Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 23  —  23. mál.
Frumvarp til lagaum öryggi greiðslufyrirmæla og greiðslujöfnunar í greiðslukerfum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.

    Ákvæði þessara laga taka til greiðslukerfis sem rekið er hér á landi og sem tilnefnt hefur verið í samræmi við ákvæði 3. gr. laganna.

2. gr.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Greiðslukerfi: Formlegt greiðslujöfnunar- eða stórgreiðslukerfi þriggja eða fleiri þátttakenda sem byggist á sameiginlegum reglum og stöðluðu fyrirkomulagi við greiðslujöfnun og framkvæmd greiðslufyrirmæla milli þeirra, enda hafi a.m.k. einn þátttakendanna aðalskrifstofu sína hér á landi, og greiðslukerfið fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru og það hefur verið tilkynnt til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og framkvæmdastjórnar EB, sbr. 3. gr.
     2.      Stofnun:
                  a.      Viðskiptabanki eða sparisjóður sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.
                  b.      Fyrirtæki sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
                  c.      Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu samkvæmt lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.
                  d.      Deild eða deildir í stofnun, sbr. a–c-lið hér að framan, sem ekki teljast sérstakar persónur að lögum en tilheyra eftirlitsskyldri erlendri stofnun sem hefur starfsleyfi og útibú hér á landi.
                  e.      Seðlabanki Íslands eða stofnun með ríkisábyrgð sem heimild hefur til að stunda að hluta eða öllu leyti starfsemi sem fellur undir a–c-lið.
     3.      Milligönguaðili: Aðili sem hefur milligöngu fyrir stofnun í greiðslukerfi og hefur einkarétt á miðlun greiðslufyrirmæla viðkomandi stofnunar.
     4.      Uppgjörsaðili: Aðili sem stofnar og sér um uppgjörsreikninga fyrir stofnanir og milligönguaðila og sér um framkvæmd á greiðslufyrirmælum þeirra og veitir þeim eftir atvikum lán í þessu skyni.
     5.      Greiðslujöfnun: Að umbreyta í eina kröfu eða skuldbindingu mörgum kröfum eða skuldbindingum, sem eiga rót að rekja til greiðslufyrirmæla sem þátttakendur hafa annaðhvort gefið eða eiga að taka við frá einum eða fleiri þátttakendum svo að aðeins ein (nettó) krafa eða skuldbinding myndast um greiðslu eða greiðsluskyldu þátttakanda.
     6.      Uppgjörsreikningur: Reikningur í seðlabanka, hjá milligöngu- eða uppgjörsaðila sem er notaður til að varðveita innstæður og verðbréf til uppgjörs á greiðslum milli þátttakenda í greiðslukerfi.
     7.      Greiðslufyrirmæli: Sérhver fyrirmæli þátttakanda um að móttakanda sem þar er vísað til séu afhentir fjármunir með því að leggja með reikningsfærslu tiltekna fjárhæð inn á reikning stofnunar, seðlabanka eða uppgjörsaðila, eða sérhver fyrirmæli sem skuldbinda hann eða leysa hann undan skyldu til að inna af hendi greiðslu eins og hún er nánar skilgreind í reglum greiðslukerfisins, eða fyrirmæli þátttakanda um að framselja bein eða óbein eignarréttindi í verðbréfum með rafrænni eignarskráningu, eða önnur sambærileg fyrirmæli.
     8.      Greiðslujöfnunarstöð: Aðili sem vinnur úr greiðslufyrirmælum sem berast frá stofnunum og annast greiðslujöfnun þeirra á milli, einnig milligöngu- og uppgjörsaðili, ef það á við.
     9.      Þátttakandi: Stofnun, milligönguaðili, greiðslujöfnunarstöð eða uppgjörsaðili.
     10.      Óbeinn þátttakandi: Lánastofnun sem fellur undir a- eða b-lið 2. tölul. um skilgreiningu á stofnun og sem gert hefur samning við stofnun sem á aðild að greiðslukerfi og sem gerir lánastofnuninni fært að senda greiðslufyrirmæli í gegnum greiðslukerfið.
     11.      Veðtryggingar: Allar seljanlegar eignir, þ.m.t. peningainnstæður, verðbréf og samningar um endurhverf viðskipti eða aðrir sambærilegir samningar sem gerðir eru eða lagðir fram til tryggingar í greiðslukerfi eða í seðlabönkum.
     12.      Seðlabanki: Seðlabanki í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Seðlabanki Evrópu.
     13.      Stórgreiðslukerfi: Kerfi sem seðlabankar, eða aðilar sem hafa til þess heimild, starfrækja vegna mikilvægra og meiri háttar greiðslufyrirmæla þátttakenda fyrir eigin reikning þeirra eða reikning viðskiptamanna.
     14.      Greiðslujöfnunarkerfi: Kerfi sem annast greiðslujöfnun.

3. gr.

