Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:44:37 (5475)

2000-03-20 16:44:37# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:44]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Bara til að halda sögunni til haga af því að hæstv. ráðherra fór yfir það áðan að breytingin varðandi smábátana hefði verið til að bregðast við dómi þá er það ekki alls kostar rétt. Það var þannig að Landssamband smábátaeigenda hafði átt í viðræðum við sjútvrn. þar sem menn voru að ræðast við undir þeim formerkjum að smábátamenn vildu gjarnan fara að fá traustara starfsumhverfi og reyna þá að semja um hvernig það yrði í grófum dráttum. Það var hins vegar meiri hluti sjútvn. sem í rauninni breytti þeim hugmyndum og setti sínar inn og mér sýnist að við séum enn að fást við þann gjörning.

[16:45]

Það má segja að framsal sóknardaganna sé kannski það eina sem úr því efni geti kallast viðbrögð við dómi og nú er verið að fresta því vegna þess, eins og ég gat um áðan, að þá var um að ræða þrengingu á endurnýjunarreglum þannig að það er ekki alls kostar rétt, herra forseti, að þessar breytingar á smábátakaflanum hafi verið viðbrögð við dómi. Ég vil nú meta það svo að þær hafi miklu frekar verið viðbrögð við þeim hugmyndum sem sjútvrn. og Landssamband smábátaeigenda voru sameiginlega komin með til þess að þeirra mati að tryggja öruggt starfsumhverfi smábátanna.