Svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 13:44:54 (6684)

2000-04-27 13:44:54# 125. lþ. 103.97 fundur 469#B svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra# (aths. um störf þingsins), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Ásta Möller:

Herra forseti. Mig langaði aðeins að fjalla um svar fjmrh. við fyrirspurn hv. þm. Ögmundar Jónassonar um launaþróun í heilbrigðisþjónustunni sem var upphaf þessarar umræðu. Ég hef skoðað þau svör sem koma hér fram og ég verð að segja að þegar hv. þm. spyr beint um meðallaun, þá fær hann svör. Hins vegar þegar hann spyr beint um byrjunarlaun eða mánaðarlaun, þá koma ekki svör fram varðandi janúar 2000 og það er skiljanlegt vegna þess að það er ekki til neitt sem heitir byrjunarlaun eða byrjunarlaunaflokkur hjúkrunarfræðinga eða þeirra stétta sem eru í nýja launakerfinu. Hv. þm. hefði því þurft að spyrja nákvæmar til að fá betri svör því að byrjunarlaun þeirra sem eru í nýja launakerfinu eru ekki þau sömu. Jafnvel nýútskrifað fólk er ekki á sömu launum þegar það útskrifast. Það fer eftir því á hvaða deild eða stofnun það ræðst o.s.frv. Ég mundi því ráðleggja hv. þm. Ögmundi Jónassyni að spyrja nákvæmar ef hann vill fá svör við þessum spurningum.