    Seðlabanki Íslands gerir tillögu til ráðherra um greiðslukerfi sem hann telur að fullnægi ákvæðum þessara laga og tilnefna skal í samræmi við 2. mgr. að fenginni umsókn þeirra aðila sem starfrækja greiðslukerfi hér á landi.
    Ráðherra skal með auglýsingu sem birt er í Lögbirtingablaðinu kunngera þau innlendu greiðslukerfi sem tilnefnd hafa verið og falla undir ákvæði þessara laga og senda tilkynningu þar um til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

II. KAFLI
Greiðslujöfnun og greiðslufyrirmæli.
4. gr.

    Öll greiðslufyrirmæli, svo og greiðslujöfnun, skulu vera að öllu leyti bindandi gagnvart þriðja manni, jafnvel þó að bú þátttakanda sem fyrirmælin gaf sé tekið til gjaldþrotaskipta, enda séu fyrirmælin komin til greiðslukerfisins áður en úrskurður um gjaldþrot er kveðinn upp.
    Sama gildir að því er varðar greiðslufyrirmæli sem koma til greiðslukerfisins á sama degi og gjaldþrotaskipti á búi þátttakanda hefjast en eftir þá stund sem tilgreind er í 6. gr., enda hafi greiðslujöfnunarstöð, milligöngu- eða uppgjörsaðili sýnt fram á að hann hafi hvorki vitað né mátt vita um þau.
    Í greiðslukerfum er skylt að skilgreina hvenær greiðslufyrirmæli teljast vera komin til kerfisins og er afturköllun þeirra óheimil eftir tímamark það sem tiltekið er í reglum kerfisins.

5. gr.

    Uppgjörsaðili annast efndalok greiðslufyrirmæla í greiðslukerfi. Allar innstæður eða verðbréf á uppgjörsreikningum eða lántökuréttindi honum tengd er uppgjörsaðila heimilt að nota til uppgjörs skuldbindinga þátttakanda gagnvart greiðslukerfi á þeim degi sem gjaldþrotaskipti hefjast, sbr. þó 2. mgr. 4. gr.

III. KAFLI
Ákvæði er varða gjaldþrotaskipti.
6. gr.

    Hafi bú stofnunar verið tekið til gjaldþrotaskipta skal héraðsdómari tilkynna það þegar í stað til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, með símskeyti, símbréfi eða rafrænum hætti, enda sé unnt að staðreyna og staðfesta efni og móttöku tilkynningarinnar. Í úrskurði um gjaldþrot, svo og tilkynningu um hann, skal koma fram nákvæm tilgreining þeirrar stundar er úrskurður var kveðinn upp um gjaldþrotaskipti á búi stofnunar. Tilkynningu sem gerð er samkvæmt þessari grein skal Fjármálaeftirlitið senda þegar í stað til hlutaðeigandi yfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu sem aðildarríkin hafa tilgreint sem móttakanda slíkra tilkynninga.

7. gr.

    Um réttindi og skyldur þátttakanda í greiðslukerfi sem tekinn hefur verið til gjaldþrotaskipta skal fara eftir lögum þess ríkis sem gildir um hlutaðeigandi greiðslukerfi.

IV. KAFLI
Vernd veðréttinda gegn gjaldþrotaskiptum á búi veðþola.
8. gr.

    Gjaldþrotaskipti á búi þátttakanda eða milligönguaðila skulu á engan hátt skerða rétt annarra þátttakenda eða seðlabanka til veðtrygginga. Ávallt er heimilt að innleysa þegar í stað veðtryggingar samkvæmt þessari grein til fullnustu á kröfum annarra þátttakenda eða seðlabanka.

9. gr.

    Þegar veðtrygging er veitt í rafbréfum, eða erlendum verðbréfum sem eru rafrænt skráð á viðurkenndan hátt að lögum, skal um slíkar veðtryggingar að öllu leyti fara samkvæmt lögum þess ríkis þar sem rafræn skráning verðbréfanna fer fram.

V. KAFLI
Upplýsingagjöf vegna þátttöku í greiðslukerfi o.fl.
10. gr.

    Þátttakandi í greiðslukerfi skal upplýsa hvern þann sem þess óskar og hefur lögmætra hagsmuna að gæta um það í hvaða greiðslukerfi hann tekur þátt og um helstu reglur sem gilda um starfsemi hlutaðeigandi kerfis.

11. gr.

    Um samning óbeins þátttakanda um aðild að greiðslukerfi fer samkvæmt íslenskum lögum.


