Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 3  —  3. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Greiða skal 10,50 kr. vörugjald af hverjum lítra af bensíni.

2. gr.

    1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Auk vörugjalds skv. 14. gr. skal greiða sérstakt vörugjald, bensíngjald, af bensíni. Af blýlausu bensíni skal greiða 28,60 kr. af hverjum lítra og af öðru bensíni skal greiða 30,43 kr. af hverjum lítra.

3. gr.

    16. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Bensín sem verður notað eða hefur sannanlega verið notað á flugvélar skal undanþegið vörugjaldi.


5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Gjald skv. 1. gr. nær til bensínbirgða sem til eru í landinu við gildistöku laga þessara umfram 10.000 lítra hjá hverjum eiganda. Endurgreiða skal mismun á gjaldi skv. 1. gr. og vörugjaldi sem greitt var skv. 14. gr. laga nr. 29/1993 eins og það var fyrir gildistöku laga þessara. Skal í því sambandi miðað við að eldri birgðir séu seldar fyrst.
    Eigendur birgða skulu tilkynna tollstjóra um birgðir sínar innan sjö daga frá gildistöku þessara laga. Þeir skulu jafnframt aðstoða tollstjóra við að kanna birgðir óski hann þess. Eigendur birgða skulu veita tollstjóra upplýsingar um birgðahald og sölu birgða fyrir gildistöku þessara laga, sé þess óskað.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt gildandi lögum er vörugjald af bensíni 97% af tollverði. Með frumvarpi þessu er lagt til að gjaldið verði föst krónutala, 10,50 kr. af hverjum lítra af bensíni. Auk þess er lagt á bensín sérstakt vörugjald, bensíngjald, sem rennur til vegagerðar. Það er 28,60 kr. af hverjum lítra af blýlausu bensíni og 30,43 kr. af hverjum lítra af öðru bensíni. Samkvæmt gildandi lögum hefur fjármálaráðherra heimild til að hækka þetta sérstaka vörugjald af bensíni í hlutfalli við hækkun vísitölu byggingarkostnaðar. Í frumvarpinu er lagt til að þessi heimild falli brott enda er slík heimild ekki eðlileg í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á stjórnarskránni með 15. og 16. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995. Af sömu ástæðu er lagt til að flugvélabensín verði undanþegið gjaldinu með lögum en ekki ákvörðun ráðherra eins og verið hefur.
    Með því að taka upp fast gjald í krónum á bensín í stað hlutfallsgjalds er dregið verulega úr þeim sveiflum sem breytingar á heimsmarkaðsverði á bensíni hafa á útsöluverð innan lands. Fjárhæð gjaldsins, 10,50 kr., er lægri en framreiknað meðaltal undanfarinna fimm ára eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu. Þó ber að hafa í huga að gjaldið var óvenju lágt á síðari hluta ársins 1998 og fyrri hluta þessa árs.

Meðaltal vörugjalds af bensíni í krónum á hvern lítra árin 1994–98.
Framreiknað til verðlags í júlí 1999.


Ár 1994 1995 1996 1997 1998 Meðaltal
Krónur 10,35 9,85 11,07 12,22 9,30 10,56

    Miðað við heimsmarkaðsverð á bensíni seinni hluta september 1999 samsvarar 97% vörugjald um 12,80 kr. vörugjaldi á hvern lítra af bensíni. Vörugjald af bensíni skv. 1. gr. frumvarpsins ætti því að leiða til rúmlega tveggja krónu lækkunar á gjaldinu sjálfu frá því sem nú er. Að teknu tilliti til áhrifa af virðisaukaskatti gæti útsöluverð því lækkað um 2,80 kr. á hvern lítra. Þessi lækkun svarar til 400 milljóna króna á heilu ári miðað við framangreindar forsendur. Þar sem bráðabirgðaákvæði kveður á um endurgreiðslur vörugjalds er þess að vænta að frumvarpið hafi áhrif á bensínverð þegar í stað. Forsendur fjárlagafrumvarps taka mið af þessari breytingu.

