Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:44:44 (3005)

1999-12-15 17:44:44# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:44]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur tekið undir ýmis varnaðarorð sem hafa komið frá fagmönnum um efnahagsmál, bæði OECD, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka o.s.frv. Hver eru þau vandamál sem um er að ræða? Hví eru menn að vara við? Jú, vandamálið er umframeyðsla þessa þjóðfélags. Umframeyðsla sem kemur náttúrlega fram í viðskiptahalla. Menn eru að vara við þessu. Öfugt við það sem var landlægt á áttunda og níunda áratugnum þegar við áttum líka oft við viðskiptahalla að stríða. Þá var viðskiptahallinn yfirleitt alltaf runninn undan rifjum ríkisvaldsins. Ríkissjóður gat ekki hamið sig, hann var alltaf rekinn með halla. Nú er þetta öfugt. Ríkissjóður er í mjög góðu jafnvægi með mjög mikinn afgang og meiri afgang en nokkurn tímann áður. Það er einkaneyslan í samfélaginu sem drífur upp þennan viðskiptahalla. Það er einkaneyslan. Ráðstafanir voru gerðar af hálfu Seðlabankans í haust til að reyna að draga úr þenslunni í samfélaginu með því að hækka skammtímavexti. Menn vonuðust til þess að þær ráðstafanir dygðu til þess að draga úr þessum viðskiptahalla. Það varð ekki. Vandamálið okkar er það að við höfum verið að reka samfélag sem hefur gengið mjög vel, hagvöxtur hefur verið meiri á Íslandi en í nokkru öðru vestrænu ríki, við höfum verið að ná á milli 5 og 6% hagvexti, kaupmátturinn hefur vaxið meira á Íslandi á undanförnum árum en í nokkru öðru vestrænu ríki. Ef við hefðum sparnaðarstig á Íslandi eins og Norðmenn, ef við hefðum frjálsan sparnað eins og Norðmenn, væri ekkert efnahagsvandamál á Íslandi. En við höfum það ekki, við erum eyðslusöm þjóð. Vegna þessa ber að taka alvarlega viðvaranir þessara efnahagsstofnana. Okkur ber að gera það, það er óumflýjanlegt að gera ráðstafanir í peningamálum til að koma í veg fyrir að þessi viðskiptahalli haldi áfram. Við deilum áhyggjum með stjórnarandstöðunni og öllum þeim sem vara við þessu.