VI. KAFLI Gildistaka o.fl.
12. gr.

    Lög þessi eru sett í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/1999 og til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 26 19. maí 1998, um efndir og lok viðskipta í uppgjörskerfum fyrir verðbréf og greiðslur í fjármálaviðskiptum.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er að finna tillögur um að taka upp í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins og Evrópuþingsins nr. 26 19. maí 1998, um efndir og lok viðskipta í uppgjörskerfum fyrir verðbréf og greiðslur í fjármálaviðskiptum, sem felld var inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/1999.
    Hinn 19. mars 1999 skipaði viðskiptaráðherra nefnd til þess að „gera tillögur um með hvaða hætti eigi að lögleiða á Íslandi ákvæði tilskipunar 98/26/EB. Tilgangur tilskipunarinnar er að tryggja öryggi í uppgjöri viðskipta á fjármagnsmarkaðnum og eru þar að finna m.a. ákvæði um að ekki megi við ákveðnar kringumstæður beita riftunarreglum gjaldþrotalaga vegna uppgjörs viðskipta milli fjármálastofnana, sem ella kynni að vera heimilt ef ákvæða tilskipunarinnar, svo og laga settra samkvæmt þeim, nyti ekki við.“
    Í nefndina voru skipaðir: Tryggvi Axelsson, deildarstjóri í viðskiptaráðuneyti, formaður, Benedikt Bogason, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyti, Sigfús Gauti Þórðarson deildarstjóri, Seðlabanka Íslands, Einar Baldvin Stefánsson lögfræðingur, Verðbréfaskráningu Íslands hf., Gunnar Viðar, forstöðumaður lögfræðideildar Landsbanka Íslands hf.
    Tilgangur með frumvarpi þessu er að bregðast við kerfisbundinni áhættu sem bent var á í svonefndri „Lamfalussy“-skýrslu frá 1990 sem samin var fyrir seðlabankastjóra tíu helstu iðnríkja heims.
    Auk þess er markmið setningar reglna á þessu sviði að tryggja eins og unnt er skilvirk og örugg fjármálaviðskipti á hinum sameiginlega innri markaði í Evrópu sem Ísland á aðild að með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Öryggi í uppgjöri viðskipta milli fjármálastofnana og trygging þess með lögum, eins og hér er lagt til, eru talin stuðla að frjálsu fjármagnsflæði og frelsi til að veita fjármálaþjónustu á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í frumvarpinu er lagt til að í viðskiptum á fjármálamarkaði sem fram fara hér innan lands verði tryggt að uppgjöri viðskipta í greiðslukerfum sé í engu raskað þrátt fyrir að gjaldþrotameðferð sé hafin á hendur einum þátttakenda í viðskiptunum. Markmið frumvarpsins er því einnig að einangra uppgjör sem fram fer í greiðslukerfum fyrir fjármagnsmarkaðinn frá t.d. almennum riftunarákvæðum laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., fram að því að úrskurður um gjaldþrotaskipti er kveðinn upp. Samkvæmt áðurnefndri skýrslu Lamfalussy mun slíkt stuðla að auknu öryggi fjármálakerfisins og koma í veg fyrir neikvæð og keðjuverkandi áhrif á uppgjör viðskipta ef slík vernd væri ekki fyrir hendi að lögum.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að veðtryggingum, þ.m.t. innstæðum, sem fjármálastofnanir setja til tryggingar uppgjöri viðskipta og öruggum greiðslum í því sambandi, verði ekki unnt að rifta ef slíkir fjármunir eru notaðir til uppgjörs viðskipta áður en úrskurður um gjaldþrotaskipti er kveðinn upp. Sem fyrr segir er tilgangur þess einnig að tryggja öryggi í uppgjöri viðskipta hér á landi.
    Um þessar mundir eru sett sambærileg ákvæði í löggjöf allra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins en samkvæmt tilskipuninni ber að taka upp ákvæði hennar í innlendan rétt eigi síðar en 11. desember 1999. Frumvarpið er því liður í því að tryggja öryggi í uppgjöri viðskipta á fjármagnsmarkaði á öllum sameiginlegum innri markaði í Evrópu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er gildissvið frumvarpsins afmarkað en gert er ráð fyrir að ákvæði þess skuli gilda um þau greiðslukerfi sem starfrækt eru hér á landi og uppfylla skilyrði sem um slík kerfi gilda, sbr. 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins.
