Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


124. löggjafarþing 1999.
Þskj. 5  —  5. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipan nefndar um verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,


Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að komið verði á fót nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem taki til skoðunar hlutverk og verkaskiptingu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Þar til nefndin hefur skilað álitsgerð verði öllum frekari áformum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu og einkaframkvæmd slegið á frest.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur nokkrum opinberum stofnunum verið breytt í hlutafélög með það fyrir augum að markaðsvæða starfsemi þeirra og í sumum tilvikum hafa þau verið seld. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðað framhald á þessari stefnu auk þess sem gert er ráð fyrir svokallaðri einkaframkvæmd á ýmsum sviðum almannaþjónustunnar, svo sem í skólum og á sviði öldrunar- og heilbrigðisþjónustu.
    Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið að breytingum af þessu tagi á vegum einkavæðingarnefndar en þar hafa fulltrúar beggja stjórnarflokkanna komið að málum en ekki fulltrúar stjórnarandstöðuflokka.
    Mjög brýnt er að um allar grundvallarbreytingar sem gerðar eru á samfélagsþjónustunni fari fram vönduð og lýðræðisleg umræða til að tryggja tvennt: Í fyrsta lagi séu breytingar gaumgæfðar frá öllum sjónarhornum áður en í þær er ráðist. Vönduð vinnubrögð eru forsenda þess að vel takist til um þær breytingar sem gerðar eru. Í öðru lagi er eðlilegt að freista þess að breytingar séu þannig úr garði gerðar að um þær sé tryggð víðtæk þjóðfélagssátt.
    Einkavæðing opinberra stofnana og sala fyrirtækja í ríkiseign hefur verið uppi á teningnum víða um lönd á undanförnum árum og hefur þegar fengist allvíðtæk reynsla af þessari stefnu. Mikilvægt er að fram fari ítarleg gagnasöfnun og í framhaldinu skipulögð athugun á því hvernig til hefur tekist hjá öðrum þjóðum. Þegar liggja fyrir gögn um þessi efni og má í því sambandi vísa til könnunar sem breska verkalýðshreyfingin hefur gert á því hvernig einkaframkvæmd almannaþjónustunnar í Bretlandi hefur reynst. Þar í landi hefur þessi stefna verið höfð að leiðarljósi bæði af hálfu Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins enda þótt hún sé mjög umdeild. Fram hafa komið rökstuddar staðhæfingar um að einkaframkvæmdin sé, þegar upp er staðið, dýr kostur fyrir skattborgarana og ávísun á félagslegt misrétti þegar til lengri tíma er litið.
    Afar brýnt er að breytingar, sem gerðar eru á grundvallarþáttum samfélagsins, séu vel ígrundaðar, byggist á traustum rökum og haldgóðum upplýsingum en ekki framkvæmdar af handahófi. Þá er nauðsynlegt að breytingar séu gerðar með framtíðarsýn á hlutverk hins opinbera í huga þar sem skýrt komi fram hvaða verkefni eigi að vera á vegum ríkis og hvar skuli koma til kasta fyrirtækja á markaði.