Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:43:42 (1918)

1999-11-18 16:43:42# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:43]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur söguna á hreinu, eins og fram kom í málflutningi hans í sambandi við virkjunarframkvæmdir í Fljótsdal. En ég vil spyrja hann, af því hann er svona sannfærður og byggir þetta á sögunni og sannfæringarkrafti: Hvers vegna má ekki viðhafa nútímalegar vinnuaðferðir og fara í lögformlegt umhverfismat?

Einnig hefur borið á því hjá hv. þm. að lýðræðisleg réttindi fólks fara mjög í skapið á honum, þ.e. að láta álit sitt í ljós t.d. með því að hafa skoðanakannanir eða undirskriftasafnanir. Ég verð að segja eins og er að ég gladdist og hafði engar athugasemdir við það þegar sveitungar hans að austan komu með bunka af undirskriftum varðandi stuðning við málstaðinn og fannst það eðlilegur réttur þeirra.