Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 9  —  9. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

Flm.: Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.



1. gr.

    Á eftir 2. málsl. 29. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Vísindasiðanefnd skal skipuð samkvæmt tilnefningu læknadeildar, lagadeildar, Líffræðistofnunar og Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélags Íslands. Ráðherra skipi formann án tilnefningar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Aðalhlutverk vísindasiðanefnda er að gæta réttinda og hagsmuna þeirra einstaklinga sem eru viðföng rannsókna. Auk þess gegnir vísindasiðanefnd mikilvægu eftirlitshlutverki með framkvæmd rannsókna. Tilnefning fulltrúa verður að tryggja næga þekkingu og reynslu nefndarmanna á sviði heilbrigðis- og lífvísinda, siðfræði, lögfræði og mannréttinda.
    Vísindasiðanefnd verður að vera skipuð fulltrúum óháðra hagsmunaaðila í skilningi alþjóðlegra reglna sem gilda um skipan slíkra nefnda. Einnig kemur vel til greina að til viðbótar sé reynt að tryggja enn betur stöðu nefndarinnar með því að í henni sitji fulltrúi almennings eða neytenda, skipaður af heildarsamtökum.
    Í Helsinkisáttmálanum um vísindarannsóknir frá 1964 er tekið fram að vísindasiðanefnd skuli vera óháð stjórnvöldum. Breyting á reglugerð um skipan í vísindasiðnefnd sem tók gildi síðasta sumar tryggir ekki hlutleysi nefndarinnar gagnvart stjórnvöldum þar sem nýja vísindasiðanefndin er skipuð fimm einstaklingum og eru fjórir skipaðir af ráðherrum en sá fimmti af landlækni. Þessi breyting sýnir að reglur um skipan í vísindasiðanefnd eiga að vera bundnar í lögum. Jafnframt er eðlilegt að reglur um vísindarannsóknir séu bundnar í lögum.