Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 16  —  16. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Flm.: Gísli S. Einarsson.



I. KAFLI.
Breyting á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar,
með síðari breytingum.

1. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, örorkustyrkja, barnalífeyris og bóta í fæðingarorlofi.

2. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Fullur árlegur ellilífeyrir skal vera 85% af lágmarkslaunum samkvæmt lögum um lágmarkslaun og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla A, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr.

3. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Fullur árlegur örorkulífeyrir skal vera 85% af lágmarkslaunum samkvæmt lögum um lágmarkslaun og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr.

4. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Fæðingarstyrkur skal vera 85% af lágmarkslaunum samkvæmt lögum um lágmarkslaun á mánuði í sex mánuði og greiðast móður við hverja fæðingu barns, sbr. þó 2. mgr. og ákvæði þessarar greinar um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum.

5. gr.

    Á eftir orðinu „fæðingarorlofi“ í 3. málsl. a-liðar 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: eða fá greiddan fæðingarstyrk skv. 15. gr.

6. gr.

    17. og 18. gr. laganna falla brott.


Prentað upp.


II. KAFLI.
Breyting á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð,
með síðari breytingum.

7. gr.

    Orðin „heimilisuppbót“, „sérstök heimilisuppbót“ og „frekari uppbætur“ í 1. mgr. 1. gr. laganna falla brott.

8. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem nema fullum grunnlífeyri almannatrygginga.

9. gr.

    9. og 10. gr. laganna falla brott.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.

Greinargerð.


    Frumvarp til laga um lágmarkslaun, sem lagt er fram á þessu þingi gerir ráð fyrir að lágmarkslaun verði ekki lægri en 112.000 kr. á mánuði fyrir fulla dagvinnu. Með þessu frumvarpi er lagt til að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga verði einfaldaðar og lífeyrisþegum greidd 85% af lágmarkslaunum til framfærslu á mánuði, eins og þau eru ákveðin á hverjum tíma, og munu lífeyrirsgreiðslur því fylgja öllum breytingum á lágmarkslaunum. Lagt er til að flestar aukagreiðslur til lífeyrisþega verði felldar niður þar sem grunnlífeyrir verður hækkaður. Flutningsmaður vill jafnframt vekja athygli á nauðsyn þess að endurskoða almannatryggingalöggjöfina í heild sinni sem allra fyrst.
    Með breytingum á lögum um almannatryggingar er gert ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrir verði ákveðið hlutfall af lágmarkslaunum eins og þau eru á hverjum tíma en í stað þess verði tekjutrygging skv. 17. og 18. gr. felld niður. Þá er lagt til að fæðingarstyrkur skv. 15. gr. verði líka ákveðinn sem hlutfall af lágmarkslaunum og fæðingardagpeningar ekki greiddir öðrum en þeim sem hvorki njóta launa né fæðingarstyrks í fæðingarorlofi.
    Með breytingum á lögum um félagslega aðstoð er á sama hátt gert ráð fyrir að makabætur skv. 5. gr. verði hækkaðar þannig að þær nemi fullum grunnlífeyri almannatrygginga í stað þess að heimilt sé að greiða allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt er lagt til að heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót skv. 9. gr. og frekari uppbætur skv. 10. gr. falli niður þar sem lífeyrisgreiðslur hafa verið hækkaðar verulega.