Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


124. löggjafarþing 1999.
Þskj. 3  —  3. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram mat samkvæmt lögum nr. 63/1993 á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, þrátt fyrir að virkjunarleyfi hafi verið veitt.

Greinargerð.


Heimildarlög og virkjunarleyfi.
    Með lögum nr. 60/1981 var ríkisstjórninni heimilað að semja við Landsvirkjun, m.a. um að reisa og reka virkjun Jökulsár í Fljótsdal (Fljótsdalsvirkjun). Með þingsályktun um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu 6. maí 1982 ályktaði Alþingi um virkjanaröð þannig að Blönduvirkjun skyldi verða næsta stórvirkjun landsins en á eftir henni yrði ráðist í byggingu Fljótsdalsvirkjunar. Með breytingu á lögum um raforkuver, með lögum nr. 74/1990, var ályktun um röðun virkjana frá 1982 felld úr gildi og skyldi röð við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar. Þó var í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að ráðist yrði í Fljótsdalsvirkjun sem næstu virkjun, ef samningar næðust um byggingu álbræðslu á Keilisnesi á grundvelli yfirlýsingar frá 13. mars 1990.
    Hinn 24. apríl 1991 veitti iðnaðarráðherra Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun, 210 MW að stærð ásamt aðalorkuveitum. Í bréfinu segir að með vísan til vatnalaga muni ráðuneytið birta auglýsingu í Lögbirtingablaðinu varðandi hina ráðgerðu virkjun „þar sem þeim er hagsmuna eiga að gæta, er gefinn kostur á að koma fram með athugasemdir við virkjunaráformin. Er leyfi þetta bundið því skilyrði, að Landsvirkjun ábyrgist úrlausn þeirra vandamála, sem upp kunna að rísa vegna slíkra athugasemda, að höfðu samráði við ráðuneytið.“ Í umræddri auglýsingu var vísað til framlagðra gagna um virkjunina. Allmargar athugasemdir bárust í kjölfar auglýsingarinnar, bæði varðandi tilhögun og umhverfisáhrif virkjunarinnar.

Lög um mat á umhverfisáhrifum.
    Árið 1993 voru sett lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Markmið laganna er skv. 1. gr. „að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna, vegna staðsetningar, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur liður í gerð skipulagsáætlana“. Í 5. gr. laganna eru taldar upp framkvæmdir sem háðar eru umhverfismati og eru þar efst á blaði „vatnsorkuvirkjanir með uppsett afl 10 MW eða meira eða vatnsmiðlanir þar sem meira en 3 km 2 lands fara undir vatn vegna stíflumannvirkjanna og/eða breytinga á árfarvegi“. Þess má geta að lagning nýrra vega og þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan byggða eru matsskyldar. Í bráðabirgðaákvæði II við lögin segir: „Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum.“ Vegna þessa ákvæðis og virkjunarleyfis sem út var gefið 1991 virðist að óbreyttu ekki lagaskylda að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar, nema til komi breytingar á virkjunartilhögun.