    Á undanförnum árum hafa málefni sem tengjast uppgjöri viðskipta á íslenskum fjármálamarkaði verið í brennidepli. Í desember 1997 samþykkti Alþingi lög nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Með setningu þeirra má segja að lagður hafi verið grundvöllur að pappírslausum verðbréfaviðskiptum á Íslandi. Gert er ráð fyrir að sú starfsemi hefjist síðari hluta ársins 1999. Í 1. mgr. 15. gr. þeirra laga segir: „Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá reikningsstofnunum sem aðild eiga að verðbréfamiðstöð og annast efndalok viðskipta þeirra með rafbréf.“ Við samningu þess frumvarps er síðar varð að lögum nr. 131/ 1997 kom til álita að fela verðbréfamiðstöð (sbr. nú Verðbréfaskráningu Íslands hf.) einnig það hlutverk að hafa með höndum endanlegt uppgjör á eignarskráningum sem þar fara fram og veita henni heimild til þess að stofna uppgjörsreikninga fyrir reikningsstofnanir í þessu skyni. Niðurstaðan varð hins vegar sú að fela Seðlabanka Íslands þetta, enda eitt af hlutverkum hans samkvæmt lögum að vera banki bankanna, og annarra lánastofnana, og því talið í bestu samræmi við ákvæði gildandi laga að þetta yrði áfram á hendi Seðlabanka Íslands. Endanlegt uppgjör greiðslufyrirmæla vegna viðskipta með rafbréf og „efndalok viðskipta“ mun því Seðlabanki Íslands annast samkvæmt áðurnefndri 15. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
    Í desember 1998 skilaði vinnuhópur af sér skýrslu til Seðlabanka Íslands, „Skipulag greiðslumiðlunar — tillögur sameiginlegs vinnuhóps Seðlabanka Íslands og Sambands íslenskra viðskiptabanka“. Í skýrslunni er að finna greinargott yfirlit um innlenda greiðslumiðlunarkerfið, svo og tillögur um framtíðartilhögun þess. Tillaga vinnuhópsins er að núverandi greiðslumiðlunarkerfi verði skipt í þrjá hluta. Í fyrsta lagi í stórgreiðslukerfi sem annist færslur á milli uppgjörsreikninga uppgjörsaðila í Seðlabankanum. Í öðru lagi í svonefnt smágreiðslukerfi, en þar er átt við þau kerfi greiðslumiðla sem tengjast m.a. rafrænum viðskiptum, svo sem heimildagjöf vegna debet- og kreditkorta, færsluskilum í lok dags og jöfnun milli þátttakenda. Í þriðja lagi gerir starfshópurinn tillögu um aðgreiningu svonefndra viðskiptalegra verkefna sem Reiknistofa bankanna og aðrir aðilar að greiðslumiðluninni (til að mynda VISA Ísland, Europay, Íslandspóstur o.fl.) reka og annast eingöngu fyrir þau fyrirtæki og eigendur þeirra. Tillögur starfshópsins hafa að undaförnu verið til umfjöllunar hjá öllum sem koma að uppgjöri á greiðslum hér á landi. Þess er að vænta að frekari skref verði stigin á næstunni í því skyni að endurskipuleggja greiðslukerfi og önnur kerfi sem hér eru starfrækt við greiðslujöfnun milli þátttakenda á fjármagnsmarkaði. Þrátt fyrir að endurskipulagningu á þessu sviði sé ekki að fullu lokið verður ekki séð að ákvæði þessa frumvarps rekist á þær hugmyndir sem þar er stefnt að, enda er markmið þess að veita greiðslufyrirmælum og greiðslujöfnun í greiðslukerfum vernd verði einhver þátttakenda gjaldþrota, en það snertir ekki tilhögun og skipulag uppgjörsmála hér á landi að öðru leyti.
    Í greininni er tekið fram að frumvarpið taki til greiðslukerfa sem tilnefnd eru skv. 3. gr. frumvarpsins. Sem dæmi um slík kerfi sem ráðherra, sbr. 3. gr., verður beðinn um að tilkynna til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) má nefna uppgjörskerfi Seðlabanka Íslands fyrir stórgreiðslur (stórgreiðslukerfið), jöfnunarkerfi Reiknistofu bankanna fyrir peningagreiðslur og jöfnunarkerfi vegna uppgjörs rafrænna eignarskráningar verðbréfa hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. Ákvæði frumvarpsins miða að því að vernda uppgjör sem fram fer á vegum fyrrgreindra aðila.
    Meginmarkmið frumvarpsins er eins og áður hefur komið fram að vernda afmarkaðan hluta fjármálakerfisins gegn því að unnt verði að beita riftunarreglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við uppgjörið sem þar hefur átt sér stað, enda hafi greiðslufyrirmæli verið komin til greiðslukerfisins áður en úrskurður um gjaldþrot var kveðinn upp, sbr. t.d. nánar ákvæði 4. gr. frumvarpsins. Það mun koma í veg fyrir að hugsanleg vanefnd eins þátttakanda í uppgjörinu hafi keðjuverkandi áhrif út í fjármálakerfið með því að hægt verði að ógilda uppgjör sem átt hefur sér stað í greiðslukerfi fyrir upphaf gjaldþrotaskipta þátttakandans og vanefnd er rakin til. Ákvæði frumvarpsins mun því auka stöðugleika og öryggi í viðskiptum á fjármagnsmarkaði.

