Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 25  —  25. mál.
Frumvarp til lagaum innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)I. KAFLI
Markmið og skipulag.
1. gr.
Markmið.

    Markmið með lögum þessum er að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis í samræmi við ákvæði laga þessara.

2. gr.
Stofnun.

    Með tryggingar samkvæmt lögum þessum fer sérstök stofnun er nefnist Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, hér eftir nefndur sjóðurinn. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og starfar í tveimur sjálfstæðum deildum með aðskilinn fjárhag og reikningshald, innstæðudeild og verðbréfadeild, sbr. þó ákvæði 12. gr.

3. gr.
Aðilar að sjóðnum.

    Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem hafa staðfestu hér á landi, skulu eiga aðild að sjóðnum. Hið sama gildir um útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi fyrirtæki, hér eftir nefnd aðildarfyrirtæki, bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans umfram lögbundin framlög til sjóðsins, sbr. ákvæði 6. og 7. gr. Fjármálaeftirlitið skal halda sérstaka skrá um aðildarfyrirtæki.

4. gr.
Stjórn og framkvæmdastjóri.

    Stjórn sjóðsins skal skipuð sex mönnum til tveggja ára í senn. Viðskiptabankar tilnefna tvo menn í stjórn sjóðsins, sparisjóðir einn mann, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf sameiginlega einn mann og viðskiptaráðherra tvo menn. Viðskiptaráðherra skipar formann stjórnar. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt.
    Stjórn sjóðsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra við sjóðinn eða semja við lögaðila um rekstur og vörslu hans. Lögaðilinn getur verið Seðlabanki Íslands og vörslufyrirtæki samkvæmt lögum um verðbréfasjóði.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Þeir skulu hafa óflekkað mannorð og mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.
    Stjórnarmenn og starfsmenn sjóðsins eru bundnir þagnarskyldu í samræmi við ákvæði laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Nánar skal kveðið á um verkefni stjórnar sjóðsins í samþykktum hans.

5. gr.
Aðalfundur.

    Aðalfund skal halda fyrir lok mars ár hvert. Á aðalfundi skal leggja fram endurskoðaðan ársreikning og ársskýrslu stjórnar. Aðalfundur setur sjóðnum samþykktir. Kveða skal nánar á um verkefni aðalfunda í samþykktum sjóðsins sem háðar skulu samþykki ráðherra að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.
    Sérhvert aðildarfyrirtæki á rétt til setu á aðalfundi. Á aðalfundi fara viðskiptabankar samtals með sex atkvæði, sparisjóðir með þrjú atkvæði og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf með þrjú atkvæði. Vægi hvers aðildarfyrirtækis er jafnt innan hvers hóps. Tillaga til breytinga á samþykktum sjóðsins þarf fulltingi 2/ 3hluta atkvæða á aðalfundi og samþykki ráðherra.
    Stjórn sjóðsins getur, þegar hún telur tilefni til, boðað öll aðildarfyrirtæki til fundar. Skylt er henni að boða til fundar ef aðildarfyrirtæki með samtals fjórðung atkvæða æskja þess.

II. KAFLI
Greiðslur í sjóðinn.
6. gr.
Innstæðudeild.

    Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Nái heildareign ekki lágmarki skv. 1. málsl. skulu allir viðskiptabankar og sparisjóðir greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári, sbr. þó viðmunarmörk skv. 1. málsl. Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki skal hver viðskiptabanki og sparisjóður leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu fyrir sama hlutfalli þeirrar fjárhæðar er vantar á lágmarkið og nemur hlutfalli tryggðra innstæðna hlutaðeigandi af samanlögðum tryggðum innstæðum.
    Nýr viðskiptabanki eða sparisjóður skal greiða sérstaklega til sjóðsins 1. mars ár hvert frá því að hann hefur starfsemi hér á landi 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári þar til lágmarki skv. 1. mgr. er náð. Auk þess leggur hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður fram ábyrgðaryfirlýsingu er stjórn sjóðsins metur gilda fyrir mismun á greiðslu til sjóðsins og lágmarki skv. 1. málsl. 1. mgr.
    Greiðslur til deildarinnar eru óendurkræfar.

7. gr.
Verðbréfadeild.

