Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:06:38 (1963)

1999-11-18 18:06:38# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:06]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur alltaf legið fyrir og ég hef aldrei dregið það í efa að auðvitað bíður náttúran einhvern skaða af þeim framkvæmdum sem þarna verður farið í, ég hef aldrei dregið dul á það. Það hefur verið minn skilningur og mín sýn á þetta mál frá upphafi. Það er alveg sama hvaða framkvæmdir við ráðumst í sem snerta náttúruna, náttúran verður alltaf fyrir einhverjum skaða. Þess vegna verða minni hagsmunir að víkja fyrir meiri hagsmunum í þessu máli. Í sambandi við þann skaða sem þarna verður við uppbyggingu þessara stórframkvæmda verðum við að hafa hagsmuni fólksins í landinu að leiðarljósi en ekki hreindýra og gæsa sem þarna eru til staðar. Þarna eru það hagsmunir fólksins sem verða að sitja í fyrirrúmi vegna þess að þessar framkvæmdir leggja grunn að varanlegum lífskjarabótum á Íslandi. Ekki bara á Austurlandi heldur á landinu öllu.