Bætt staða þolenda kynferðisafbrota

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 18:01:47 (4695)

2000-02-22 18:01:47# 125. lþ. 68.6 fundur 174. mál: #A bætt staða þolenda kynferðisafbrota# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[18:01]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fullyrði að hér er ekki um neinn misskilning að ræða því að með aðstöðunni sem hefur verið útbúin í dómhúsinu er verið að taka mál frá Barnahúsinu og Barnahúsið er öðruvísi útbúið en herbergið sem um hefur verið rætt í dómhúsinu. Það hefur upp á allt öðruvísi anda að bjóða og sá andi er það sem talað er um að sé ákjósanlegur í þessum viðkvæmu málum en ekki sá andi sem boðið er upp á í yfirheyrsluherbergi í dómhúsinu. Þess vegna fullyrði ég, herra forseti, að ekki er um misskilning að ræða þegar það er fullyrt að herbergið í dómhúsinu taki mál af Barnahúsinu og bjóði þar af leiðandi heim öðruvísi meðferð þessara mála, meðferð sem er ekki jafngóð, jafnvingjarnleg og meðferðin sem möguleg er í Barnahúsi.