Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 5  —  5. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    Í stað orðanna „skulu þá 80% af óráðstöfuðum hluta persónuafsláttar annars makans bætast“ í 2. málsl. 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna kemur: skal þá óráðstöfuðum persónuafslætti annars makans bætt.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna skal óráðstöfuðum persónuafslætti annars hjóna, sem skattlagt er samkvæmt ákvæðum 63. gr., bætt við persónuafslátt hins með eftirfarandi hætti:
     a.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2000 vegna tekna á árinu 1999 skal bæta 85% af óráðstöfuðum hluta persónuafsláttar annars makans við persónuafslátt hins.
     b.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2001 vegna tekna á árinu 2000 skal bæta 90% af óráðstöfuðum hluta persónuafsláttar annars makans við persónuafslátt hins.
     c.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2002 vegna tekna á árinu 2001 skal bæta 95% af óráðstöfuðum hluta persónuafsláttar annars makans við persónuafslátt hins.


3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og útsvars á árinu 2000 vegna tekna á árinu 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á reglum um ráðstöfun persónuafsláttar á milli hjóna og fólks sem býr saman í óvígðri sambúð, sbr. 4. mgr. 63. gr. Reglum um millifærslu á persónuafslætti verður breytt í áföngum þannig að ónýttur persónuafsláttur maka mun nýtast að fullu við álagningu á árinu 2003 vegna tekna á árinu 2002. Við álagningu tekjuskatts á árinu 2000 vegna tekna á árinu 1999 kemur fyrsti áfangi þessara breytinga til framkvæmda og verður þá hægt að nýta 85% af ónýttum persónuafslætti maka í stað 80% eins og nú er. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs lækki um 100 m.kr. á árinu 2000 vegna þessa fyrsta áfanga. Þegar breytingin er að fullu komin til framkvæmda árið 2003 má gera ráð fyrir að árlegt tekjutap ríkissjóðs verði nálægt 400 m.kr. miðað við sömu forsendur.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum laga um ráðstöfun persónuafsláttar verði breytt á þann veg að heimilt verði að millifæra ónýttan persónuafslátt að fullu milli maka. Miðað er við að breytingin taki gildi í áföngum fram að skattálagningu ársins 2003 vegna tekna ársins 2002. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki um 100 m.kr. fyrir hver 5% af persónuafslættinum sem heimilað væri að færa á milli maka miðað við núverandi tekjuskatta af einstaklingum. Lækkunin á tekjunum yrði þá orðin alls um 400 m.kr. árið 2003 og árlega eftir það. Talið er að útgjöld ríkissjóðs vegna þessara breytinga yrðu óveruleg.