Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 10:47:27 (242)

1999-06-15 10:47:27# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[10:47]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Sú breyting sem við ræðum hér um er greinilega mikil minnkun á því atkvæðamisvægi sem verið hefur, þ.e. það lagast margt í hugum þeirra sem vilja fá jafnan atkvæðisrétt fyrir alla. Ég er einn af þeim. Ég tel að það eigi ekki að blanda neinu öðru saman við mannréttindi eins og atkvæðisrétt. Ég tel að hver maður eigi að hafa fullt og óskorað atkvæði hvar sem hann býr, án tillits til aðstæðna.

Ég spyr enn hv. þm.: Telur hann eðlilegt að blanda saman t.d. efnahagslegum aðstæðum og mannréttindum?