Verndargildi Eyjabakkasvæðisins.
    Fegurð og verndargildi Eyjabakkasvæðisins sem færi undir miðlunarlón Fljótsdalsvirkjunar samkvæmt fyrirliggjandi virkjunaráætlun eru almennt viðurkennd. Eyjabakkasvæðið hefur lengi verið á náttúruminjaskrá og þegar Náttúruverndarráð ályktaði um virkjun Jökulsár í Fljótsdal 26. mars 1981 var það með miklum trega að ráðið vildi „fyrir sitt leyti ekki leggjast gegn Fljótsdalsvirkjun, telji orkuyfirvöld hana nauðsynlega. Sú afstaða mótast m.a. af því að samkomulag hefur tekist um varanlega verndun Þjórsárvera, sem frá sjónarmiði náttúruverndar og samkvæmt niðurstöðum rannsókna á báðum þessum svæðum eru talin enn mikilvægari hálendisvin.“ Í ítarlegri greinargerð Náttúruverndarráðs um málið segir m.a.:
    „Eyjabakkar eru gróskumikið flæðiland í fögru umhverfi. Á hálendinu eru fá gróðurlendi á borð við þá. Fyrst og fremst eru það Þjórsárver við Hofsjökul, Hvítárnes og örfáir staðir á Möðrudalsöræfum. Allir þessir staðir eru hentugir fyrir miðlunarlón vegna virkjana, en jafnframt er náttúruverndargildi þeirra mikið. Náttúruverndarráð telur ekki annað koma til greina en þyrma einhverjum þessara svæða, og því þarf að líta á þau í samhengi þegar áformað er að taka eitthvert þeirra undir miðlunarlón.“ Umsögn Náttúruverndarráðs endurspeglar á heildina litið fremur veika stöðu þess og náttúruverndar í landinu á þessum tíma.
    Mikil breyting hefur orðið á viðhorfum til verndunar hálendissvæða síðustu tvo áratugi og tengist það aukinni kynningu, ferðalögum almennings og gildi lítt snortinnar náttúru fyrir ferðaþjónustu. Jafnframt hafa framhaldsrannsóknir á náttúrufari Eyjabakkasvæðisins gert mönnum ljósari en áður þýðingu þess, m.a. fyrir heiðagæsastofninn. Margir forkunnarfagrir fossar í Jökulsá í Fljótsdal hafa einnig vakið menn til umhugsunar um það sem tapast mundi með virkjun árinnar. Að frumkvæði Náttúruverndarsamtaka Austurlands, NAUST, var á níunda áratugnum mótuð tillaga um friðlýsingu Snæfells og Vesturöræfa. Sú tillaga hefur hins vegar enn ekki náð fram að ganga þrátt fyrir atbeina Náttúruverndarráðs og nú Náttúruverndar ríkisins. Virðist einkum fyrirstaða hjá virkjunaraðilum við framgang þessarar sjálfsögðu verndaraðgerðar þótt hún snerti ekki með beinum hætti virkjun Jökulsár í Fljótsdal.

Þörf á víðtæku mati.
    Þrátt fyrir margháttaða viðleitni Náttúruverndarráðs og áhugamanna um náttúruvernd til að fá fram heildstætt mat á verndargildi hálendisins og einstakra þátta í náttúrufari þess hefur takmarkaður árangur náðst til þessa. Fjárveitingar til slíkrar vinnu hafa verið litlar sem engar á sama tíma og miklu fé er varið til rannsókna á hagnýtingu vatnsaflsins og undirbúnings einstakra virkjana.
    Hinn 24. apríl 1989 samþykkti Alþingi þingsályktun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar.“
    Þessu verki hefur enn ekki verið lokið þrátt fyrir nokkra viðleitni til að þoka því áfram, aðallega í samstarfi iðnaðarráðuneytis og Náttúruverndarráðs í svonefndri SINO-nefnd, sem sett var á fót þegar árið 1972. Þetta verkefni er enn sem fyrr brýnt.

Svæðisskipulag – ástæða til endurskoðunar.

    Í tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins til 2015, sem unnin var á vegum samvinnunefndar héraðsnefnda sveitarfélaga á árunum 1994–97 og skilað í maí 1997, segir um Fljótsdalsvirkjun á vatnasviði Jökulsár í Fljótsdal: „Hugsanlega tengd Kárahnjúkavirkjun, stærð allt að 1.200 GWh/ári. Fyrirvari um lónastærðir á Eyjabakkasvæðinu. Gildi Eyjabakkasvæðisins vegna sérstæðs gróðurfars, dýralífs, landslags o.fl. er svo mikið að ástæða er til að endurskoða tilhögun virkjunar samkvæmt gildandi lögum. Svæðið hefur einnig mikið gildi fyrir ferðaþjónustuna. Gert er ráð fyrir að skoðaðir verði til hlítar möguleikar á að virkja saman Jökulsá á Brú (Kárahnjúkavirkjun) og Jökulsá í Fljótsdal með þeim hætti að Kárahnjúkalón geti nýst sem miðlun fyir bæði vatnasviðin. Heimiluð með lögum 1981 og leyfi ráðherra var veitt fyrir 1. 5. 1994. Virkjunin er því aðeins matsskyld ef um breytingar er að ræða frá upphaflegum áætlunum.“
    Í umsögn samvinnunefndarinnar í ágúst 1998 um innsendar athugasemdir eftir auglýsingu 6. júní til 10. desember 1997 segir svo um Fljótsdalsvirkjun og Norðlingaölduveitu: „Heimild samvinnunefndarinnar til þess að setja fyrirvara um útfærslur einstakra stórframkvæmda á borð við virkjanir snýr að ýmsum grundvallaratriðum skipulagsvinnu. Andi skipulagslaganna er að hlutverk svæðisskipulags sé að samræma og samþætta mismunandi hagsmuni í landnotkun. Nefndin telur að eðlilegt sé að endurmeta 15 ára gömul áform með tilliti til breyttra forsendna, m.a. nýrrar tækni og breyttra viðhorfa til umhverfismála. Gert er ráð fyrir að bæði Fljótsdalsvirkjun og Norðlingaölduveita geti komið til framkvæmda á skipulagstímanum í einhverri mynd. Gerðir eru fyrirvarar um stærð miðlunarlóna á gróðurlendum í 600 m y.s. sem eru meðal stærstu fuglabyggða hálendisins. Á landnotkunaruppdráttum 2 og 3 eru annars vegar sýnd náttúruverndarsvæði og hins vegar orkuvinnslusvæði. Á Eyjabakkasvæðinu koma báðir þessir landnotkunarflokkar við sögu sem er í samræmi við skipulagsuppdráttinn, þ.e. blönduð landnotkun.“

