Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:46:04 (6056)

2000-04-06 17:46:04# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði af andhita, einkum undir það síðasta og það er vissulega gott. Hann nefnir að gæðastýringin sé hálfgert fíaskó. Ég nefndi áðan í andsvari við annan hv. þm. að nauðsynlegt væri að gæta þess að gæðastýringarkerfið verði ekki bákn, að þar komist ekki skriffinnarnir á kreik til að búa til bákn. Ég lít svo á að gæðastýringin sé millistig þangað til farið verði í eitt heildstætt kerfi sem byggir á hollustu og hreinleika rétt eins og í öðrum greinum. Ég hef iðulega tekið dæmi um frumutöluna í mjólk. Það er ekki þannig að sumir megi hafa þetta margar frumur í hverri einingu mjólkur og aðrir einhvern annan frumufjölda heldur allir það sama. Það er sett eitt kerfi fyrir alla og þannig á það að sjálfsögðu líka að vera í gæðastýringu að reglur um hollustu og hreinleika, gæði, fóðrun, hirðingu og hvað eina eiga að ná til allra, ekki bara sumra. Ekki á að mismuna mönnum eftir því hvort þeir fara í gæðastýringu eða ekki. Ég lít þannig á að þetta sé millistig, millileið, þangað til allir eru í gæðastýringu.

Hv. þm. fór með dæmi um bónda sem yrði leiguliði hjá honum og framleiddi kjöt út á hann þó að hann hefði selt rétt sinn. Bændur eru ekki bara greindir. Þeir eru líka heiðarlegir og þeir munu ekki fara fram hjá lögum eða reglum í stórum stíl en hins vegar er það rétt sem hv. þm. sagði. Hvers vegna þurfa menn að eiga 0,6 kindur á ærgildi greiðslumarksins? Hvers vegna má það ekki vera núll? Þetta er góð spurning.