Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


124. löggjafarþing 1999.
Þskj. 4  —  4. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,


Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að komið verði á vopnahléi í Júgóslavíu. Það verði notað til að hefja viðræður um fyrirkomulag öryggismála og friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu eða koma á annars konar alþjóðlegri öryggisgæslu sem samkomulag getur náðst um til að gera flóttafólki kleift að snúa til síns heima. Jafnframt samþykkir Alþingi að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem fari í samráði við stjórnvöld með eftirfarandi hlutverk:
     a.      að leggja mat á eðli NATO í samhengi við nýja hermálastefnu bandalagsins,
     b.      að gera úttekt á lögmæti hernaðaraðgerða NATO í Júgóslavíu,
     c.      að gera úttekt á umhverfisáhrifum af hernaðinum,
     d.      að marka stefnu varðandi þátttöku Íslands í uppbyggingarstarfi á Balkanskaga.

Greinargerð.


    Á leiðtogafundi NATO sem haldinn var í Washington dagana 23.–25. apríl sl. var einróma samþykkt að bandalagið skyldi eftirleiðis grípa til hernaðaraðgerða utan eigin landsvæða án tillits til samþykkta öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sátu fundinn fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Með nýrri hermálastefnu hefur NATO afhjúpað eðli sitt sem árásarbandalag og tekið sér sjálfdæmi í öryggis- og varnarmálum sem snerta grannríki bandalagsins.
    Hversu mótsagnakennt sem það kann að virðast gerir þessa nýja stefna ráð fyrir því — í orði — að slíkar aðgerðir gangi a.m.k. ekki gegn anda sáttmála Sameinuðu þjóðanna og séu í samræmi við alþjóðalög. Hermálastefnan brýtur í bága við Helsinki-sáttmálann frá 1975 en í 1. kafla hans, 2. gr., heita samningsaðilar því að beita aldrei hver annan valdi né hótunum um slíkt til að leysa ágreiningsmál sín í milli. Sáttmálinn var undirritaður af Geir Hallgrímssyni, þáverandi forsætisráðherra, fyrir Íslands hönd og Josip Broz Tito fyrir hönd Júgóslavíu.
    Stríðsrekstur NATO í Júgóslavíu er fyrsta birtingarmynd fyrrnefndrar hermálastefnu. Hann ber öll einkenni pólitískra aðgerða sem miðast við hagsmuni árásaraðilans eingöngu, í þessu tilviki ekki síst að skapa sér orðspor sem eina fjölþjóðlega stofnunin sem hafi burði til að stöðva stríðsátök. Efast verður um að hernaður NATO gegn Júgóslavíu vegna ófriðarins í Kosvo leiði til framtíðarlausnar á sambúðarvanda þjóðarbrotanna sem í hlut eiga.
    Fyllsta ástæða er til að óttast fordæmisgildi þessara hernaðaraðgerða þar sem bandalag 19 ríkja tekur sér vald til að beita hervaldi utan aðildarlandanna undir því yfirskini að ófriður í nágrenni þeirra geti ógnað stöðugleika innan bandalagsins. Verði það látið óátalið að þessi hópur ríkja brjóti alþjóðalög hlýtur það að bjóða heim hættunni á að aðrir aðilar, sem hafa til þess nægilegan hernaðarmátt, taki sér slíkt sjálfdæmi í öðrum heimshlutum.

Aðdragandi átakanna.
    
