Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:59:36 (981)

1999-11-02 16:59:36# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Tíminn leyfir ekki að ég og hæstv. utanrrh. förum að takast á um virkjanamál, en það eigum við að sjálfsögðu eftir að gera í þessum sal og það veit hæstv. utanrrh. vel. Og við eigum örugglega eftir að gera það víðar en hér og ég vona bara að það verði málefnaleg barátta, en ekki barátta sem að byggir á því að mér sé núið því um nasir að ég sé að ganga erinda löngu genginna hvalfriðunarsinna þegar ég er að tala um lofthjúpinn í kringum jörðina og áhrif mengunar sem eru að koma í ljós á hverjum einasta degi eru að verða meiri og merkjanlegri. Við erum að tala um áhrif sem eru að breyta til hins verra möguleikum okkar og allra lifandi vera til að draga andann. Þetta er svo alvarlegt mál að mér finnst hæstv. utanrrh. ekki geta sagt að hér sé um ótrúverðugan málflutning að ræða þar sem við erum að ræða um Kyoto-bókun sem leyfir okkur 10% aukningu losunar en við viljum fá 70% aukningu. Virðulegi forseti. Mér finnst þessi málflutningur hæstv. ráðherra ekki vera honum sæmandi.