Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 11  —  11. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun Snæfellsþjóðgarðs.

Flm.: Þuríður Backman, Kolbrún Halldórsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson,


Jón Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að beita sér fyrir stofnun Snæfellsþjóðgarðs sem taki til Snæfells og öræfanna umhverfis að meðtöldum Eyjabökkum og Jökulsá í Fljótsdal að mörkum heimalanda jarða í Norðurdal.
    Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um stöðu undirbúnings að stofnun þjóðgarðsins á haustþingi árið 2000.

Greinargerð.


    Snæfell með Eyjabökkum og Vesturöræfum myndar afar svipmikla landslagsheild sem er einstæð hérlendis. Þar eru afar fjölbreytt og sérstætt lífríki og jarðmyndanir sem sýna samspil jökla og umhverfis þeirra í fortíð og nútíð. Við vesturmörk Snæfellsöræfa rennur Jökla, korgugasta jökulfljót hérlendis, sem hefur grafið vestan undir Kárahnjúkum einhver hrikalegustu gljúfur landsins, kennd við Hafrahvamma.
    Stórbrotin náttúra þessa svæðis með víðernum sem ekki eiga sinn líka í Evrópu hefur að undanförnu dregið að sér athygli fólks hérlendis og erlendis. Meðferð þessa mikla hálendissvæðis er stórmál sem varðar íslensku þjóðina alla og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland gengst undir í samfélagi þjóðanna.
    Verndargildi Snæfellsöræfa, og Eyjabakka sem hluta af þeim, er að verða mönnum æ ljósara eftir því sem óröskuð og lítt snortin landsvæði af þessum toga verða fágætari. Í núverandi mynd, óraskað um alla framtíð, er þetta óbyggðasvæði auðlind sem vaxa mun að gildi jafnt huglægt sem í hagrænu samhengi. Mörkin á milli þessa, hins huglæga og hagræna, eru samslungnari en áður í samfélagi þar sem hughrif, upplýsingar og þjónusta eru hagnýt viðfangsefni frá degi til dags.
    Það sem skiptir sköpum um Snæfellsöræfi er að takast megi að vernda náttúru þeirra og svipmót í heild um langa framtíð. Byrji menn á að búta þau í skákir sem verða vettvangur stórtækra framkvæmda í þágu mannvirkjagerðar hríðfellur gildi þeirra í því samhengi sem hér um ræðir. Því er brýnt að Alþingi og þjóðin öll líti þann kost með opnum huga og af framsýni að vernda náttúru svæðisins svo sem kostur er í heild í stað þess að leggja það stig af stig undir mannvirkjagerð og umsvifin sem henni fylgja.
    Náttúruverndarsamtök Austurlands – NAUST – hafa nýlega sent frá sér samþykkt og áskorun til stjórnvalda um stofnun þjóðgarðs á Snæfellsöræfum „sem taki til Snæfells og öræfanna umhverfis að meðtöldum Eyjabökkum og Jökulsá í Fljótsdal að mörkum heimalanda jarða í Norðurdal“ eins og það er orðað í samþykkt aðalfundar NAUST þann 29. ágúst 1999. Með þingsályktunartillögunni vilja flutningsmenn taka undir áskorun þessara austfirsku samtaka og leggja hana fyrir þingið til umræðu og afgreiðslu. Með stofnun Snæfellsþjóðgarðs skapast möguleikar á að nýta Snæfellsöræfi og Eyjabakka á allt annan hátt en þann sem mest hefur verið til umræðu á liðnum áratugum. Slík friðlýsing gerir svæðið að vettvangi náttúruskoðunar og vísindarannsókna innan þeirra marka sem þolmörk þess leyfa. Verndun náttúrunnar verður að hafa forgang því að annars nýtist svæðið ekki á sjálfbæran hátt til ferðaþjónustu og lífsfyllingar í óspilltri náttúru, sem verður æ eftirsóttari í hugum almennings. Ekki er seinna vænna að gripið verði til verndaraðgerða vegna álags á svæðið sökum hömlulítillar umferðar.
    Friðlýsing Snæfellsöræfa í einhverri mynd hefur verið rædd lengi en ekki náð fram að ganga. Alþingi hefur hins vegar ekki fjallað áður um þær hugmyndir. Stór hluti umrædds svæðis er í ríkiseign eða eru afréttarlönd sem nýtt eru af aðliggjandi sveitarfélögum. Snæfellssvæðið hefur allt það til að bera sem þarf til að verða í fremstu röð þjóðgarða á alþjóðamælikvarða. Flutningsmönnum er ljóst að vanda þarf undirbúning að stofnun slíks þjóðgarðs og leggja áherslu á samráð og góða samvinnu við það fólk og sveitarfélög sem hlut eiga að máli. Tillaga NAUST gerir ráð fyrir að hefðbundnar nytjar haldist á svæðinu og er tekið undir þá stefnu.
    Tillagan gerir ráð fyrir að umhverfisráðherra gefi Alþingi skýrslu um stöðu undirbúnings að stofnun þjóðgarðsins fyrir lok aldamótaársins, 2000.


