Vitamál

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 11:56:38 (3221)

1999-12-17 11:56:38# 125. lþ. 48.15 fundur 57. mál: #A vitamál# (heildarlög) frv. 132/1999, Frsm. 1. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[11:56]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. þm. Árna Johnsen að ég hafi verið að gefa í skyn að Siglingastofnun sinnti ekki verkefnum sínum og fylgdist ekki með nýjungum og tækni. Það er rangt, hún gerir þetta af fullum krafti að því er mér virtist og ber mikla virðingu fyrir starfi sínu þannig að það er rangt. Hins vegar má líka alltaf finna aðrar leiðir til hagræðingar óháð því og það veit ég að Siglingastofnun er í sjálfu sér ekkert á móti frekar en aðrir.

Herra forseti. Ég nefndi sölu jarða vegna þess að þetta er nátengt. Þetta eru sömu stofnar, þessar jarðir, þessar eyjar þar sem vitarnir voru áður, það er verið að selja þær eða á að fara að gefa heimildir til að selja þær jafnframt því að við erum að leggja á þetta vitagjald. Það er ekkert verið að koma til móts við smábátaeigendur til að monta sig yfir, herra forseti, þó að hugsað sé að lækka þessa gjaldtöku úr 5.000 niður í 3.000 kr. Mér finnst þetta engin sérstök reisn. Reisnin er sú að þetta gjald sé ekki lagt á, að þetta öryggi meðfram ströndum landsins sé hluti af öryggiskerfi þjóðarinnar sem við viljum standa vörð um. Það er grundvallaratriði en ekki þessar 1.000 eða 2.000 kr. sem hv. frsm. nefndarinnar var að stæra sig af að hafa lækkað um þúsund krónur eða tvö.