Allt frá því að stjórnvöld í Belgrad afnámu sjálfsstjórn Kosovo-héraðs á árunum 1989–90 hefur ríkt mikil spenna í héraðinu. Löggjafarsamkoma héraðsins var þá leyst upp og það fært undir stjórn sambandsríkisins Júgóslavíu en Kosovo hafði verið sjálfsstjórnarhérað í Serbíu samkvæmt stjórnarskrá frá 1974.
    Samkvæmt manntali árið 1981 voru 77% íbúanna Albanar en aðeins 13% Serbar. Albanar tóku ekki þátt í manntali árið 1991 en talið er að þeir séu nú 85–90% íbúanna en Serbar 5–10%. Báðir aðilar hafa óttast mjög um sinn hag allar götur síðan 1980. Albanski meiri hlutinn hefur lýst miklum áhyggjum af bágum efnahag héraðsins og m.a. þess vegna krafist aukinnar sjálfsstjórnar til handa Kosovo. Serbneski minni hlutinn taldi hins vegar mannréttindi sín í alvarlegri hættu undir stjórn Kosovo-Albana.
    Stríðsátökin í Slóveníu, Króatíu og Bosníu og Herzegóvínu, sem liðuðu Júgóslavíu í sundur á árunum 1991–95, náðu ekki til Kosovo-héraðs þrátt fyrir að spennan þar magnaðist með tímanum. Um miðjan áratuginn voru þó stofnuð samtök, sem eru þekkt undir heitinu Frelsisher Kosovo ( Ushtria Çlirimitare Kosovës, UÇK), til að berjast gegn yfirráðum Júgóslavíustjórnar í héraðinu. Sumarið 1996 greip Frelsisherinn til hernaðaraðgerða, einkum gegn serbneskum og júgóslavneskum lögreglusveitum sem upp frá því hafa ráðist harkalega á meintar bækistöðvar Frelsishersins og stuðningsmenn hans.
    Í febrúarmánuði á síðasta ári hörðnuðu átökin til muna. Hersveitir Serba og Júgóslavíu réðust á byggðir Kosovo-Albana með stórskotaliðsárásum og hófu að reka þá á brott frá heimkynnum sínum. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum er áætlað að í október 1998 hafi 298.000 manns verið á flótta, ýmist innan eða utan Kosovo.
    Eftir að slitnaði upp úr samningaviðræðum í Rambouillet í Frakklandi hóf NATO loftárásir á Júgóslavíu með það að yfirlýstu markmiði að knýja stjórnvöld í Belgrad til að draga hersveitir sínar út úr Kosovo. Loftárásir NATO hófust 24. mars sl.

Enginn árangur.
    
Þrátt fyrir linnulausar loftárásir NATO hafa Slobodan Milosevic og stuðningsmenn hans náð öllum sínum markmiðum: að hrekja mörg hundruð þúsund Albana út úr Kosovo, kæfa lýðræðisþróun í Júgóslavíu og sameina almenning að baki sér í andúð á Vesturlöndum.
    Hinn 20. maí sl. höfðu meira en 740.000 Kosovo-Albanar, eða hátt í þriðjungur þeirra, flúið land og tugir þúsunda til viðbótar voru á flótta innan Kosovo-héraðs. Nú er talið að í allt hafi um 900.000 manns flúið til nágrannaríkjanna. Enginn veit hversu mörg þúsund hafa fallið fyrir hendi serbneskra og júgóslavneskra hersveita. Ríkisstjórn Milosevic hefur með þjóðernishreinsunum sínum undirbúið jarðveginn fyrir mögulega samninga um skiptingu Kosovo. Því verður ekki á móti mælt að hreinsanirnar hafa magnast stórkostlega eftir að loftárásirnar hófust. Jafnframt hefur gremja almennings í Júgóslavíu vegna árásanna beinst í auknum mæli að Kosovo-Albönum sem NATO kvaðst ætla að vernda með loftárásunum.
    Ástandið meðal flóttafólksins er vægast sagt hræðilegt. Það hefur þurft að horfa upp á ótrúleg grimmdarverk af hálfu óvinarins, það var rænt öllum eigum sínum og rekið frá heimilum sínum sem síðan voru í mörgum tilvikum jöfnuð við jörðu. Hið tilfinningalega tjón er vafalítið meira en hið efnahagslega. Nágrannalöndin hafa enga burði til að taka við flóttamannastraumnum. Alþjóðlegar hjálparsveitir eiga í miklum vandræðum með að athafna sig á svæðinu vegna átakanna og lenda stöðugt á milli tveggja elda við landamærin. Jafnframt er gífurlegur fjöldi á vergangi innan Kosovo, þar af hafa sennilega um 100 þúsund flúið til fjalla og njóta því engrar aðstoðar svo vitað sé. Neyð flóttafólksins hlýtur að kalla á tafarlaust vopnahlé svo að hægt sé að koma því til hjálpar og byrja að skipuleggja flutning þess til fyrri heimkynna í samhengi við uppbyggingarstarf í Júgóslavíu.