Fylgiskjal.


Ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Austurlands – NAUST
um stofnun Snæfellsþjóðgarðs.
(29. ágúst 1999.)


    Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Austurlands – NAUST haldinn að Brúarási 29. ágúst 1999 leggur til, í samræmi við tillögu stjórnar NAUST frá í júní 1999, að stofnaður verði Snæfellsþjóðgarður, sem taki til Snæfells og öræfanna umhverfis að meðtöldum Eyjabökkum og Jökulsá í Fljótsdal að mörkum heimalanda jarða í Norðurdal. NAUST telur brýnt að litið sé heildstætt á þetta verðmæta svæði með tilliti til verndunar náttúru þess ókomnum kynslóðum til yndisauka. Fundurinn felur stjórn samtakanna að koma tillögunni á framfæri við umhverfisráðuneytið, Náttúruvernd ríkisins og Alþingi með ósk um að stjórnvöld beiti sér fyrir stofnun þjóðgarðsins.
    Snæfellsþjóðgarður og verndun hálendisins norðan Vatnajökuls hefði ómetanlegt gildi fyrir landið í heild og Austurland sérstaklega auk þess að hafa alþjóðlega þýðingu. Tilkoma þjóðgarðsins mundi hvetja til náttúruskoðunar og verða lyftistöng fyrir umhverfisvernd og atvinnuþróun á Austurlandi.

Greinargerð með ályktun NAUST um stofnun Snæfellsþjóðgarðs.

Æskileg mörk þjóðgarðsins.
    Í aðalatriðum er miðað við að mörk Snæfellsþjóðgarðs verði eftirfarandi: Að austanverðu fylgi þau Kelduá frá upptökum í Vatnadæld norður undir ármót við Innri-Sauðá. Þaðan vestur í Snikilsárvatn og með Ytri-Snikilsá í Jökulsá í Fljótsdal. Að norðanverðu um Öxará og vatnaskil milli Þórisstaðakvíslar og Laugarár, vestur yfir Hölkná og norðvestur í Kálffell (794 m). Þaðan til vesturs um Tungusporð og Búrfell (840 m) í Jöklu við Hnitasporð. Að vestan ráði Jökulsá á Dal [Jökla] mörkum og innst Jökulkvísl að upptökum og að sunnan lína um 64°39´N í Vatnajökli [milli ca. 15°24´ og 15°48´].

Hefðbundnar nytjar haldist.
    Lengi hefur verið í undirbúningi að stofna svokallað Snæfellsöræfafriðland og er hér gert ráð fyrir að það yrði allt innan þjóðgarðsins, en svæðið hins vegar stækkað austur fyrir Eyjabakka og Jökulsá norður að mörkum heimalanda. Leita ber samráðs við heimamenn um mörkin í einstökum atriðum sem og um reglur fyrir þjóðgarðinn, en NAUST telur að stofnun hans þurfi ekki að rekast á við hefðbundnar nytjar bænda af svæðinu. Hreindýraveiðar yrðu heimilaðar í samræmi við sérstakar reglur þar að lútandi. Æskilegt væri að Kleifarskógur milli Öxarár og Ófæruselslækjar yrði hluti af hinu friðlýsta svæði.

Eignarhald.
    Stór hluti umrædds svæðis er á landi í ríkiseign en sumt afréttarlönd aðliggjandi sveitarfélaga. Austan Jökulsár innan við Ytri-Snikilsá er Múli [Múlaafrétt] og vestan ár umhverfis Snæfell og út að Bessastaðaá [Gilsárvötnum] kallast afréttin Undir Fellum en Vesturöræfi þar fyrir vestan að Jöklu með ytri mörk við Hnitasporð, Búrfell og Kálffell. Kringilsárrani vestan við Jöklu og Jökulkvísl var lýstur friðland að tillögu Náttúruverndarráðs 1975.

