Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:20:26 (781)

1999-10-20 15:20:26# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Í framhaldi af þeirri frétt nú er til umræðu um staðsetningu kjarnorkuvopna hér á landi árin 1956--1959 hafði ég samband við íslenska aðila sem hafa unnið á Keflavíkurflugvelli mjög lengi og voru við störf á þessum tíma. Ég spurði þá hvort þeir hefðu heyrt orðróm um að slík vopn væru staðsett á Keflavíkurflugvelli. Enginn þeirra hafi heyrt orðróm um slík vopn á Keflavíkurflugvelli eða í herstöðinni yfirleitt.

Þeir sögðu jafnframt að ef slík vopn væru yfirleitt á Keflavíkurflugvelli hefði það ekki farið fram hjá neinum manni því að varúðarráðstafanir sem þarf að gera í kringum geymslu á slíkum vopnum eru það umsvifamiklar að þær geta ekki farið fram hjá þeim mönnum sem starfa á flugvellinum. Að því leyti til tel ég að skoðanir þessara manna séu mjög marktækar. Ef við lítum á hvar slík vopn eru geymd yfirleitt áttum við okkur á því að það er ekki eins og að geyma nokkra kassa af skotum eða einhverjar sprengjur sem eru í flugvélum, þarna erum við að tala um allt annað og meira mál en venjulegt vopnabúr. Að þeirra mati er heldur ekki til neinn staður á Keflavíkurflugvelli sem hægt er að geyma slík vopn í og þeir sem hafa farið um þetta svæði átta sig trúlega á því sjálfir ef þeir á annað borð velta þessu máli fyrir sér. Þess vegna er það mat flestra og allra þeirra sem þarna hafa starfað og ég hef haft samband við að þessi frétt sé flugufrétt og tilbúningur og þær skýringar sem hæstv. forsrh. kom með á þessu máli séu þær einu sem skipta máli.