Um 2. gr.

    Í greininni eru skilgreiningar á ýmsum mikilvægum aðilum, svo og öðrum atriðum er máli skipta varðandi greiðslukerfi og uppgjör viðskipta í fjármálaþjónustunni.
    Í tilskipun 98/26/EB er greiðslukerfi (á ensku system) skilgreint sem formlegt greiðslujöfnunar- eða stórgreiðslukerfi þriggja eða fleiri þátttakenda, sem byggist á sameiginlegum reglum og stöðluðu fyrirkomulagi við greiðslujöfnun og framkvæmd greiðslufyrirmæla milli þeirra, og fellur undir lög í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sem þátttakendur hafa valið sér, enda hafi a.m.k. einn þeirra aðalskrifstofu sína í því ríki. Enn fremur er áskilið að stjórnvöld þar telji að greiðslukerfið fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru og hafi tilkynnt það til framkvæmdastjórnar EB. Í 1. tölul. er hugtakið greiðslukerfi fellt að framangreindri skilgreiningu tilskipunar 98/26/EB. Greiðslukerfi er því samkvæmt ákvæðinu formlegt greiðslujöfnunar- eða stórgreiðslukerfi þriggja eða fleiri þátttakenda, sem byggist á sameiginlegum reglum og stöðluðu fyrirkomulagi við greiðslujöfnun og framkvæmd greiðslufyrirmæla, enda hafi að minnsta kosti einn þátttakendanna aðalskrifstofu sína hér á landi. Til þess að greiðslukerfi teljist falla undir skilgreiningu frumvarpsins er þess einnig krafist að það uppfylli þær kröfur sem Seðlabanki Íslands gerir til slíkra kerfa og hefur verið tilkynnt í samræmi við ákvæði 3. gr. frumvarpsins. Rétt er að geta þess að þegar vísað er til þess í ákvæðinu að greiðslukerfi skuli skilgreint sem formlegt kerfi þriggja eða fleiri þátttakenda er miðað við, eins og kemur reyndar fram í ákvæði a-liðar 2. gr. í tilskipun 98/26/EB, að þá skuli ekki telja með milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöð eða óbeina þátttakendur.
    Í 2. tölul. er hugtakið stofnun (á ensku institution) skilgreint. Samkvæmt skilgreiningunni tekur það til þeirra aðila sem taldir eru upp í a–e-lið töluliðarins. Í a-lið eru taldir upp viðskiptabankar eða sparisjóðir sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 113/1996. Í b-lið eru nefnd og felld undir þetta hugtak fyrirtæki sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Í c-lið er vikið að fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu samkvæmt lögum nr. 13/1996. Í d-lið er tekið fram að undir hugtakið geti einnig fallið deild eða deildir í stofnun sem nefnd er í a–c-lið sem teljast ekki sérstakar persónur að lögum en tilheyra erlendri stofnun sem hefur starfsleyfi hér á landi og hefur stofnað hér útibú. Um skilyrði þess að erlendar fjármálastofnanir megi starfa hér á landi fer eftir ákvæðum þeirra sérlaga sem um þær gilda, sbr. t.d. ákvæði laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. XI. kafla þeirra laga. Um nánari skýringar á heimild erlendra aðila til að starfa hér á landi vísast til ákvæða í viðeigandi sérlögum sem um starfsemina kunna að gilda. Miðað er við að þær stofnanir (eða deildir) sem falla undir ákvæði þessa töluliðar séu eftirlitsskyldar á grundvelli þeirra laga sem um þær gilda. Í e-lið er tekið fram að ákvæðið eigi við um Seðlabanka Íslands en í tilskipuninni er gert ráð fyrir að undir hugtakið stofnun geti fallið stjórnvöld (á ensku public authority), sbr. b-lið 2. gr. tilskipunar 98/26/EB. Þar eru einnig felldar undir þessa skilgreiningu stofnanir með ríkisábyrgð (á ensku publicly guaranteed undertakings). Nauðsynlegt þykir að taka þetta inn í frumvarpið einkum með tilliti til þess að erlendir aðilar af því tagi kunna að gerast aðilar að greiðslukerfum hér á landi. Ekki er vitað til þess að nokkur innlend stofnun með ríkisábyrgð sé nú starfrækt sem gæti fallið undir þennan lið skilgreiningar á stofnun.
    Í 3. tölul. er milligönguaðili (á ensku central counterparty) skilgreindur sem aðili sem hefur milligöngu fyrir stofnun í greiðslukerfi og hefur einkarétt á miðlun greiðslufyrirmæla viðkomandi stofnunar.
    Í 4. tölul. er uppgjörsaðili (á ensku settlement agent) skilgreindur sem aðili sem stofnar og sér um uppgjörsreikninga fyrir stofnanir og milligönguaðila, sér um reikningsuppgjör á greiðslufyrirmælum þeirra og veitir þeim eftir atvikum lán í þessu skyni.
    Í 5. tölul. er greiðslujöfnun (á ensku netting) talin sú aðgerð að umbreyta í eina kröfu eða skuldbindingu mörgum kröfum eða skuldbindingum sem eiga rót að rekja til greiðslufyrirmæla sem þátttakendur hafa annaðhvort gefið eða eiga að taka við frá einum eða fleiri þátttakendum svo að aðeins ein (nettó) krafa eða skuldbinding myndast um greiðslu eða greiðsluskyldu þátttakanda.
    Í 6. tölul. er skilgreining á hugtakinu uppgjörsreikningur (á ensku settlement account) . Það er reikningur í seðlabanka, hjá milligöngu- eða uppgjörsaðila sem varðveitir innstæður eða verðbréf til uppgjörs á greiðslum milli þátttakenda í greiðslukerfi.
    Í 7. tölul. er greiðslufyrirmæli (á ensku transfer order) skilgreint sem sérhver fyrirmæli þátttakenda um að leggja með reikningsfærslu tiltekna fjárhæð inn á reikning stofnunar, seðlabanka eða uppgjörsaðila, eða sérhver fyrirmæli sem skuldbinda hann eða leysa hann undan skyldu til að inna af hendi greiðslu eins og hún er nánar skilgreind í reglum greiðslukerfisins. Undir þessa skilgreiningu falla einnig fyrirmæli þátttakenda um að framselja bein eða óbein eignarréttindi í verðbréfum með rafrænni eignarskráningu og önnur sambærileg fyrirmæli.
    Í 8. tölul. er orðið greiðslujöfnunarstöð (á ensku clearing house) notað um þann aðila sem vinnur úr greiðslufyrirmælum sem berast frá stofnunum og ber ábyrgð á greiðslujöfnun þeirra á milli, einnig milligöngu- og uppgjörsaðila ef það á við.
    Í 9. tölul. er þátttakandi (á ensku participant) skilgreindur. Samkvæmt skilgreiningunni nær hugtakið yfir stofnun, milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöð eða uppgjörsaðila.
    Í 10. tölul. er óbeinn þátttakandi (á ensku indirect participant) skilgreindur sem lánastofnun sem fellur undir a- eða b-lið 2. tölul. um skilgreiningu á stofnun hér að framan og hefur gert samning við stofnun sem á aðild að greiðslukerfi þar sem greiðslujöfnun og greiðslufyrirmæli eru framkvæmd, sbr. skilgreiningu á því hugtaki, og gerir lánastofnuninni fært að senda greiðslufyrirmæli í gegnum greiðslukerfið.
    Í 11. tölul. er hugtakið veðtryggingar (á ensku colltateral security) skilgreint sem allar seljanlegar eignir, þ.m.t. peningainnstæður, verðbréf og samningar um endurhverf viðskipti eða aðrir sambærilegir samningar sem gerðir eru eða lagðir fram til tryggingar í greiðslukerfi eða lagðar fram í seðlabönkum.
    Í 12. tölul. er skilgreint hvað hugtakið seðlabanki merkir í frumvarpinu en með því er átt við seðlabanka í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Seðlabanka Evrópu.
    Í 13. tölul. er hugtakið stórgreiðslukerfi (á ensku large-value funds transfer system) en þar er átt við kerfi sem seðlabankar eða aðilar sem hafa til þess heimild starfrækja vegna mikilvægra og meiri háttar greiðslufyrirmæla fyrir eigin reikning eða reikning viðskiptamanna.
    Loks er í 14. tölul. skilgreining á hugtakinu greiðslujöfnunarkerfi en það er kerfi sem annast greiðslujöfnun.
    Þess má geta að í tilskipun EB er jafnframt að finna skilgreiningar á hugtökunum verðbréf (á ensku securities) og gjaldþrotaskipti (á ensku insolvency proceedings). Nefndin sem samdi frumvarpið var sammála um að óþarft væri að taka upp í ákvæði þess framangreindar skilgreiningar, enda er verðbréf skilgreint í 2. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og hugtakið gjaldþrotaskipti skýrt afmarkað í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Um 3. gr.

