Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:29:19 (1646)

1999-11-17 15:29:19# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Þetta var um margt athyglisverð ræða hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller. Ég veit að Kristján L. Möller er vel hugsandi maður í byggðamálum og fleiru. En ræða hv. þm. byggðist á þessu: Það hefði verið gott.

Af því ég veit að hann er gamall íþróttamaður þá segja menn gjarnan ef þeir eru að tapa leikjum: Það hefði verið gott að gera þetta svona og hinsegin. Ef ég hefði ekki misstigið mig þá hefði ég skorað o.s.frv. Öll rökin hjá hv. þm. voru þau: Það hefði verið gott.

Hins vegar spyr ég hv. þm.: Ætlar hann að tefja þetta mál með því að láta málið fara í lögformlegt umhverfismat? Er hann tilbúinn að tefja það í tvö ár og missa þannig kannski þetta marktækifæri?