Krafa margra um mat á umhverfisáhrifum.
    Náttúruverndarsamtök Austurlands, NAUST, hafa ítrekað talað fyrir verndun Eyjabakkasvæðisins. Vorið 1997 var Félag um verndun hálendis Austurlands stofnað og hefur það meðal annars beitt sér fyrir því að áform um virkjun Jökulsár í Fljótsdal fari í formlegt umhverfismat samkvæmt lögum nr. 63/1993. Vaxandi undirtektir hafa verið við slíka málsmeðferð heima fyrir á Austurlandi og annars staðar á landinu. Hafa fjölmargir orðið til að lýsa fylgi við þá málsmeðferð. Sú staðreynd að uppi eru áform um víðtæka nýtingu vatnsafls norðan Vatnajökuls, allt frá Hraunum í austri til Jökulsár á Fjöllum, ætti að hvetja til að litið sé heildstætt á þetta svæði og óeðlilegt að undanskilja Fljótsdalsvirkjun eina mati á umhverfisáhrifum. Sautján ár eru liðin frá því að heimildarlög voru sett um virkjunina og sjö ár frá því að stjórnvöld veittu virkjunarleyfi. Með því að samþykkja áskorun til ríkisstjórnarinnar um að mat fari fram á umhverfisáhrifum virkjunarinnar, eins og lögbundið er um hliðstæð mannvirki, legði Alþingi sitt af mörkum til að sem skýrust mynd lægi fyrir og almannaviðhorf kæmu fram um málið eins og eðlilegt verður að teljast áður en ákvarðanir eru teknar.
    Þingsályktunartillaga þessi hefur verið flutt tvisvar áður, á 122. og 123. löggjafarþingi, og er nú endurflutt nær óbreytt. Þrátt fyrir að enn sé áætluð uppbygging álvers við Reyðarfjörð er ljóst að þau áform munu ekki koma til framkvæmda í bráð. Jafnframt er ljóst að norska fyrirtækið Norsk Hydro hefur fallið frá áformum sínum um að vera í forustu hugsanlegs rekstrar slíkrar verksmiðju. Ríkisstjórnin virðist ætla sér að fjármagna byggingu álversins með innlendu hlutafé að miklum meiri hluta. Það er því krafa flutningsmanna að fram fari lögformlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.


Fylgiskjal.



Helgi Hallgrímsson og
Skarphéðinn G. Þórisson:


Hvað fer forgörðum við Fljótsdalsvirkjun?
(Morgunblaðið, 9. júlí 1998.)

    Fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun hefur mikið verið á döfinni undanfarið. Saga hennar spannar meira en hálfa öld, og er vörðuð af tilviljunarkenndum atvikum og hrossakaupum. Frá sjónarmiði náttúruverndar er það sannkölluð slysasaga, því að þarna eru meiri náttúruverðmæti í húfi en dæmi eru um við nokkra aðra virkjun á Íslandi. Ef virkjun Jökulsár í Fljótsdal hefði ekki verið rannsökuð og hönnuð, heimiluð af Alþingi 1981 og virkjunarleyfi fengið 1991, hefði líklega fáum dottið í hug nú á tímum að stofna til hennar, á svæði sem með réttu má kalla hjarta Austurlands, við rætur Snæfells, sem er heilagt fjall í hugum margra Austfirðinga. Nú geta allir nagað sig í handarbökin; stjórnmálamenn fyrir afglöp sín, og náttúruverndarsinnar fyrir að hafa látið þetta viðgangast. Þó er enn lag. Af einhverri slembilukku hefur virkjunin ekki komist í framkvæmd, og því er mikilvægustu spurningunni ósvarað: Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessum mistökum? Svo virðist sem margir Austfirðingar og aðrir séu ekki nógu vel upplýstir um náttúrufar þessa virkjunarsvæðis, og geri sér ekki grein fyrir því sem þar er í húfi. Hér verður því reynt að gefa yfirlit um þau náttúruverðmæti sem spillast eða fara forgörðum við fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun, og þá umhverfisröskun sem þar gæti átt sér stað.
     1. Eyjabakkasvæðið.
    Eyjabakkasvæðið er almennt talið önnur merkasta hálendisvin á Íslandi, og gengur næst Þjórsárverum við Hofsjökul, sem því er oft jafnað við. Eyjabakkar liggja að jafnaði um 70 m hærra yfir sjó. Þó eru þar ekki teljandi freðmýrar, eins og í Þjórsárverum, enda er loftslag meginlandskenndara á Eyjabökkum og hagstæðara lífi. Ríkulegur gróður og dýralíf þrífst á báðum svæðum, og bæði eru mjög mikilvæg fyrir viðhald íslensk-grænlenska heiðagæsastofnsins. Nálægð Eyjabakka við risafjallið Snæfell (1.833 m), og hin firnalegu hvel Vatnajökuls, gefur svæðinu sérstakt gildi, og á sinn þátt í fjölbreytni þess og grósku. Eyjabakkar eru flæðislétta í grunnu og víðu dalverpi austan Snæfells, sem Jökulsá í Fljótsdal kvíslast um, milli gróinna eyja og hólma, með óteljandi pollum og tjörnum. Þessi mósaík gróðurvana aura, iðgrænna hólma, grárra og blárra árkvísla, og alla vega litra tjarna, í grennd við hvítan jökul og litskrúðugar hlíðar Snæfells, er listaverk náttúrunnar sem varla á sinn líka.
    a) Lónstæðið. Mestallt undirlendi austan og suðaustan við Snæfell færi undir Eyjabakkalón, alls um 45 km 2, en þar af eru um 37 km 2 gróið land, eða um 82%. Lónið myndi ná frá Eyjabakkafossi að norðan inn að Eyjabakkajökli, en Eyjafell og hæstu jökulgarðar við það myndu standa upp úr því. Vestan Jökulsár færu Snæfellsnes, undirhlíð Snæfellsháls og Þjófagilsflói undir vatn. Að austan færu Eyjabakkar (í þrengri merkingu) og Bergkvíslanes undir vatn, og milli kvíslanna Eyjafellsflói og Þóriseyjar allar. Ef nýjustu hugmyndir um „Hraunavirkjun“ verða að veruleika yrði vatnsborð í Eyjabakkalóni hækkað um 5–7 m, og myndi stærð þess aukast um 5–10 km 2, sem er nær allt saman gróið land.