    Í tilskipun 98/26/EB, um efndir og lok viðskipta í uppgjörskerfum fyrir verðbréf og greiðslur í fjármálaviðskiptum, er kveðið á um að aðildarríki skuli tilkynna til framkvæmdastjórnar EB þau greiðslukerfi sem ákvæði tilskipunarinnar skulu taka til. Í samræmi við ákvæði í bókun I við EES-samninginn, um altæka aðlögun, svo og verkaskiptingu milli eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og sameiginlegu EES-nefndarinnar, ber EFTA-ríkjum, þar með töldu Íslandi, að senda tilkynningu til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um þau greiðslukerfi sem verða tilnefnd hér á landi í samræmi við ákvæði þessa frumvarps.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. 4. gr. kemur fram meginregla frumvarpsins um að öll greiðslufyrirmæli þátttakanda, svo og greiðslujöfnun, t.d. hjá verðbréfamiðstöð eða Reiknistofu bankanna, skuli að öllu leyti vera bindandi gagnvart þriðja manni jafnvel þótt bú þátttakandans sé tekið til gjaldþrotaskipta. Í reynd er því þátttakanda óheimilt að afturkalla t.d. greiðslufyrirmæli frá þeirri stundu sem þau teljast vera komin til greiðslukerfisins samkvæmt þeim reglum sem um það eru settar og skylt er að gera skv. 3. mgr. Tilhögun sú sem hér er mælt fyrir um mun auka verulega öryggi í greiðslukerfum fyrir fjármálaviðskipti og er reyndar í samræmi við tillögur í skýrslu Lamfalussy frá árinu 1990. Jafnframt er rétt að geta þess að hér er mælt fyrir um frávik frá ákvæðum í 20. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sem fyrr segir, að því er varðar greiðslukerfi sem falla undir gildissvið þess.
    Í 2. mgr. er kveðið svo á að sama gildi um öll greiðslufyrirmæli sem koma til greiðslukerfisins á sama degi en eftir nákvæmlega tilgreindan tíma á úrskurðardegi sem skylt er að taka fram í tilkynningu um uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti, sbr. ákvæði 6. gr. frumvarpsins. Til þess að svo geti orðið er hins vegar sett það skilyrði að greiðslukerfi verði að sanna að hvorki hafi verið vitað né mátt vita um upphaf gjaldþrotaskiptanna. Í dæmaskyni má nefna að úrskurður um gjaldþrot þátttakanda kann að vera uppkveðinn kl. 13.02 og það tímamark er tilgreint í tilkynningu sbr. 6. gr. Greiðslufyrirmæli kunna að berast þann sama dag til greiðslukerfisins kl. 15.22 og þeim framfylgt. Hafi greiðslukerfinu af einhverjum ástæðum ekki borist tilkynningin skv. 6. gr. fyrir kl. 15.22 og því tekist að sanna að það hafi af þeim sökum hvorki vitað né mátt vita um uppkvaðningu úrskurðarins er samkvæmt þessari grein ekki unnt að beita riftunarákvæðum laga um gjaldþrotaskipti við efndalok og uppgjör þeirra viðskipta sem greiðslufyrirmælin mæltu fyrir um.
    Í 3. mgr. er loks að finna ákvæði um að greiðslukerfum sé skylt að setja nánari reglur um það atriði hvenær greiðslufyrirmæli skuli talin vera „komin til“ uppgjörskerfisins. Að hluta til munu þær reglur vera tæknilegs eðlis en jafnframt þarf að setja viðmiðanir um hvenær slík fyrirmæli teljast vera komin til rafræns vinnslukerfis og um staðfestingu á móttöku þeirra sem unnt er að staðreyna eftir á samkvæmt nánari reglum greiðslukerfisins um þetta efni.