Afleiðingar loftárásanna.
    
Mannfall meðal Júgóslava af völdum flughers NATO er nú áætlað um 3.000 manns, þar af 1.800 hermenn og 1.200 óbreyttir borgarar. Tölur um mannfall í júgóslavneska hernum eru þó nokkuð á reiki, talsmenn NATO telja að 5.000 sé nær lagi. Hvað eftir annað hafa mannvirki, sem engan veginn geta talist hernaðarlega mikilvæg, orðið fyrir loftárásum. Má þar nefna sjúkrahús, farþegalestir, elliheimili, leikskóla, brýr fyrir almenna umferð og kínverska sendiráðið í Belgrad. Þá hafa flugvélar NATO einnig ráðist á bílalestir albanskra flóttamanna af misgáningi.
    Eyðilegging menningarverðmæta og sögulegra minja í þessu stríði er gífurleg. Gamli borgarhlutinn í Pec, þar sem finna mátti tyrkneskar byggingar frá tímum Ottómana-ríkisins, eru rústir einar. Fleiri dæmi eru Hadum-moskan í nágrenni Djakovica, byggð á 16. öld, Vrsac- turninn við rúmensku landamærin, byggður á miðöldum eins og kirkjan í Gracanica skammt frá Pristina þar sem freskumyndir frá 14. og 15. öld hafa orðið eyðileggingunni að bráð. Í Belgrad varð Rakovica-klaustrið, sem byggt var á 16. öld, fyrir sprengjum. Sama má segja um St. Nikulásar-kirkjuna, sem var byggð á 12. öld, og kirkju St. Prókópíusar en hún er frá 9. öld. Þetta eru einstakar minjar frá árdögum kristninnar í Austur-Evrópu og því er skaðinn óbætanlegur í menningar- og sögulegu tilliti. Slíkar árásir minna hastarlega á framferði Serba í umsátrinu um borgirnar Vukovar og Dubrovnik í Króatíu fyrir nokkrum árum.
    Stríðsreksturinn í Júgóslavíu hefur haft mikla mengun í för með sér og mun bersýnilega draga fjölda fólks til dauða löngu eftir að átökunum lýkur. Frá því snemma í mars, þegar bardagar fóru harðnandi og sýnt þótti að NATO skærist í leikinn, hafa bæði Júgóslavíuher og Frelsisherinn komið fyrir fjölmörgum jarðsprengjum. Afleiðingar af notkun þeirra eru vel þekktar úr öðrum styrjöldum á þessari öld.
    Flugher NATO hefur beitt svokölluðum klasasprengjum (CBU-87/B) í árásum sínum á ýmis skotmörk í Júgóslavíu. Þær vega um 500 kg og innihalda nokkur hundruð smærri sprengjur sem dreifast í allar áttir þegar klasinn sjálfur springur. Hver smásprengja um sig splundrast í u.þ.b. 300 sprengjuflísar með hræðilegum afleiðingum fyrir þá sem verða fyrir sprengjuregninu eins og kom á daginn í árás NATO á markaðstorgið í Nis 7. maí. Til að bæta gráu ofan á svart er talsvert um að smærri sprengjurnar dreifist um stórt svæði án þess að springa. Þannig hafa ósprungnar sprengjur breytt heilu þorpunum í einskis manns land, þær geta sprungið við snertingu eða titring frá umferð rétt eins og jarðsprengjur. Þessi vopn eru þegar farin að taka sinn toll af æsku Kosovo-héraðs.
    Jafnframt er ljóst að NATO hefur notað svokallaðar DU-fallbyssukúlur í árásum á skriðdreka og önnur farartæki í Júgóslavíu. DU er skammstöfun fyrir rýrt úran ( depleted uranium) en það er eitthvert þyngsta og þéttasta frumefni sem til er. Af þeim sökum er það afar hentugt í fallbyssukúlur og kemst í gegnum meira en 5 sm þykka brynvörn. Að auki er hitamyndunin við það svo mikil að eldur verður samstundis laus í skotmarkinu. Við slíkan bruna fer mikið af geislavirku ryki út í andrúmsloftið. Mælingar á geislun frá einni DU-kúlu benda til þess að geislunin á hverri klukkustund samsvari 1/ 5af því sem mannslíkaminn er talinn þola á heilu ári.
    Mikið hefur verið rætt og ritað um afleiðingarnar af notkun þessara kúlna í Flóabardaga 1991 þrátt fyrir að sú umræða hafi lítið náð hingað til lands. Líkur benda til að aukið nýgengi hvítblæðis og fleiri krabbameinssjúkdóma í Írak megi rekja til þess að u.þ.b. 40 tonn af DU- kúlum voru notuð í Flóabardaga. Þetta á einnig við um fyrirburafæðingar þar í landi. Hermenn sem börðust í liði Bandamanna í Írak hafa kvartað undan hárlosi, húðsjúkdómum og skemmdum á ýmsum líffærum. Jafnframt hafa þeir orðið fyrir stórkostlegum skemmdum á erfðaefni sem koma fram í vansköpunum og meðfæddum sjúkdómum barna sem þeir hafa eignast eftir stríðið.

