Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:08:36 (3266)

1999-12-17 16:08:36# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:08]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því í svari hæstv. samgrh. að hann orðaði það svo að Landsímann ,,hefði haft`` og ,,hafi verið`` þegar hann talar um nauðsyn þess að hlutur ríkisins í Landssímanum sé í höndum hæstv. samgrh. Það segir mér að hann sé búinn að átta sig á því að þeir tímar eru liðnir að samgrh. þurfti að hafa beint boðvald yfir þessu fyrirtæki til að það sinnti ákveðnum skyldum, enda erum við hér að setja fjarskiptalög sem eiga að setja öllum fyrirtækjum á þessum markaði skyldur, ekki bara þessu eina. Ég fæ ekki trúað því að hæstv. samgrh. sé þeirrar skoðunar að til þess að öll fyrirtæki á fjarskiptamarkaði sinni skyldum sínum þá þurfi hluturinn í þeim öllum að vera í hans höndum. Mér finnst röksemdafærsla hæstv. samgrh. vera byggð á býsna veikum grunni. Mér heyrist á öllu að hann muni eftir því sem umræðunni vindur fram nálgast sjónarmið mín.