Um 5. gr.

    Uppgjörsaðilar hafa það hlutverk að ljúka greiðslum í samræmi við stöðu á uppgjörsreikningum og tryggja þannig efndalok í uppgjöri viðskipta á fjármagnsmarkaði. Ákvæðum frumvarpsins er ekki einungis ætlað að taka til greiðslufyrirmæla og greiðslujöfnunar heldur einnig veðtrygginga og annarra lántökuréttinda sem fyrir hendi eru og nota skal til uppgjörs á skuldbindingum þátttakenda gagnvart greiðslukerfinu. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar ber einnig að einangra slíkar veðtryggingar frá riftunarákvæðum laga um gjaldþrotaskipti og miða ákvæði þessarar greinar að því að veita slíka vernd.

Um 6. gr.

    Hafi bú þátttakanda verið tekið til gjaldþrotaskipta ber héraðsdómara að senda tilkynningu um uppkvaðningu úrskurðarins þegar í stað til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Í greininni er einnig tekið fram að við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrot stofnunar sem frumvarp þetta tekur til beri héraðsdómara að geta nákvæmlega þeirrar stundar (klst. og mín.) þegar úrskurður um gjaldþrot er kveðinn upp, enda kunna þær upplýsingar að skipta máli í tengslum við uppgjör sem fram fer í greiðslukerfi á viðskiptum þess aðila sem tekinn er til gjaldþrotaskipta, sbr. t.d. ákvæði 4. gr. frumvarpsins og athugasemdir við þá grein.
    Rétt er að geta þess að í 7. gr. tilskipunarinnar er að finna ákvæði sem miðar að því að hindra afturvirkni réttaráhrifa gjaldþrots. Í ýmsum ríkjum hefur sú tilhögun þekkst að réttaráhrif úrskurðar um gjaldþrotaskipti eru afturvirk og taka gildi frá og með miðnætti á þeim degi sem úrskurður var kveðinn upp (0 klst.-reglan). Hér á landi er ekki um að ræða að unnt væri að beita slíkri reglu, enda eru ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skýr að þessu leyti og miðast því réttaráhrif gjaldþrots ávallt við uppkvaðningu úrskurðarins. Óþarft er því að mæla sérstaklega fyrir um þetta atriði í frumvarpi þessu.


Um 7. gr.

