Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:04:06 (5125)

2000-03-09 14:04:06# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson sem hér talaði á undan mér má ekki misskilja orð mín eins og hann gerir. Átaksverkefnið hefur skilað afskaplega mörgu góðu þó svo ég hafi fullyrt að handahófskennd stefna hafi þar verið í gangi. Ég hefði viljað að hv. þm. svaraði ræðu minni málefnalegar en svo að gera mest úr því að mér hafi einungis tekist að nefna eitt gagnrýnisvert atriði á listanum yfir þau verkefni sem fengið hafi styrk.

Vissulega hefur margt verið vel gert, ég ítreka það. Hins vegar var alls ekkert í lögum eða reglum verkefnisins sem gat réttlætt að stærsti styrkurinn á síðasta árinu sem átaksverkefnið fær fjármagn frá ríkinu fari til Stuðmanna til að fara í sveitaballarúnt og efla umhverfisvitund ungs fólks á landinu. Það er bara þannig, herra forseti.

Ég verð að segja að það veldur mér vonbrigðum að hv. þm. Gísli S. Einarsson skuli ekki svara neinu af þeim spurningum eða vangaveltum sem ég kom með í ræðu minni varðandi aðgreiningu þessarar framleiðslu, vistvænnar annars vegar og lífrænnar hins vegar. Mér finnst það vera mergurinn málsins og að þar hafi þeir sem starfað hafa að átaksverkefninu ekki staðið sig sem skyldi. Ég vænti þess að hv. þm. svari mér frekar um það hvers vegna aðgreiningin var ekki sterkari. Það er heldur ekki rétt hjá hv. þm. að 60% fjármagnsins hafi farið til lífrænnar framleiðslu. Ég hef kynnt mér skýrslur átaksverkefnisins frá upphafi, lesið þær spjaldanna á milli og stuðningurinn við lífrænu framleiðsluna hefur í heildina verið 37%.