Náttúrufar.
    Snæfellsþjóðgarður sem hér er gerð tillaga um yrði í allra fremstu röð náttúruverndarsvæða hérlendis og einstakur um margt. Snæfell er hæst íslenskra fjalla utan Vatnajökuls, fjölbreytt að jarðfræðilegri gerð og því tengist svipmikil hnjúkaröð.
    Eyjabakkasvæðið er víðfeðm gróðurvin og sérstætt votlendissvæði í um 650 m hæð fram með upptakakvíslum Jökulsár í Fljótsdal. Svæðið stendur undir miklu fuglalífi, einkum heiðagæsa sem í sárum halda sig á jökullónum við sporð Eyjabakkajökuls. Sem votlendi með ríkulegu fuglalífi falla Eyjabakkar undir skilgreiningu Ramsarsáttmálans sem Ísland er aðili að. Í Jökulsá norðan Eyjabakka er ein fegursta fossasyrpa landsins.
    Vesturöræfi eru óvenju vel gróin heiðalönd í 650–670 m hæð. Votlendi er þar útbreitt með fjölda tjarna og smávatna. Vesturöræfi eru helsta burðarsvæði hreindýrastofnsins.
    Innan svæðisins fram undan Brúarjökli og Eyjabakkajökli er að finna margháttaðar minjar um framhlaup þessara jökla, meðal annars svonefnda Hrauka þar sem skriðjöklarnir hafa ýtt upp jarðvegi sem stendur undir sérstæðum gróðri. Þá er vottur af freðmýrum með rústum eða dysjum allvíða á svæðinu.
    Við vesturmörk svæðisins er Jökla, korgugasta jökulfljót hérlendis, sem grafið hefur út gljúfrið mikla kennt við Hafrahvamma vestan undir Kárahnjúkum.
    Á heildina litið yrði Snæfellsþjóðgarður einstakt djásn sem að fjölbreytni og fegurð stæðist samjöfnuð við hvaða úrvalssvæði sem er á heimsskautaslóðum. Hann mundi tengjast væntanlegum Vatnajökulsþjóðgarði og til suðausturs tæki við Friðland á Lónsöræfum.
    Um Snæfellsöræfi og Eyjabakka hefur margt verið ritað. Nýlega kom út sérstakt hefti af tímaritinu Glettingi (nr. 17–18) , helgað Snæfellssvæðinu, og eru því þar gerð góð skil.

Hvers vegna er nú gerð tillaga um þjóðgarð?
    Náttúruverndarsamtök Austurlands vöktu þegar á fyrstu starfsárum sínum eftir 1970 athygli á verndargildi Snæfellssvæðisins að Eyjabökkum meðtöldum. Að tillögu samtakanna tók Náttúruverndarráð svæðið á opinbera náttúruminjaskrá árið 1978. Virkjunaráform vegna Jökulsár í Fljótsdal urðu þess valdandi að ekki var unnið að friðlýsingu svæðisins í heild eftir 1980. Náttúruverndarráð [nú Náttúruvernd ríkisins] hefur hins vegar frá 1990 freistað þess að að fá stofnað til friðlands við Snæfell og á Vesturöræfum.
    Hin síðustu ár hefur skilningur almennings á gildi miðhálendisins og nauðsyn þess að vernda stóran hluta þess ósnortinn vaxið hröðum skrefum. Andstaða við virkjun Jökulsár í Fljótsdal hefur magnast og fyrirvarar verið settir við þá framkvæmd, m.a. í tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins, sem nú hefur verið staðfest. Við þessar aðstæður telur NAUST brýnt að litið sé heildstætt á náttúru þessa svæðis og þau sterku rök sem eru fyrir því að vernda hana óspillta og gera ferðafólki kleift að njóta svæðisins án þess að tjón hljótist af. Það verður best gert með því að stofnað verði til þjóðgarðs, eins og hér er gerð tillaga um.

Snæfellsþjóðgarður.


Mörk samkvæmt tillögu stjórnar NAUST í júní 1999.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.