    Hér er kveðið á um að um rétt og skyldur þátttakanda í greiðslukerfi, jafnvel þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, skuli fara eftir lögum þess ríkis sem gildir um viðkomandi greiðslukerfi. Þetta er gert í því skyni að ávallt liggi ljóst fyrir hvaða lögum skuli beitt við slíkar aðstæður. Rétt er að taka fram að með orðunum „í greiðslukerfi“ er vísað til skuldbindinga sem rekja má til aðildar þátttakanda í greiðslukerfi eða tengjast slíkri þátttöku hans á annan hátt, sbr. 8. gr. tilskipunar 98/26/EB.

Um 8. gr.

    Í tilskipun 98/26/EB er ekki einungis lagt til að greiðslufyrirmæli og greiðslujöfnun skuli njóta verndar ef til gjaldþrotaskipta kemur hjá þátttakanda, sbr. ákvæði 4. gr. frumvarpsins, heldur skuli slík vernd einnig taka til veðtrygginga sem hann kann að hafa sett til tryggingar uppgjöri og efndalokum slíkra greiðslufyrirmæla. Ákvæði þessarar greinar miða að því að taka upp í íslenskan rétt framangreind ákvæði tilskipunarinnar að því er varðar veðtryggingar. Samkvæmt greininni er veðhöfum jafnframt heimilt að ganga að þeim veðtryggingum sem hún tekur til án þess að um þá innlausn og málsmeðferð fari eftir ákvæðum sem gilda um gjaldþrotaskipti.

Um 9. gr.

    Í greininni er að finna reglu sem mælir fyrir um hvaða lögum skuli beitt að því er varðar rafrænt eignarskráð verðbréf. Lagt er til að um þau skuli að öllu leyti fara eftir ákvæðum laga sem gilda um skráningu þeirra. Af þessari reglu leiðir að um slík rafbréf, og óbein eignarréttindi þeim tengd, fer að öllu leyti eftir ákvæðum laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, ef um er að ræða réttindi sem skráð eru hér á landi. Framangreind regla er í samræmi við óskráðar reglur lagaskilaréttarins. Vert er að taka sérstaklega fram að ekki er litið svo á að gagnálykta eigi frá þessu ákvæði og álykta sem svo að hún breyti öðrum óskráðum reglum lagaskilaréttar um viðskipti með verðbréf. Framangreind regla er sem fyrr segir í samræmi við reglur lagaskilaréttar og þeim reglum verður beitt, hér eftir sem hingað til, um almenn viðskipti með verðbréf, ef á reynir.

Um 10. gr.

    Í greininni er að finna ákvæði sem mælir fyrir um rétt þess þátttakanda sem lögvarða hagsmuni kann að hafa af því að fá upplýst um hvaða greiðslukerfi fyrirmæli hans fara. Jafnframt að hann eigi rétt til þess að fá allar þær helstu reglur sem gilda um starfsemi hlutaðeigandi kerfis. Rétt þykir að mæla sérstaklega fyrir um þennan rétt þátttakanda, enda mikilvægt fyrir öryggi markaðarins að unnt sé fara fram á slíkar upplýsinga ef þörf er talin vera á því.

Um 11. gr.

    Í greininni er að finna reglu sem mælir fyrir um hvaða lög skuli gilda að því er varðar óbeina þátttakendur sem kunna að gera samning við lánastofnanir sem aðild eiga að greiðslukerfi sem starfar hér á landi, og sem gerir þeim fært að senda greiðslufyrirmæli í gegnum kerfið. Í 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 98/26/EB er tekið fram að greiðslukerfum beri skylda til að tilgreina lög þess ríkis sem eiga við um óbeina þátttakendur í þeim. Regla þessarar greinar er talin vera í samræmi við meginreglu íslensks lagaskilaréttar.

Um 12. gr.

    Í 11. gr. tilskipunar 98/26/EB er ákvæði um að aðildarríkjum beri skylda til að hafa í lögum þeim sem sett eru til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar tilvísun til þeirrar tilskipunar sem verið er að lögleiða hverju sinni. Í ákvæðinu er að finna tilvísun í samræmi við framangreint ákvæði tilskipunarinnar og þarfnast það ekki frekari skýringa.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um öryggi greiðslufyrirmæla
og greiðslujöfnunar í greiðslukerfum.

    Tilgangur frumvarpsins er að tryggja öryggi í uppgjöri viðskipta á fjármagnsmarkaðnum og er þar meðal annars að finna ákvæði um að ekki megi við ákveðnar kringumstæður beita riftunarreglum gjaldþrotalaga vegna uppgjörs viðskipta milli fjármálastofnana.
    Markmið frumvarpsins er því að einangra uppgjör sem fram fer í greiðslukerfum fyrir fjámagnsmarkaðinn frá t.d. almennum riftunarákvæðum laga nr. 21/1991, fram að því að úrskurður um gjaldþrotaskipti er kveðinn upp.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.