Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 21  —  21. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á starfsheiti landslagshönnuða.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



Breyting á lögum nr. 8/1996, um löggildingu


nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.


1. gr.

    Í stað orðsins „landslagshönnuða“ í 7. tölul. 1. gr. laganna kemur: landslagsarkitekta (landslagshönnuða).


Breyting á lögum nr. 73/1997, skipulags- og byggingarlögum.


2. gr.

    Í stað orðsins „landslagshönnuðir“ í 2. mgr. 48. gr. og 4. mgr. 49. gr. laganna kemur: landslagsarkitektar (landslagshönnuðir).

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp það, sem hér er lagt til að lögfest verði og fjallar um breytingu á lögum nr. 8/ 1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, og lögum nr. 73/1997, skipulags- og byggingarlögum, er flutt að tilmælum Félags íslenskra landslagsarkitekta — FÍLA.
    Á 111. löggjafarþingi 1988–89 var starfsheitinu landslagshönnuður bætt inn í þágildandi lög nr. 62/1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga, með lögum nr. 44/1989. Kröfur FÍLA um að starfsheitið landslagsarkitekt yrði lögverndað voru ekki teknar til greina þar eð starfsheitið arkitekt hafði ekki fengið viðurkenningu af stjórnvöldum og var því starfsheitið landslagshönnuður látið nægja. Starfsheitinu húsameistari var hins vegar breytt skömmu síðar í arkitekt og var því sá rökstuðningur ekki lengur til staðar sem notaður var til að hafna óskum FÍLA. Vill félagið því nú að lögverndaða starfsheitinu landslagshönnuður verði breytt í landslagsarkitekt.
    Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, var stofnað árið 1978 og eru félagsmenn nú fjörutíu talsins. Fullgildir félagsmenn geta þeir orðið sem lokið hafa námi í landslagsarkitektúr við menntastofnanir sem eru viðurkenndar af félaginu og International Federation of Landscape Architects — IFLA. Hefð fyrir starfsheitinu landslagsarkitekt er jafngömul félaginu og allir félagsmenn nota það. Þykir félögum FÍLA því full ástæða til að lögvernda starfsheitið landslagsarkitekt.
    Framangreind breyting var borin undir Arkitektafélag Íslands og gat stjórn félagsins fallist á hana. Þá kom fram að allir félagar í Félagi íslenskra landslagsarkitekta eru með háskólapróf í landslagsarkitektúr. Var og fallist á að þeir sem uppfylltu skilyrði til að gerast félagar í Félagi íslenskra landslagsarkitekta fengju löggildingu á starfsheitinu landslagsarkitekt. Hér er gengið út frá því að menntunarkröfur séu sambærilegar þeim sem Arkitektafélag Íslands gerir til sinna félaga.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á starfsheiti landslagshönnuða.

    Tilgangur frumvarpsins er að breyta starfsheitinu landslagshönnuður í lögunum í landslagsarkitekt.
    Verði frumvarpið að lögum óbreytt verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.