Rekstur ferju í Ísafjarðardjúpi

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:11:11 (1080)

1999-11-03 15:11:11# 125. lþ. 18.7 fundur 74. mál: #A rekstur ferju í Ísafjarðardjúpi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ferjurekstur hefur um áratuga skeið verið stundaður í Ísafjarðardjúpi. Fyrst var þetta lengi vel eina samgönguleiðin en hefur nú hin síðari ár fyrst og fremst verið nýtt til þess að flytja fólk, bíla og varning samhliða þeim flutningi sem á sér stað um Djúpveg. Auðvitað hefur mikil framþróun orðið á vegum í Ísafjarðardjúpi hin síðustu árin, en engu að síður er það svo að mikið af þessum vegum eru gamlir vegir og niðurgrafnir, hálfgerðir skorningar sem að verða fljótt illfærir í snjó og þola alls ekki þá þungu umferð sem er þarna af hálfu landflutningaaðila, einkum og sér í lagi á vorin og haustin. Því hefur rekstur bílaferju í Ísafjarðardjúpi verið að mínu viti bráðnauðsynlegur, ekki síst yfir vetrarmánuðina, til þess að tryggja að þarna sé ávallt fært, þá á sjó ef ekki á landi og forða þeim frá því sem vilja síður aka þessa erfiðu vegi, ekki síst á vetrum, að þurfa að gera það.

Það vill svo til að ferjan sem þarna er notuð var á sínum tíma keypt til landsins notuð frá Noregi fyrir óskaplega lítið fé, ef svo má að orði komast, miðað við þau útgjöld sem hafa orðið við öflun annarra bílaferja. Ég held hún hafi ekki kostað fullbúin nema um 36 millj. kr. sem er innan við tífalt minna en kostaði t.d. að smíða Breiðafjarðarferjuna sem er miklu minna skip og flytur færri bíla. Þessi ferja á Ísafjarðardjúpi hefur því ekki þungan fjárhagsbagga hvað varðar stofnkostnað fyrir ríkissjóð. En vissulega er rétt að það kostar nokkur útgjöld að tryggja rekstur hennar. Það hefur ekki reynst unnt að brúa það bil þannig að ferjurekstur hefur legið niðri nú síðan síðla sumars og satt að segja hrýs mér hugur við því ef það á vera framtíðin að engin bílaferja sé í Ísafjarðardjúpi öll þau ár sem enn eiga eftir að líða þangað til að vegur í Ísafjarðardjúpi verður að fullu byggður upp úr snjó, en það má vænta þess að það líði a.m.k. tíu ár þangað til að svo getur orðið. Það skýtur nokkuð skökku við þegar á það er horft að ríkisvaldið mótaði þá stefnu að reka Akraborgina sem bílferju á milli Akraness og Reykjavíkur allar götur þangað til búið var að grafa göng undir Hvalfjörð og var þó ólíku saman að jafna vegasamgöngum frá norðanverðu Ísafjarðardjúpi og inn Djúpið og áfram á þjóðvegakerfi landsins og vegasamgöngum milli Akraness og Reykjavíkur áður en að jarðgöng voru grafin undir Hvalfjörð.

Þá hefur þessi ferja verið mikið öryggistæki, kom m.a. að miklum notum þegar snjóflóðið féll í Súðavík á sínum tíma og var þá eina öryggistækið sem hægt var að grípa til, auk þess sem þetta skip er mjög mikilvægt fyrir alla ferðamannaþjónustu yfir sumarið. Því vil ég spyrja virðulegan ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að efna til viðræðna um hvernig tryggja megi rekstur Djúpferju, þ.e. núverandi Djúpbáts, Fagranessins, a.m.k. yfir hörðustu vetrarmánuðina?