Ferill 18. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 18  —  18. mál.




Beiðni um skýrslu



frá landbúnaðarráðherra um stöðu garðyrkjubænda og þróun á verði og neyslu grænmetis.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Margréti Frímannsdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur,


Svanfríði Jónasdóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Sigríði Jóhannesdóttur,
Gísla S. Einarssyni, Jóhanni Ársælssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur,
Einari Má Sigurðarsyni og Kristjáni L. Möller.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu garðyrkjubænda og þróun á verði og neyslu grænmetis.
    Óskað er eftir upplýsingum um eftirtalin atriði:
     1.      Hvernig hefur þróun grænmetisverðs (sundurliðað eftir tegundum, sé þess kostur) verið árlega frá árinu 1995, annars vegar verð á innlendu grænmeti og hins vegar innfluttu?
     2.      Hvernig hefur útsöluverð á innlendu grænmeti skipst milli framleiðenda, dreifingaraðila og opinberra aðila árlega sl. fimm ár?
     3.      Hvernig hefur kostnaðarverð (þ.e. innkaupsverð, innflutningstollar, magntollar, smásöluálagning, heildsöluálagning, virðisaukaskattur og flutningsgjöld) á innfluttu grænmeti skipst árlega frá 1995 (sundurliðað eftir tegundum, sé þess kostur)?
     4.      Hvernig hefur verð á grænmeti þróast samanborið við aðrar neysluvörur árlega frá 1995?
     5.      Hve mikið hefur verið flutt inn af grænmeti frá gildistöku GATT-samningsins 1995, sundurliðað eftir tegundum?
     6.      Hvernig samræmast miklir verndar- og magntollar á innfluttu grænmeti manneldis- og neyslustefnu stjórnvalda frá 1989?
     7.      Hver hefur heildarneysla á fersku grænmeti verið hér á landi á mann árlega frá 1995 samanborið við önnur Evrópulönd og hvernig hefur þróun grænmetisverðs verið í þessum löndum á þessu tímabili?
     8.      Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir því að á verðmiða grænmetis í verslunum verði skylda að skrá skilaverð til garðyrkjubænda?
     9.      Hvernig hefur afkoma garðyrkjubænda og gróðurhúsaeigenda verið árlega síðan 1995?
     10.      Hvernig er raforkuverð til ylræktar hér á landi í samanburði við önnur Evrópulönd?
     11.      Hvernig er háttað eignaraðild garðyrkjubænda í innflutnings- og dreifingarfyrirtækjum grænmetis?
     12.      Hvaða leiðir eru færar til að íslenskt grænmeti geti orðið samkeppnisfært við erlent grænmeti hvað verð snertir bæði hér á landi og erlendis og eru uppi áform hjá stjórnvöldum um að styrkja samkeppnisstöðu garðyrkjubænda?
     13.      Hvaða árangur hefur náðst í hagræðingu og framleiðsluaukningu hjá garðyrkjubændum frá árinu 1995?
     14.      Ríkir eðlileg samkeppni dreifingarfyrirtækja grænmetis og hvernig er eignarhaldi þar háttað?
     15.      Má ætla að skortur á samkeppni hafi leitt til verðstýringar á markaði?
     16.      Hvaða tekjur hefur ríkissjóður haft árlega sl. fimm ár af tollum á innflutt grænmeti?
    Óskað er eftir að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi eins fljótt og auðið er eftir að henni hefur verið dreift meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Margt bendir til að neysla grænmetis hér á landi sé miklu minni en í öðrum löndum Evrópu og verð þess mun hærra.
    Samkvæmt upplýsingum manneldisráðs jókst neysla fersks grænmetis á hvern Íslending um 12% á fyrstu fimm árum þessa áratugar en hefur síðan staðið í stað.
    Þessi þróun gengur gegn manneldis- og neyslustefnu stjórnvalda sem samþykkt var á Alþingi 19. maí 1989.
    Á árunum 1990–2000 átti að ná fram meginmarkmiðum manneldis- og neyslustefnunnar en hún fól m.a. í sér áherslu á aukna neyslu grænmetis. Auk þess skyldi tekið mið af settum manneldismarkmiðum við ákvörðun tolla og skatta og hvers konar opinberra aðgerða sem áhrif hafa á verðlag matvæla.
    Þróun grænmetisneyslu gefur sterka vísbendingu um að of hátt grænmetisverð gangi gegn manneldis- og neyslustefnu stjórnvalda.
    Leiða má líkur að því að háir innflutnings- og magntollar vegna GATT-samningsins sem tóku gildi 1995 hafi stuðlað að þessari þróun.
    Tilgangur þessarar skýrslubeiðni er að fá fram hvernig verð og neysla á grænmeti hefur þróast á undanförnum árum, m.a. vegna GATT-samningsins, í ljósi manneldis- og neyslustefnu stjórnvalda.
    Ekki síður er tilgangur flutningsmanna að leiða í ljós hvaða leiðir eru færar til að lækka verð á grænmeti og auka samkeppni í greininni til að tryggja betur hag neytenda, en mikil fákeppni og einokun ásamt gífurlega háum innflutnings- og magntollum hefur haldið uppi háu verði á grænmeti.
    Loks er tilgangur skýrslubeiðninnar að sjá hvernig til hefur tekist í uppbyggingu og hagræðingu hjá íslenskum garðyrkjubændum. Þannig væri betur hægt að sjá hvaða leiðir eru færar til að stuðla að bættri stöðu garðyrkjubænda í samkeppni við innflutt grænmeti.