Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:06:06 (5126)

2000-03-09 14:06:06# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sé kannski ekki ástæðu til að karpa við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um hvernig verkefnið hefur verið unnið að öðru leyti en því að ég stend við þá fullyrðingu að verkefnið hefur hvergi farið út fyrir það sem upp á var lagt þegar verkefninu voru sett markmið. Ég tel að það hafi aðeins verið unnið að lífrænu og vistvænu, eins og það var skilgreint í upphafi að vinna ætti að þeim málum. Verkefnið hefur ekki farið út fyrir þann ramma á neinn hátt.

Hitt er annað mál að ég deili áhyggjum með hv. þm. af því að ekki hafi náðst meiri árangur. Það byggist að sjálfsögðu á því að bændur eru hræddir við að fara út í það sem þeir vita ekki nákvæmlega hvað er. Þess vegna hefur verið lögð svo mikil vinna í að kynna þá möguleika sem eru fyrir hendi. Ég ítreka það, herra forseti, að fyrir því hefur verið gerð grein hvað eftir annað í skýrslum, á hverju ári. Sem fjárlaganefndarmaður vildi ég að öllum þeim verkefnum sem í gangi eru á vegum ráðuneytanna væri skilað á sama máta og þessu átaksverkefni. Þá ættum við möguleika á að sjá hvernig fjármununum er ráðstafað.