Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:28:49 (785)

1999-10-20 15:28:49# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það kemur mér ekkert á óvart að formaður Alþb. skuli stunda þennan leik sem Alþb. hefur stundað. Hins vegar kemur mér mjög mikið á óvart að þingmenn Alþfl. skuli fara upp í þennan bát og veltast um í þessum bát. Ég tók þátt í umræðum hér og stóð í þinginu með Jóni Baldvini Hannibalssyni, formanni Alþfl., þegar samsvarandi hlutir, byggðir á samsvarandi upplýsingum, voru ræddir. Það kemur mér því mjög á óvart að Alþfl. skuli núna hoppa um borð í bátinn hjá Alþb. Þegar ... (Gripið fram í: Þetta er á lágu plani, forsrh.) Já, þetta er á lágu plani hjá þér, hv. þm., það er rétt hjá þér. Ég er mjög hissa á því, það er á mjög lágu plani, það er rétt hjá hv. þm., að Alþfl. skuli hoppa um borð þegar slíkur málflutningur er hafður uppi.

Ég vil aðeins nefna út af Danmörku sem er dregin inn í myndina aftur og aftur til þess að gera okkur tortryggilega, ekki bara Bandaríkjamenn. Bandaríkjamenn lugu, er hér sagt. Það er orðið sem notað er og Danir lugu er hér sagt. Það liggur reyndar fyrir að Bandaríkjamenn neituðu því aldrei að hafa verið með kjarnorkuvopn í Grænlandi. Þeir hvorki játuðu því eða neituðu. Danskir stjórnmálamenn ... (Gripið fram í.) Það er stefna þeirra, þeir hvorki játuðu því eða neituðu. Það er stefna þeirra sem er þekkt og það er barnalegt að fólk skuli flissa yfir þessu og sýnir hvað það er illa að sér um utanríkismál. En þeir neituðu því aldrei, þeir hvorki játuðu eða neituðu. Hins vegar neituðu danskir stjórnmálamenn sem vissu. Sá er munurinn hér.

Ég geri ekki ráð fyrir að Guðmundur Í. Guðmundsson eða Hermann Jónasson hafi verið að ljúga eins og hér var með vissum hætti gefið til kynna þegar dönskum og íslenskum stjórnmálamönnum var líkt saman.