Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:31:40 (991)

1999-11-02 17:31:40# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:31]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með umræðum hér í dag og margt gott og þarft komið fram í þeim. Einkennilegt er þó að heyra hv. þm., jafnháttvirta og Ísólf Gylfa Pálmason og hæstv. utanrrh. og fleiri talsmenn Framsfl., tala um umhverfisvernd og umhverfissinna. Í raun er þannig rætt um það málefni að það er gert að engu. Hv. þm. Ísólfur Gylfi lagði það til málanna hér áðan um umhverfissinna að hann hefði nú séð til þeirra, hann hefði séð til þeirra á Grænlandi þar sem þeir vildu ekki að Grænlendingar veiddu seli. Hann hafði hins vegar ekki séð til þeirra á Spáni þar sem hann horfði á naut drepin opinberlega. Þetta er svipað og Júrí Gagarín geimfari sagði eftir fyrstu ferð sína í geimnum, að hann hefði ekki séð guð. Þar með er guð sem sé ekki til í geimnum. (Gripið fram í.) Já, það er þannig.

Kaþólska kirkjan sem var og er eitt sterkasta hugmyndaafl í okkar heimshluta brenndi fólk á báli fyrir rangar skoðanir. Það kann að segja sitt um kaþólsku kirkjuna en það segir ekki allt um kaþólsku kirkjuna. Adolf Hitler --- ég veit ekki hvort ég á að segja hæstv. fyrrv. ríkiskanslari --- var góður við hundinn sinn en það segir ekki allt um hann. Við verðum auðvitað að gera okkur grein fyrir, virðulegi forseti, að umhverfisvernd og umhverfisstefna er ein helsta hugmyndahreyfing dagsins og hefur verið nú í marga áratugi. Við verðum að koma fram með virðingu og íhygli gagnvart þessari hugmyndahreyfingu m.a., eins og oft hefur verið bent á, vegna þess að við eigum samstöðu með henni í langflestum málum. Í þeim einstöku málum þar sem við eigum ekki samstöðu með öfgamönnum getum við annaðhvort rætt við þá eða hagað málum okkar þannig að við lendum ekki í beinni andstöðu við þá. En þetta orðbragð eigum við ekki að temja okkur á Íslandi og ekki hér í þinginu, virðulegi forseti.