Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


124. löggjafarþing 1999.
Þskj. 17  —  13. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Karl V. Matthíasson, Einar Oddur Kristjánsson.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohjóðandi:
    Á svæði sem afmarkast af línu sem dregin er milli Kóps, grunnlínupunktur nr. 34 (65°48,4'N og 24°06,0'V), og Barða, grunnlínupunktur nr. 35 (66°03,7'N og 23°47,4'V), er þeim skipum sem eru minni en 120 brúttótonn og gerð eru út til dagróðra frá Bíldudal og Þingeyri heimilar frjálsar fiskveiðar innan línunnar með línu og handfærum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þar sem fyrirsjáanlegt er að enn á ný er að koma upp ástand sem leiða mun til viðvarandi mikils atvinnuleysis í byggðum við Dýrafjörð og Arnarfjörð er lagt til að við lög um stjórn fiskveiða bætist bráðabirgðaákvæði sem heimili íbúum áðurgreindra byggðarlaga að bjarga sér sjálfir með því að gefa þeim kost á frjálsum krókaveiðum á takmörkuðu svæði innan línu sem dregin er milli Kóps og Barða.