Þróun vörugjalds af bensíni.
    Fram til ársins 1993 var lagður 50% tollur á bensín. Með lögum nr. 29/1993 var hann felldur niður og í stað þess lagt á 90% vörugjald. Samhliða þessari breytingu var sérstakt bensíngjald afnumið, en það var fyrst lagt á 1. janúar 1993 sem liður í almennum efnahagsráðstöfunum og nam 4,50 kr. á hvern lítra.
    Með lögum nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, var vörugjaldið hækkað úr 90% í 97% og kom sú hækkun í stað 1,3% landsútsvars.
    Í töflunni hér að framan kemur fram hvert 97% vörugjald af bensíni hefur verið að meðaltali í krónum á hvern lítra undanfarin fimm ár. Útreikningarnir byggjast á upplýsingum úr innflutningsskýrslum og er vörugjaldið framreiknað til verðlags í júlí 1999 samkvæmt vísitölu framfærslukostnaðar.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að vörugjald af bensíni verði föst krónutala, 10,50 kr. af hverjum lítra af bensíni.

Um 2. gr.

    Eins og fram kemur í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild ráðherra til að hækka bensín í hlutfalli við vísitölu byggingarkostnaðar verði felld brott. Því er lagt til að krónutala bensíngjalds verði sú sama og nú er samkvæmt reglugerð nr. 255/1993 um vörugjald af eldsneyti, sbr. reglugerð nr. 356/1999. Breytingin hefur því engin áhrif á núverandi gjaldtöku.

Um 3. gr.

    Lagt er til að heimild ráðherra til að hækka bensíngjald í hlutfalli við hækkun vísitölu byggingarkostnaðar verði felld brott.


Um 4. gr.

    Lagt er til að heimild ráðherra til að undanþiggja bensín til nota á flugvélar vörugjaldi verði felld brott. Þess í stað verði mælt fyrir um að bensín sem er notað eða muni sannanlega verða notað á flugvélar sé undanþegið vörugjaldi. Þessi breyting hefur engin áhrif á núverandi gjaldtöku af flugvélabensíni.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um endurgreiðslu vörugjalds af birgðum umfram 10.000 lítra af bensíni. Það mun leiða til þess að áhrif breytinganna á útsöluverð á bensíni koma fram fyrr en ella hefði orðið.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993,
um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til í fyrsta lagi að vörugjald af bensíni verði innheimt sem föst krónutala í stað þess að vera hlutfall, 97%, af innflutningsverði bensíns að viðbættum viðeigandi gjöldum. Sú breyting er lögð til í þeim tilgangi að draga úr áhrifum breytinga á heimsmarkaðsverði bensíns á útsöluverð þess hér á landi og þar með á almenna verðlagsþróun innan lands. Fjárhæð gjaldsins á hvern lítra samkvæmt frumvarpinu er í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga ársins 2000 en nokkru lægri en vörugjaldið sem lagt er á miðað við núverandi heimsmarkaðsverð á bensíni. Haldist heimsmarkaðsverðið óbreytt til loka ársins gætu tekjurnar af vörugjaldinu því orðið nokkru lægri en ella verði frumvarp þetta að lögum. Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að felld verði niður heimild fjármálaráðherra til að hækka sérstakt vörugjald – bensíngjald – í hlutfalli við hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar. Í stað þess yrði þá að breyta lögum þegar ástæða þætti til að breyta bensíngjaldinu, t.d. vegna verðlagsþróunar. Tekjum af sérstöku vörugjaldi er varið til vegagerðar. Til að þær tekjur og samsvarandi útgjöld til vegamála haldist óbreytt eða svipuð miðað við núgildandi lög verður að gera ráð fyrir að bensíngjaldinu verði breytt reglulega í samræmi við forsendur fjárlaga og vegáætlunar hverju sinni.