Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 4  —  4. mál.Frumvarp til lagaum skattfrelsi norrænna verðlauna.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)

1. gr.

    Eftirtalin norræn verðlaun skulu undanþegin tekjuskatti og útsvari:
     1.      Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
     2.      Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
     3.      Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
     4.      Norrænu leikskáldaverðlaunin.
     5.      Norrænu barnabókaverðlaunin.
     6.      Nóbelsverðlaunin.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og útsvars á árinu 2000 vegna tekna á árinu 1999. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 13/1976, um skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að núgildandi lög nr. 13/1976, um skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, með síðari breytingum, verði felld úr gildi. Í gildandi lögum er kveðið á um að bókmennta- og tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs skulu undanþegin tekjuskatti og útsvari. Auk þess er fjármálaráðherra veitt heimild til að kveða á um það í reglugerð að önnur sambærileg menningarverðlaun séu undanþegin skattskyldu. Hafa í áranna rás bæst við nokkur önnur verðlaun, síðast umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimild fjármálaráðherra til að undanþiggja tiltekin norræn verðlaun skattskyldu verði afnumin enda er slík heimild ekki eðlileg í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á stjórnarskránni með 15. og 16. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995. Þess í stað er lagt til að talið verði upp í lögum með tæmandi hætti hvaða verðlaun eru undanþegin skattskyldu. Hafa nokkur verðlaun verið felld brott þannig að lögin eru þrengri en síðastgildandi reglugerð um þetta efni, sbr. fylgiskjal I. Rétt er að hafa í huga að samkvæmt almennum ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt eru öll verðlaun skattskyld, jafnt innlend sem erlend.
    Jafnframt er lagt til að afnumið verði núgildandi ákvæði um að eingöngu íslenskir ríkisborgarar njóti skattfrelsis. Núgildandi orðalag mismunar skattþegnum eftir ríkisfangi, enda er í 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kveðið á um hverjir eru skattskyldir hér á landi og þar er að meginreglu til miðað við heimilisfesti manna en ekki ríkisfang.


Fylgiskjal I.


Reglugerð um skattfrelsi norrænna menningarverðlauna.

1. gr.

    Eftirtalin norræn menningarverðlaun skulu undanþegin tekjuskatti og útsvari þegar þau falla íslenskum ríkisborgurum í skaut:
     1.      Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
     2.      Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
     3.      Norrænu leikskáldaverðlaunin.
     4.      Sonning verðlaunin.
     5.      Clara Lachmann verðlaunin.
     6.      Bjartsýnisverðlaun Bröstes.
     7.      Bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar.
     8.      Norrænu barnabókaverðlaunin.
     9.      Verðlaun Stofnunar í samanburðarlögfræði við Stokkhólmsháskóla.

2. gr.

    Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1976, um skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, sbr. 64. gr. laga nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, öðlast þegar gildi og kemur fyrst til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og útsvars á árinu 1995 vegna tekna á árinu 1994, sbr. þó 2. mgr.
    Þeir sem fengið hafa verðlaun skv. 1. gr. á árunum 1992 og 1993 og greitt hafa af þeim tekjuskatt og útsvar geta sótt um endurupptöku álagðra gjalda til skattstjóra, sem er heimilt að lækka tekjuskattsstofn til samræmis við reglu 1. gr.

Fjármálaráðuneytið, 13. febrúar 1995.


F.h.r.
Snorri Olsen.

Bragi Gunnarsson.Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 113/1995,
um skattfrelsi norrænna menningarverðlauna.

1. gr.

    Við 1. gr. reglugerðarinnar bætist nýr tölul. svohljóðandi: Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

2. gr.

    Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1976, um skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, sbr. 64. gr. laga nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, öðlast þegar gildi og kemur fyrst til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og útsvars á árinu 1999 vegna tekna á árinu 1998.

Fjármálaráðuneytinu, 8. mars 1999.

Geir H. Haarde.


Árni Kolbeinsson.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um skattfrelsi norrænna verðlauna.

    Frumvarpið miðar að því að laga gildandi lög um skattfrelsi verðlauna Norðurlandaráðs að breyttum aðstæðum en ekki er gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.