Eftirmálar átakanna.
    
Hvort sem stríðsátökin í Kosovo dragast enn frekar á langinn eða ekki er ljóst að vinna þarf geysilegt uppbyggingarstarf í Júgóslavíu allri ef friður á að haldast í framtíðinni. Í því sambandi hefur verið talað um að kostnaðurinn við það starf geti orðið 31 milljarður Bandaríkjadala eða hátt í 2.300 milljarðar íslenskra króna. Brýnasta verkefnið er að gera þeim Kosovo-Albönum sem vilja kleift að snúa heim og tryggja öryggi þeirra með alþjóðlegum friðargæslusveitum. Víðs vegar um Serbíu og Svartfjallaland verður að endurbyggja orkuveitur og ýmis samgöngumannvirki. Mörg hundruð verksmiðjur og fjölmörg íbúðarhús hafa verið eyðilögð. Jafnframt er nauðsynlegt að hreinsa upp jarðsprengjur og klasasprengjur auk skaðlegra efna sem hafa farið út í umhverfið í árásum á olíuhreinsistöðvar og efnaverksmiðjur. Sýnt þykir að mengunin muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir matvælaframleiðslu í landinu á sama tíma og Júgóslavar munu neyðast til að snúa sér að landbúnaði í auknum mæli vegna þess að iðnaður þeirra hefur að stórum hluta verið lagður í rúst.
    Efnahagsleg uppbygging er lykilatriði í því að koma á friði og stöðugleika í landinu. Ef íbúar Júgóslavíu verða fátæktinni að bráð er útilokað að tryggja friðsamlega sambúð þjóðanna á þessu svæði. Slík uppbygging verður að eiga sér stað með aðstoð hinna betur megandi ríkja en ekki á þeirra forsendum heldur í fullri sátt við almenning í Júgóslavíu. Jafnframt er afar mikilvægt að þjóðarbrotunum verði ekki mismunað í þeim efnum þar sem slíkt mundi vafalaust leiða til enn meiri spennu á svæðinu. G-17 stofnunin, sjálfstæð hagfræðistofnun sem hefur sérhæft sig í málefnum Balkanskaga, taldi áður en loftárásirnar hófust að það mundi taka Júgóslava 29 ár að ná svipuðu stigi hagsældar og þeir bjuggu við 1989. Nú er talað um að það muni taka 45 ár nema til komi alþjóðleg aðstoð. Stjórnvöld í Belgrad hafa metið ástand hagkerfisins svo að það líkist helst því sem var í lok síðari heimsstyrjaldar.