meðal annars þátt í lokagerð rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem undirritaður var fyrir Íslands hönd á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro 12. júní 1992. Með ályktun Alþingis frá 7. maí 1993 var ríkisstjórninni heimilað að fullgilda þennan samning fyrir Íslands hönd. Ísland tók einnig virkan þátt í undirbúnings­vinnu bókunar við samninginn sem lokið var við í Kyoto 10. desember 1997 og hefur verið kennd við þá borg. Gerð Kyoto-bókunarinnar var hins vegar ekki lokapunktur í samninga­ferlinu. Ólokið er útfærslu sveiganleikaákvæða bókunarinnar sem svo hafa verið nefnd, þ.e. viðskiptum með losunarkvóta, sameiginlegri framkvæmd verkefna í löndum ríkja OECD og Austur-Evrópu (Annex I ríki samningsins) og verkefnum í þróunarríkjunum. Í Kyoto var einnig ákveðið að taka til skoðunar stöðu ríkja þar sem einstök verkefni mundu hafa veruleg hlutfallsleg áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda á skuldbindingartímabili bókunarinnar, árin 2008–2012. Hefur þetta verið nefnt íslenska ákvæðið. Fyrsta umfjöllun um þetta ákvæði lokasamþykktar Kyoto-fundarins var á fundi undirnefnda rammasamningsins í Bonn í júní 1998 og síðan var málið aftur til umfjöllunar á fjórða aðildarríkjaþingi rammasamningsins í Buenos Aires í nóvember sama ár. Á því gerði Ísland tillögu að ákvörðun í málinu sem naut stuðnings Bandaríkjanna, Ástralíu, Sviss og Mónakó en andstöðu ESB, Kanada, smáeyja­ríkja og þróunarríkja. Málflutningur þeirra sem voru andsnúnir íslensku tillögunni sýndi að enn skortir nokkuð á að fullur skilningur sé á sérstöðu Íslands. Þótt engin ákvörðun hafi ver­ið tekin um íslenska ákvæðið á fundinum í Buenos Aires tryggðu góð og fagleg vinnubrögð íslensku samningamannanna að umfjöllun um málið verður haldið áfram með það fyrir aug­um að afgreiða það á næsta aðildarríkjaþingi sem haldið verður í haust. Fyrir liggur einnig að semja þarf frekar um bindingu koltvíoxíðs með ræktun og þar er mikilvægt að fá viður­kennt að aðgerðir í landgræðslu verði metnar í því sambandi.
    Ísland hefur mikla sérstöðu meðal þjóða heims þegar kemur að losun gróðurhúsaloftteg­unda og hefur mikla hagsmuni af því að reynt verði til þrautar að fá hana viðurkennda við samningaborð aðildarríkja rammasamningsins um loftslagsbreytingar. Í áliti utanríkismála­nefndar kemur fram að meiri hlutinn telur að undirritun Kyoto-bókunarinnar af hálfu Íslands væri til þess fallin að veikja tiltrú viðsemjenda okkar á því að ásættanleg útfærsla íslenska ákvæðisins sé forsenda fyrir aðild okkar að bókuninni eins og stjórnvöld hafa lýst yfir allt frá lokum Kyoto-ráðstefnunnar. Þá er það yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að Ísland gerist aðili að bókuninni, enda verði tryggt að við getum áfram nýtt endurnýjanlegar orkulindir bæði til þess að tryggja framfarir og velmegun hér á landi og til þess að draga úr notkun mengandi orkugjafa í heiminum. Meiri hlutinn styður þessi sjónarmið. Hann telur jafnframt að málflutningur Íslands í alþjóðlegum samningaviðræðum sem byggður er á málefnalegum og lagalegum grunni eigi ekki að skaða ímynd Íslands á alþjóðavettvangi sem merkisbera náttúru- og umhverfisverndar eins og minni hluti utanríkismálanefndar óttast.
    Með vísan til framangreinds og meðfylgjandi álits meiri hluta utanríkismálanefndar telur meiri hlutinn að undirritun Kyoto-bókunarinnar sé ótímabær og leggur til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 9. mars 1999.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Tómas Ingi Olrich.


