Horfur í orkuframleiðslu í vetur

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 13:52:30 (1284)

1999-11-11 13:52:30# 125. lþ. 23.93 fundur 133#B horfur í orkuframleiðslu í vetur# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég kem upp m.a. til þess að leiðrétta hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Það er alls ekki stefna Vinstri hreyfingar -- græns framboðs og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur aldrei haldið því fram að við værum á móti virkjunum, síður en svo. Við leggjum áherslu á að virkjunarkostum sé forgangsraðað, fundnar séu hagkvæmustu og ódýrustu virkjanirnar til að virkja sem skila Íslendingum okkar notkun, okkar fyrirtækjum, okkar heimilisnotkun, skili þeim orku á ódýru verði, en ekki sé verið að forgangsraða í stórvirkjanir og framleiða orku sem fer á spottprís til erlendra stórfyrirtækja. Þetta vil ég að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson meðtaki í eitt skipti fyrir öll þannig að hann þurfi ekki að vera að koma með svona málflutning í ræðustól. (KHG: Hvar á að virkja?) Ja, t.d. Hvalá í Strandasýslu. Hún væri fín og væri fljót og góð virkjun. (Gripið fram í: 200 megavött.) Ódýr og góð. Hefurðu séð hana? (Gripið fram í: Fljótsdalsvirkjun í smáiðnað.) Ég bara harma það að hv. þm. skuli vera með svona málflutning.

Ég legg áherslu á að það er hörmulegt til þess að vita að íslenskur iðnaður og íslensk fyrirtæki skuli vera látin mæta afgangi þegar verið er að spara orku.