Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:08:20 (3470)

1999-12-18 17:08:20# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. veit eru þær samþykktir sem við höfum undirgengist hvað þetta varðar einungis samþykktir en ekki nein lög. Hann sem fyrrv. umhvrh., sem hefur með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi verið hluti af allri þessari framkvæmd, veit ósköp vel að þessir hraukar fara undir vatn. Ef hv. þm., sem umhvrh. á sínum tíma, hefði haft áhuga á að stöðva þetta þá gat hann gert það en hann gerði það ekki.

Hv. þm. var einnig, ef ég man rétt, við fyrstu skóflustungu sem var tekin fyrir þessa virkjun og var mjög ánægður með þetta. Ég segi, herra forseti, mér finnst lítið leggjast fyrir hv. þm. þegar hann er að reyna að gera lítið úr þeim aðgerðum sem verið er að fara í út af þessari virkjun, og að við sem höfum virkilega lagt okkur fram eigum ekki svona ummæli skilin, herra forseti.

Þegar við vorum að tala um Bjarnarflag var ég fyrst og fremst að benda á að með því að sleppa því að fara í þá virkjun erum við að losna undan línum um allt hálendið.