Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 17 — 17. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir,


Guðrún Ögmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir.


1. gr.

    Á eftir orðinu „vaxtabætur“ í 7. tölul. 28. gr. laganna, sbr. lög nr. 49/1987, sbr. lög nr. 122/1993, kemur: húsaleigubætur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á 123. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fékk þá 14 umsagnir um málið. Einn aðili, Vinnumálasambandið, mælti gegn samþykkt frumvarpsins. Þeir sem eindregið studdu það voru eftirfarandi aðilar: BSRB, Öryrkjabandalag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Akureyrarbær, Leigjendasamtökin, Neytendasamtökin, Sjálfsbjörg, Þroskahjálp, ASÍ, Reykjavíkurborg og Bandalag háskólamanna.
    Frumvarpið er flutt til að tryggja að markmiðum laga nr. 138/1997, um húsaleigubætur, um lækkun húsnæðiskostnaðar tekjulágra leigjenda verði náð og dregið úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.
    Samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eru húsaleigubætur skattskyldar sem hverjar aðrar tekjur. Þá ber að staðgreiða skatt af húsaleigubótum skv. A-lið 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Skv. 28. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eru vaxtabætur með öllu undanþegnar skattskyldu. Svo húsaleigubætur nái tilgangi sínum að lækka húsnæðiskostnað leigjenda er nauðsynlegt að farið verði með slíkar greiðslur eins og vaxtabætur þeirra sem búa í eigin húsnæði.
    Mikið óréttlæti felst í því að skattleggja húsaleigubætur meðan vaxtabætur eru skattfrjálsar. Nálægt 60% þeirra sem nú fá húsaleigubætur eru atvinnulausir, ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar, námsmenn eða einstæðir foreldrar. Hér er því um að ræða tekjulægstu hópa þjóðfélagsins. Húsaleigubætur og vaxtabætur eru hvorar tveggja aðstoð samfélagsins til að auðvelda fólki að standa straum af húsnæðiskostnaði. Því má líkja við brot á jafnræðisreglunni þegar bætur sem komið er á í nánast sama tilgangi, þ.e. að auðvelda fólki að fá húsaskjól, hljóta mismunandi meðferð í skattkerfinu.
    Engin sanngirni er í því að þeir sem eiga íbúðir fái 3.300 millj. kr. skattfrjálsar í vaxtabætur, en af 200–300 millj. kr. húsaleigubótum, sem þeir verst settu fá, þurfi að greiða skatt. Einnig má benda á þá framkvæmd sem víða hefur verið komið á að húsaleigubætur koma í stað niðurgreiðslna á leiguíbúðum sveitarfélaga. Þótt tilgangurinn með því sé fyrst og fremst að koma á samræmdu húsaleigubótakerfi fyrir allan leigumarkaðinn, hvort sem um er að ræða félagslegar leiguíbúðir eða íbúðir á almenna markaðnum, getur þessi breyting í mörgum tilvikum þýtt að stærri hluti framfærslunnar hjá lægst launuðu hópunum fari í húsnæðiskostnað. Þannig getur húsaleigan við þá breytingu að færa húsaleigu í leiguíbúðum sveitarfélaga upp í raunkostnað en greiða þess í stað húsaleigubætur þýtt mun hærri mánaðarleigu hjá stórum hópi lágtekjufólks, nema sveitarfélögin bæti þeim sérstaklega mismuninn. Auk þess þarf nú láglaunafólk sem áður fékk mikið niðurgreidda íbúð en engar húsaleigubætur að greiða skatt af breyttu formi hins opinbera á niðurgreiðslu húsnæðiskostnaðar, þ.e. af húsaleigubótunum. Skattur af húsaleigubótum bætist því ofan á minni niðurgreiðslu frá hinu opinbera í húsnæðisaðstoð til lágtekjufólks en áður var. Því til viðbótar bætast nú húsaleigubætur ofan á tekjur viðkomandi og hafa því áhrif til lækkunar á barnabótum, en skerðingarhlutfall barnabóta vegna tekna nemur 5% fyrir eitt barn, 9% fyrir tvö börn og 11% ef börnin eru þrjú eða fleiri.
    Af framangreindu má vera ljóst að öll rök hníga í þá átt að jafnræði sé í skattalegri meðferð á húsaleigubótum og vaxtabótum. Það er tilgangur frumvarpsins. Nái það fram að ganga mun það bæta verulega afkomu tekjulægstu hópanna í þjóðfélaginu. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra námu greiðslur húsaleigubóta á sl. ári 321 millj. kr. Að teknu tilliti til þess að margir geta nýtt persónuafslátt sinn til greiðslu á skatti af húsaleigubótum má ætla að tekjutap ríkissjóðs verði um 100 millj. kr. á ári, nái frumvarpið fram að ganga.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði um húsaleigubætur í 7. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en með þeirri breytingu verða húsaleigubætur skattfrjálsar. Samhliða frumvarpinu er flutt frumvarp til laga um breytingu á ákvæðum ýmissa laga er varða húsaleigubætur.