Gróðurvinjar á hálendinu

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:22:11 (4137)

2000-02-09 14:22:11# 125. lþ. 60.8 fundur 304. mál: #A gróðurvinjar á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri fyrirspurn sem hér hefur verið lögð fram. Hún vekur athygli á þeim landslagsheildum og því gróðurfari sem á mjög í vök að verjast á hálendi Íslands. Ég tel þarft að ræða þau mál hvernig þessi svæði og staða þeirra er tryggð, hvort heldur er innan þess ramma sem hæstv. ráðherra gat hér um og ég tek fyllsta mark á.

En það sem ég vildi draga fram er það að mjög mikill skortur er á rannsóknum á þessum gróðurvinjum. Ég vil nefna flæðiengin, Hvítárnes, Þjórsárver, Eyjabakka. Þetta eru ekki sams konar svæði, það skortir allar rannsóknir og samanburð á þessum svæðum, það skortir samanburð á gróðurfari og dýralífi.

Ég skora á þá sem með fjármál fara í landinu að efla rannsóknir til þess að tryggja framtíð þessara svæða.