    b) Votlendi og gróður. Um þriðjungur hins gróna lands sem færi undir lónið er votlendi. Af því eru Eyjar og Eyjafellsflói líffræðilega (vistfræðilega) mikilvægust. Þar er um að ræða flóaland, með ríkulegum staragróðri, sem er alsett grunnum smávötnum og tjörnum, með margvíslegum vatnagróðri og dýralífi, umkringt kvíslum og lænum af jökulvatni og bergvatni. Hvergi á Íslandi er samsvarandi votlendi að finna í þessari hæð yfir sjó (um 650 m), eða svo nálægt jökli. Háplöntuflóra er fjölbreyttari á Eyjabakkasvæðinu en á nærliggjandi öræfasvæðum. (Eyðing votlendis á Eyjabökkum brýtur í bága við alþjóðlegar reglur um votlendisvernd, sjá d-lið.)
    c) Fuglalíf er mikið á Eyjabakkasvæðinu á vissum árstímum. Af fuglum ber mest á heiðagæs og álft og verpur töluvert af þeirri síðarnefndu á svæðinu. Álftaveiði á Eyjabökkum var fyrrum talin til hlunninda. Á svæðinu er lítið heiðagæsavarp, en aftur á móti er það mjög þýðingarmikið fyrir heiðagæsir í fjaðrafelli, er safnast þar saman í júlí svo þúsundum skiptir. Á tímabilinu 1987–97 hefur gæsafjöldinn verið að meðaltali 8.400 fuglar. Árið 1991 töldust þær rúmlega 13 þúsund, sem er um helmingur allra geldra heiðagæsa á landinu, og um 10–15% af öllum geldfuglum í íslensk-grænlenska heiðagæsastofninum, eða um 7% af þessum stofni, og um leið er það stærsti hópur þeirra sem vitað er um í heiminum.
    Samkvæmt Ramsar-sáttmálanum um verndun votlendis, sem Íslendingar hafa undirritað, og skilgreiningu alþjóðlega fuglaverndarráðsins, eru svæði talin hafa alþjóðlegt verndargildi ef 1% eða meira af einhverjum stofni vatnafugla nýtir þau í lengri eða skemmri tíma. Eyjabakkasvæðið hefur því ótvírætt verndargildi á heimsvísu.
    d) Spendýr. Hreindýr hafa nýtt sér Eyjabakkasvæðið til beitar, einkum seinni part sumars, og virðast nú sækja þangað um miðsumar í auknum mæli. Samkvæmt júlítalningum áranna 1992–97 voru að meðaltali 38% allra hreindýra á Snæfellsöræfum austan Snæfells, en aðeins um 9% á árunum 1979–91. Nokkur tófugreni eru á jöðrum Eyjabakkasvæðis. Eyjabakkasvæðið er verulegur hluti afréttarinnar „Undir Fellum“, þar sem sauðfé Fljótsdælinga gengur á sumrum. Í tveimur talningum í ágúst 1975 og 1977 voru skráðar 110 og 118 kindur á svæðinu. Beitargildi þess gróðurlendis sem færi undir vatn hefur Rannsóknastofnun landbúnaðarins áætlað að svari til 1.280 ærgilda, miðað við 2,5 mánaða beit.
    e) Jökulgarðar (jarðfræðiminjar). Eyjabakkajökull hefur nokkrum sinnum hlaupið fram á síðustu 110 árum, og vanalega ýtt upp mikilfenglegum jökulgörðum (endamórenum) í þeim hlaupum. Í hlaupinu 1890 gekk jökullinn lengst fram, og skóflaði þá upp votlendisjarðvegi í allt að 20 m háa hryggi, sem kallaðir eru Hraukar, en þá er aðallega að finna á bogalínu austur frá Eyjafelli. Framan við þessa hrauka hefur jarðvegurinn á nokkrum stöðum lagst í fellingar, sem líkjast vatnsöldum, og ná allt að km fram á sléttuna, en styttast smám saman og fara lækkandi. Þessar einkennilegu jökulöldur eiga ekki sinn líka hér á landi, og líklega ekki heldur í öðrum löndum. Þær myndu hverfa í Eyjabakkalónið. (Jökulgarðar þessir hafa verið sérstaklega rannsakaðir af próf. Emmy Todtmann frá Hamborg.)
    f) Söguminjar. Tveir gangnamannakofar: Hálskofi og Eyjabakkakofi (Bergkvíslakofi) fara á kaf í lónið, og jafnvel rúst Sjónarhólskofa, ef vatnsborð verður hækkað við Hraunavirkjun.
     2. Snæfell.
