Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:54:47 (2050)

1999-11-22 19:54:47# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:54]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að hefðir okkar séu þannig og kannski fámenni einnig að við komumst aldrei undan því að stjórn eins og Ríkisútvarpsins sé með einhverjum hætti pólitísk, og þá er ég að tala um flokkspólitísk. Ég er sammála því sem kemur fram hjá hv. þm. að pólitík er í flestum ef ekki öllum hlutum en spurning er um flokkspólitík og líka spurning um hversu þröng hún er.

Ef til vill er það svo að hefðir okkar séu þannig að við komumst ekki frá því og að við þurfum þá að búa við það fyrirkomulag að pólitískir flokkar kjósi fulltrúa í stjórnir eins og Ríkisútvarps en sannarlega vildi ég sjá það öðruvísi. Sannarlega vildi ég að þeir menn sem eru kosnir í slík ráð og nefndir væru ekki með hið flokkspólitíska veganesti þangað inn heldur eitthvað annað. Og ég eins og fleiri hef auðvitað horft til þess hvernig útvörp eins og BBC hafa náð að byggja sig faglega upp allt öðruvísi en Ríkisútvarpið okkar. En ég endurtek, kannski komumst við ekki undan okkar hefðum, a.m.k. ekki á mjög stuttum tíma. Það þarf kannski langan þróunarferil til að við náum þangað sem Bretar hafa náð með sitt ríkisútvarp.