Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 19  —  19. mál.




Beiðni um skýrslu



frá félagsmálaráðherra um kjör einstæðra foreldra.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Margréti Frímannsdóttur,     Rannveigu Guðmundsdóttur,


Guðrúnu Ögmundsdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur,     Bryndísi Hlöðversdóttur,


Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni,     


Sigríði Jóhannesdóttur     og Einari Má Sigurðarsyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félagsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um kjör einstæðra foreldra.
    Í skýrslunni er óskað eftir upplýsingum um eftirtalin atriði:
     1.      Hve margir einstæðir foreldrar búa, skipt eftir kyni og fjölda barna,
       a.      í eigin húsnæði, skipt eftir félagslegu húsnæði og húsnæði á almennum markaði,
       b.      í leiguhúsnæði,
                  i.      á almennum markaði,
                  ii.      á vegum sveitarfélaga eða félagasamtaka,
       c.      við aðrar húsnæðisaðstæður,
        og hvernig er húsnæðisaðstaða þeirra miðað við aðra þjóðfélagshópa?
     2.      Hvað má áætla að framfærslukostnaður einstæðra foreldra sé hár, skipt eftir barnafjölda og aldri barna, og hvað má ætla að meðalhúsnæðiskostnaður einstæðra foreldra á mánuði sé hár, annars vegar í leiguhúsnæði og hins vegar í eigin húsnæði?
     3.      Hverjar eru félagslegar aðstæður barna einstæðra foreldra með tilliti til þátttöku í tómstundastarfi utan skóla, svo sem tónlistarnámi, íþróttum o.fl.? Hvernig er menntun þeirra háttað samanborið við menntun barna sambýlis- eða hjónafólks?
     4.      Hvernig er menntun einstæðra foreldra háttað?
     5.      Hverjar hafa meðaltekjur einstæðra foreldra verið á árunum 1995–99, skipt eftir kyni, og hver hefur meðalhækkun þeirra verið á þeim árum? Beðið er um samanburð við tekjur og hækkun hjá öðrum hópum á þessum árum.
     6.      Hve margir einstæðir foreldrar hafa atvinnutekjur
       a.      undir 100 þús. kr.,
       b.      100–150 þús. kr.,
       c.      150–200 þús. kr.,
       d.      yfir 200 þús. kr.,
        og í hvaða atvinnugreinum eru einstæðir foreldrar fjölmennastir?
     7.      Hverjar voru ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra á árunum 1994–99 samanborið við aðra þjóðfélagshópa og hvernig skiptust ráðstöfunartekjurnar?
     8.      Hvað má áætla að meðlagsgreiðslur til einstæðra foreldra séu hátt hlutfall af framfærslukostnaði barna 0–15 ára annars vegar og hins vegar 15–19 ára?
     9.      Hver var eigna- og skuldastaða einstæðra foreldra árlega á árunum 1995–99 samanborið við aðra hópa?
     10.      Hve margir einstæðir foreldrar fengu árlega fjárhagsaðstoð hjá stærstu sveitarfélögunum á árunum 1994–99 samanborið við aðra hópa sem leitað hafa eftir fjárhagsaðstoð?
     11.      Hve margir einstæðir foreldrar fá
       a.      barnabætur,
       b.      húsaleigubætur,
       c.      námslán,
       d.      bætur
        frá Tryggingastofnun ríkisins og þá hverjar?
     12.      Hverjar voru meðalskattgreiðslur einstæðra foreldra tekjuárin 1997 og 1998 og hve margir þeirra voru skattlausir?
     13.      Hvaða breytingar hafa verið gerðar á mæðralaunum sl. fjögur ár og hvaða áhrif hafa þær haft?
     14.      Eru uppi áform af hálfu ráðherra eða ríkisstjórnarinnar um að bæta kjör, aðbúnað eða stöðu einstæðra foreldra?

Greinargerð.


    Beiðni þessi er nær samhljóða beiðni til félagsmálaráðherra frá 123. löggjafarþingi en ráðherra skilaði þá ekki skýrslu til Alþingis. Beiðnin er nú endurflutt með þeim breytingum að ártölum í 5., 7., 9. og 10. tölul. er breytt, auk þess sem bætt er við spurningu um skattgreiðslur einstæðra foreldra. Beiðninni frá 123. löggjafarþingi fylgdi svofelld greinargerð:
    Á ráðstefnu sem Félag einstæðra foreldra hélt nýlega komu fram upplýsingar um mjög slæma stöðu einstæðra foreldra og barna þeirra, bæði fjárhagslega og félagslega. Virðist svo vera að á margan hátt hafi einstæðir foreldrar dregist aftur úr öðrum hópum á umliðnum árum og má í því sambandi geta þess að á sl. þremur árum hefur einstæðum foreldrum sem leita þurfa fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögum fjölgað verulega. Auk þess eru einstæðir foreldrar mjög fjölmennir í hópi láglaunafólks og þeirra sem þurfa á leiguhúsnæði og félagslegu húsnæði að halda. Því hefur einnig verið haldið fram að félagsleg staða barna einstæðra foreldra sé um margt miklu lakari en annarra barna, m.a. til tómstundaiðkana og menntunar. Einnig hefur komið fram hjá landlæknisembættinu að samhengi sé milli heilsufars barna og félagslegrar stöðu foreldra.
    Í ljósi framangreinds er nauðsynlegt að fá fram heildstæða mynd af kjörum og aðbúnaði einstæðra foreldra og barna þeirra sem gæti gefið upplýsingar um hvaða leið sé vænlegust til að bæta hag þeirra í þjóðfélaginu, en það er tilgangurinn með þessari skýrslubeiðni.