    Hið mikla og fagra útsýni af Snæfelli, þar sem Eyjabakkasvæðið er eitt helsta djásnið, myndi bíða mikinn hnekki við Fljótsdalsvirkjun, einkum framan af sumri, þegar lítið er í lóninu. Ef sá hluti virkjunaráætlunar verður framkvæmdur, að veita Hafursá, Hafursárkvísl og Laugará, ásamt upptakakvíslum Hölknár, Grjótár og Sauðár, inn í miðlunarlón eða göng, verður Snæfell umkringt stíflum og skurðum í hálfhring að norðanverðu og aðgengi að fjallinu stórlega skert, fyrir utan þau hrikalegu lýti, sem af þessum mannvirkjum myndu leiða. Þetta hæsta fjall landsins utan jökla, sem margir telja eitt hið fegursta og tignarlegasta hér á landi, og er auk þess í hugum Austfirðinga umvafið sérstökum helgiljóma, yrði þá saurgað og svívirt. Þangað gæti enginn litið nema hugsa með hryllingi til skammsýni og tillitsleysis mannanna.
     3. Jökulsárfossar og gljúfur.
    Í Jökulsá í Fljótsdal er mikið fossaval. Af jökulsám landsins er það líklega aðeins Jökulsá á Fjöllum sem býr yfir meira fossaskrúði, enda fellur áin um 600 m á um 30 km vegalengd. Á bilinu frá Kleif í Fljótsdal upp að Eyjabökkum eru um 15 fossar og fossasyrpur. Nokkrir þessara fossa eru í tölu hinna stærstu og veglegustu hér á landi, svo sem Faxfoss (um 20 m) og Kirkjufoss (um 30 m). Fossunum hafa verið gerð ýtarleg skil í jólablaði Austra 1990 og í 16. og 17. hefti Glettings, þar sem birtar eru litmyndir af þeim. (Af Faxa birtist vegleg kápumynd á ársskýrslu Orkustofnunar 1989.) Eftir virkjun yrðu efri fossarnir varla til lengur, og þeir neðri ekki nema svipur hjá sjón.
    Á tveimur stöðum myndar Jökulsá nokkurra km löng og allt að 70 m djúp gil eða gljúfur. Neðra gilið er í botni Norðurdals og er ákaflega fagurt og með ríkulegum gróðri, m.a. teygir birkiskógurinn Kleifarskógur sig ofan í það, og fossar eru ofantil í því. (Kápumynd á Glettingi 16.) Efra gilið endar í Kirkjufossi. Við virkjun Jökulsár myndu þessi árgil breyta verulega um svip.
    4. Aðrar ár.
    a) Keldá og Sauðár. Í Keldá eru margir fagrir en lítt þekktir fossar, sumir í mjög gróðurríku og fögru umhverfi (Keldárgili/Þorgerðarstaðaskógi). Við ármót Keldár og Ytri-Sauðár eru háir og tignarlegir fossar í báðum ánum. Allir þessir fossar myndu breytast verulega ef Sauðárveita í Eyjabakkalón yrði framkvæmd.
    b) Hafursá og Laugará. Í Hafursá er snotur foss, og í Laugará eru tveir undurfagrir fossar: Slæðufoss og Stuðlafoss. Þessir fossar myndu hverfa við Fljótsdalsvirkjun, skv. núverandi áætlun.
    c) Grjótá og Hölkná. Grjótá leggur til mest af vatni Þuríðarstaðadalsár (Þuru), en í henni eru nokkrir fossar. Í Hölkná er einn myndarlegur foss í Hölknárgili í „Hölknárdal“.
     5. Hraunasvæðið.
    Í öllum áætlunum um Fljótsdalsvirkjun síðan um 1980 hefur verið gert ráð fyrir að veita upptakakvíslum Keldár og Sauðár ytri og fremi (sem falla í Keldá), vestur í Eyjabakkalón, með tilheyrandi skurðum og stíflum. Í síðustu tillögum um Hraunavirkjun er ráðgert að mynda „Keldárlón“, um 8 km 2, er tengjast myndi Eyjabakkalóni, þannig að fyrirhugað vatnsborð beggja yrði um 670 m y.s. Þetta lón myndi kaffæra Folavatn og gróðurlendið umhverfis það, eða um 5 km 2 af algrónu landi. Ef Hraunavirkjun verður framkvæmd hefur hún áhrif á margar ár í Fljótsdal, Skriðdal og á Suðurfjörðum, og fjöldi fagurra fossa verður vatnslítill eða hverfur, þar á meðal Strútsfoss í Strútsá, sem er einn af hæstu fossum landsins, Hofsárfossar í Hofsdal o.fl.