Árni M. Mathiesen.



Kristján Pálsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.





Fylgiskjal.


Álit utanríkismálanefndar
(5. mars 1999.)

    

    Á fundi utanríkismálanefndar í dag var tekin fyrir beiðni umhverfisnefndar um að utan­ríkismálanefnd gæfi umsögn um 41. mál, undirritun Kyoto-bókunarinnar. Á fund nefndar­innar komu Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, og Helgi Ágústs­son, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins. Nefndin fjallaði einnig um málið á fundi sínum 24. febrúar sl. að viðstöddum utanríkisráðherra.
    Nefndin er ekki einhuga í afstöðu sinni til málsins.
    Meiri hlutinn (TIO, ÁMM, ÁRÁ, GMS, LMR, SF) telur að samþykkt tillögunnar mundi ekki styðja hagsmuni Íslendinga og mælir því ekki með samþykkt hennar. Samhliða samþykkt Kyoto-bókunarinnar var ákveðið að taka til skoðunar stöðu ríkja þar sem einstök verk­efni mundu hafa veruleg hlutfallsleg áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda á skuldbindingar­tímabilinu. Hefur þetta verið nefnt íslenska ákvæðið. Enn standa yfir samningaviðræður um útfærslu á ákvæðinu. Undirritun Kyoto-bókunarinnar af hálfu Íslands væri til þess fallin að veikja tiltrú viðsemjenda okkar á því að ásættanleg útfærsla íslenska ákvæðisins sé forsenda fyrir aðild okkar að bókuninni eins og stjórnvöld hafa lýst yfir allt frá lokum Kyoto-ráðstefn­unnar. Sérstaklega ber að hafa í huga að enginn munur er á réttarstöðu þeirra aðildarríkja bókunarinnar sem undirrita hana fyrir 15. mars og þeirra sem gerast aðilar að henni síðar. Þá er enn fremur ljóst að Kyoto-bókunin öðlast ekki gildi fyrr en að nokkrum árum liðnum og því er enn töluverður tími til stefnu fyrir Íslendinga að gerast stofnaðilar að henni. Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar, og skoðun meiri hlutans, að Ísland gerist aðili að bókun­inni, enda verði tryggt að við getum áfram nýtt endurnýjanlegar orkulindir bæði til þess að tryggja framfarir og velmegun hér á landi og til þess að draga úr notkun mengandi orkugjafa í heiminum.
    Minni hlutinn og fulltrúar Samfylkingarinnar (ÖS, MF, SighB) leggja hins vegar til að tillagan verði samþykkt. Með því lýsi Alþingi yfir þeirri skoðun sinni að það hafi verið rangt af íslensku ríkisstjórninni að ákveða að undirrita ekki Kyoto-bókunina fyrir 15. mars. Undirritun bókunarinnar er ekki bindandi í skilningi þjóðaréttar. Hún felur hins vegar í sér yfirlýsingu um stefnu Íslendinga varðandi þá niðurstöðu sem felst í Kyoto-bókuninni við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna telja fulltrúar Samfylkingarinnar að ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé röng og skemmi ímynd Íslands á alþjóðavettvangi sem merkis­bera náttúru- og umhverfisverndar. Þeir telja hana sömuleiðis ekki þjóna heildarhagsmunum Íslands, en rætist verstu spár um loftslagsbreytingar af völdum losunar gróðurhúsaloftteg­unda gæti það hugsanlega leitt til þess að landið yrði óbyggilegt. Þá telja fulltrúar Samfylk­ingarinnar ákvörðunina fráleitt heppilega til að ná fram skilningi annarra þjóða á því sem ríkisstjórnin hefur skilgreint sem „sérstöðu“ landsins og taka heils hugar undir þá skoðun Halldórs Þorgeirssonar, aðalsamningamanns Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóð­anna, að höfnun á að undirrita bókunina tefji fyrir því að Ísland nái fram samningsmarkmið­um sínum.

Tómas Ingi Olrich formaður.