Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:47:29 (1922)

1999-11-18 16:47:29# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:47]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þm. heldur fram um endurheimt gróðurs. Ég bendi honum á síðu 72 í skýrslunni sem hér liggur fyrir þar sem segir:

,,Allur gróður á svæði Eyjabakkalóns mun líða undir lok. ... Erfitt er að bæta fyrir þennan missi gróðurlendis með uppgræðslu annars staðar á virkjunarsvæðinu, auk þess sem þar yrði um annars konar gróðurlendi að ræða.

Viðræður eru fyrirhugaðar milli Landsvirkjunar og Fljótsdalshrepps og Landgræðslu ríkisins um það hvernig bæta megi fyrir þennan gróður sem tapast.`` En samkvæmt þessari skýrslu er allsendis óvíst að nokkuð sé hægt að bæta í þeim efnum. Hér er frekari rannsókna þörf, hæstv. forseti.

Varðandi byggðaþáttinn þá bendi ég á að skýrsla Nýsis sem fylgir þessari tillögu er bull. Skýrslan sem hv. þm. vitnar í er rakalaust bull vegna þess að í henni kemur fram að upplýsingarnar sem byggt er á komu fram í árslok 1997 og í ársbyrjun 1998 og miðast við aðrar forsendur um stærð álversins og framkvæmdatíma en nú eru uppi. Skýrslan var endurskoðuð seinni hluta (Forseti hringir.) sumars 1999 miðað við breyttar forsendur og ekki reyndust á reiðum höndum nýjar upplýsingar nema um vissa efnisþætti (Forseti hringir.) og hefði það kostað mikla vinnu og seinkað verkinu verulega ef ákveðið hefði verið að endurvinna allan upplýsingagrunninn.