     6. Gönguleiðir.
    Gönguleiðin milli Fljótsdals og Lóns, yfir Eyjabakkajökul, með viðkomu í skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs við Snæfell og Geldingafell, er nú orðin ein vinsælasta gönguleið landsins. Ljóst er að Fljótsdalsvirkjun myndi hafa veruleg áhrif á hana, sérstaklega á leið yfir jökulinn, þar sem Eyjabakkalón myndi blasa við sjónum. (Ferðaskrifstofa sem skipuleggur og selur gönguferðir á þessari leið hefur nýlega lýst yfir að hún muni hætta því ef til virkjunar kemur.) Að sjálfsögðu spillist einnig gönguleiðin upp á Snæfell og umhverfis það, að ógleymdri hinni fögru gönguleið upp með Jökulsá, til fossaskoðunar o.fl.
     7. Áfok og landbrot.
    Eyjabakkalón er tiltölulega grunnt og víðfeðmt, og myndi að líkindum tæmast í flestum árum seinni hluta vetrar. Ef snjóalög eru ekki því meiri gæti orðið umtalsvert áfok af jökulleir úr lónbotninum, einkum til austurs og norðurs. Þar sem hæsta vatnsborð lónsins liggur á jarðvegi og grónu landi, má ætla að geti orðið verulegt landbrot af völdum vatns og íss, og jafnvel uppblástur út frá bökkum.
     8. Efnistaka, úrgangur.
    Ráðgert er að grjótnám í Eyjabakkastíflu fari aðallega fram við stíflustæðið austan Jökulsár, þar sem allþykkt stuðlabergslag yrði brotið upp. Jökulruðningur í þéttiefni yrði tekinn á ýmsum stöðum í nágrenni stíflnanna. Fyrirhugað er að nema steypuefni niðri í Fljótsdal, á Melum innan við Bessastaðaá, og hefur þar verið opnuð náma og harpað efni. Grjótmulningur úr göngunum er ekki talinn nothæfur sem byggingarefni, og verður honum komið fyrir í lægðum nálægt aðkomugöngum.
     9. Vegir og raflínur.
    Uppbyggður vegur hefur þegar verið lagður inn Fljótsdalsheiði, að Laugarfelli, og bílfærar slóðir þaðan í ýmsar áttir. Framlengja verður þennan veg að stíflustæðinu ef til virkjunar kemur, og áfram austur á Hraun, vegna Sauðárveitu. Haustið 1991 óskaði verktakinn (Hagvirki hf.) eftir því að leggja fullkominn bílveg inn Norðurdal og gegnum Kleifarskóg, til að tengja saman vinnubúðir og vinnusvæði við Öxará (Aðkomugöng III). Þessari hugmynd var mótmælt af ýmsum aðilum, og mun Náttúruverndarráð einnig hafa lagst gegn henni. Vegur inn dalinn að austanverðu er hins vegar talinn koma til greina. Þá var fyrirhugað að leggja bráðabirgða-raflínu um Norðurdal upp að vinnslusvæðunum. Gert var ráð fyrir að tengja núverandi „Byggðalínu“ við Fljótsdalsvirkjun, með 132 Kv línu, sexfaldri, á um 20 m háum járngrindastaurum, með 30 m breiðum þverslám, og leggja hana út miðjan Fljótsdal. Þessu var mótmælt af stjórn NAUST og Fljótsdælingum í júlí 1991. (Að öðru leyti verður hér ekki fjallað um raflínur er tengjast þessari virkjun.)
     10. Umhverfismat.
    Þótt ýmsar rannsóknir hafi farið fram á landslagi og lífríki Eyjabakka, teljum við langt frá að þær séu nægilegar til að meta á raunhæfan hátt verndargildi þessa svæðis. Því er óhjákvæmilegt að þar fari fram umhverfismat samkvæmt núgildandi lögum og reglum, eins og fjölmargir hafa lagt til í ræðu og riti. Annað er ekki sæmandi fyrirtæki eins og Landsvirkjun, sem er eign þjóðarinnar, og er mikið í mun að skapa sér nýja og réttsýna ímynd. Hér má ekki rasa um ráð fram, til þess er allt of mikið í húfi.