Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 10:48:12 (243)

1999-06-15 10:48:12# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[10:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef verið að gera tillögu um það á hvern hátt hægt er að tryggja mannréttindi og stuðla að efnahagslegum og lýðræðislegum jöfnuði, hvoru tveggja í senn. Út á það ganga tillögur mínar.

Ég hef lýst áhyggjum yfir því að allt að 10 þúsund atkvæði skuli falla dauð við þær breytingar sem hér er verið að gera. Mönnum er umhugað að draga úr misvægi atkvæða, sem mér finnst vera æskilegt. Að sjálfsögðu finnst mér æskilegt að draga úr misvægi atkvæða. En ég vil horfa til annarra þátta. Ef mönnum er umhugað að gera þetta, hvers vegna ekki að stíga skrefið til fulls? Samkvæmt þessum breytingum er gert ráð fyrir að misvægið gæti orðið 1:2. Hvers vegna ekki að stíga skrefið til fulls og gera róttækar breytingar á öllu kosningafyrirkomulaginu og stjórnskipan og gera landið að einu kjördæmi? Forsenda þess að ráðist yrði í slíkar breytingar er að mínum dómi að annað fylgdi með í þeirri spyrðu. Þess vegna legg ég til að skapað verði nýtt stjórnsýslustig í eins konar fylkjafyrirkomulagi.

Margt sem er að gerast í heiminum í dag styður í reynd þá hugsun. Það er verið að færa ýmis verkefni til sveitarfélaga. Hér á landi eru sveitarfélögin of fámenn til að rísa undir slíkum byrðum. Þá væri æskilegt að finna nýtt stjórnsýslustig sem væri einhvers staðar á milli fámennra sveitarfélaga og ríkisins.