Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:31:49 (6422)

2000-04-11 23:31:49# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sagði úr þessum ræðustól fyrr í kvöld að allir stjórnmálaflokkar hefðu komið að þessu máli. Það er náttúrlega rangt. Frjálslyndi flokkurinn hefur ekki komið að þessu máli. (Gripið fram í.) Hvor hlutinn? (ArnbS: Jafnvel báðir.) Það er rangt, hv. þm. (ArnbS: Hafa ekki báðir komið ... Sjálfstfl.?) Á fyrri tímum hafa menn gert það.

Eins og málum er komið hefur Frjálslyndi flokkurinn ekki komið að umræddu frv. og virkar nánast eins og hrein mey að því leyti til. Við höfum ekki átt þess kost að koma að því. Ég tók hins vegar eftir því í máli hv. fjmrh. að hann lagði til, ef ég tók rétt eftir, að málið færi til allshn.

Þar með mun sennilega koma að því að Frjálslyndi flokkurinn eða fulltrúi hans komi að málinu með einhverjum hætti og fái um það fjallað. Við í Frjálslynda flokknum erum algjörlega með óbundnar hendur varðandi það mál sem hér er til umræðu.

Skoðun mín á því er hins vegar sú að það sem menn hafa verið að leggja upp með, þ.e. að allt skuli lagt upp úr að jafna vægi atkvæða, sé í rauninni aðeins brot af því máli sem við erum að tala um, vegna þess að ég hygg t.d. að Vestfirðingum finnist sér ekkert sérstaklega vel borgið með því atkvæðavægi sem þeir hafa í dag, miðað við ýmis þau kjör og hremmingar sem yfir þá hafa dunið af ýmsum öðrum orsökum á undanförnum missirum og hafa haft þar mikil áhrif í atvinnu- og byggðamálum. Atkvæðavægið er því ekki allt í þessu máli.

Ég get í sjálfu sér tekið undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að, að ef verið er að gera slíkar breytingu á annað borð væri jafnvel eðlilegra að ganga skrefið til fulls og gera landið að einu kjördæmi, heldur en að stíga þau skref sem hér eru boðuð. Ég er sem sagt að lýsa þeirri skoðun að mér hugnast það ekkert mjög vel sem hér er lagt upp með, án þess að við höfum beinlínis tekið beina afstöðu til þess.

Ég tók hins vegar eftir því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kynnti úr þessum ræðustól í kvöld hugmyndir sem mér finnst allrar athygli verðar. Ég vil þess vegna ítreka að Frjálslyndi flokkurinn er alveg óbundinn í þessu máli og mun mynda sér skoðun á því eftir því hvað við teljum skynsamlegast og jafnframt skoða þær hugmyndir sem koma fram. En við höfum hingað til ekki komið að málinu en fáum vonandi tækifæri til þess í allshn.