    Heildareign verðbréfadeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 100 millj. kr. Viðskiptaráðherra getur að fenginni tillögu stjórnar sjóðsins samþykkt að auka eignir deildarinnar. Stjórn sjóðsins skal á tveggja ára fresti gera ráðherra grein fyrir afstöðu sinni til hækkunar á eignum deildarinnar, í fyrsta sinn fyrir 1. janúar 2002.
    Nái heildareign sjóðsins ekki lágmarki skv. 1. mgr. skulu aðildarfyrirtæki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur samtals 20 millj. kr., þar til sjóðurinn hefur náð tilskilinni lágmarksstærð. Gjaldið sem hvert aðildarfyrirtæki greiðir skal miðast við hlut þess í samanlögðum fjölda stöðugilda í aðildarfyrirtækjum í tengslum við viðskipti með verðbréf í lok næstliðins árs og við hlut þess í samanlögðum fjölda viðskiptareikninga hjá aðildarfyrirtækjum í lok næstliðins árs í tengslum við viðskipti með verðbréf í þeim hlutföllum sem kveðið er á um í reglugerð. Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki skal hvert aðildarfyrirtæki leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu fyrir þeim hlut sem upp á vantar samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er stjórn sjóðsins heimilt að kaupa vátryggingu hjá viðurkenndu vátryggingarfélagi á Evrópska efnahagssvæðinu til að tryggja sig gegn tjóni. Kaupi sjóðurinn vátryggingu skal þó í það minnsta fjórðungur af lágmarksstærð deildarinnar skv. 1. mgr. vera í verðbréfum eða reiðufé.
    Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveða nánar á um greiðslu aðildarfyrirtækja í verðbréfadeild og jafnframt skal í reglugerðinni kveðið á um aðkomu nýrra aðildarfyrirtækja að verðbréfadeildinni og greiðslur þeirra til deildarinnar.
    Greiðslur til deildarinnar eru óendurkræfar.

8. gr.
Afturköllun leyfis.

    Nú uppfyllir aðildarfyrirtæki ekki skyldur sínar gagnvart sjóðnum samkvæmt lögum þessum og reglugerð og skal þá stjórn hans tilkynna það ráðherra og Fjármálaeftirlitinu án tafar. Ráðherra skal veita hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki allt að sex mánaða frest til úrbóta að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. Séu ríkar ástæður að mati ráðherra er honum heimilt að framlengja frestinn um allt að sex mánuði til viðbótar.
    Nú rennur frestur skv. 1. mgr. út án þess að hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki hafi uppfyllt skyldur sínar gagnvart sjóðnum og getur ráðherra þá afturkallað starfsleyfi þess að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. Skuldbindingar, sem stofnað er til áður en frestur skv. 1. mgr. rennur út, skulu njóta tryggingaverndar í samræmi við ákvæði III. kafla.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga einnig við um útibú erlendra viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu sem aðild eiga að sjóðnum. Nú rennur frestur skv. 1. mgr. út þegar um er að ræða útibú aðildarfyrirtækis með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og skal þá Fjármálaeftirlitið banna starfsemi þess hér á landi. Þegar um er að ræða aðildarfyrirtæki með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal ráðherra afturkalla starfsleyfi þess að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins.

III. KAFLI
Greiðslur úr sjóðnum.
9. gr.
Greiðslur úr sjóðnum.

    Nú er aðildarfyrirtæki að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gilda. Er þá sjóðnum skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild. Greiðsluskylda sjóðsins verður einnig virk ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við lög um viðskiptabanka og sparisjóði og lög um verðbréfaviðskipti.
    Álit Fjármálaeftirlitsins skal liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum eftir að það fær fyrst staðfestingu á því að hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki hafi ekki greitt viðskiptavini sínum eða staðið skil á verðbréfum eins og því bar að gera.
    Með innstæðu skv. 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.
    Með verðbréfum skv. 1. mgr. er átt við verðbréf sem eru í vörslu, umsjón eða umsýslu aðildarfyrirtækis og því ber að endurgreiða eða standa skil á samkvæmt skilmálum er gilda um samskipti aðildarfyrirtækis og fjárfestis samkvæmt lögum eða samningum.
    Með reiðufé skv. 1. mgr. er átt við innborgað reiðufé fjárfestis til aðildarfyrirtækis í tengslum við viðskipti með verðbréf.
    Undanskilin tryggingu skv. 1. mgr. eru innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður- og dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning og innstæður, verðbréf og reiðufé sem tengist málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti.
    Nánar skal kveða á um tilhögun greiðslna úr sjóðnum í reglugerð.

10. gr.
Fjárhæð til greiðslu.

    Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.
    Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.
    Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi.

11. gr.
Lán á milli deilda.

    Stjórn sjóðsins er heimilt að lána allt að 50 millj. kr. á milli innstæðudeildar og verðbréfadeildar. Lánið skal endurgreiðast innan 36 mánaða. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um lán á milli deilda í reglugerð.

12. gr.
Víkjandi lán.

    Sjóðnum er heimilt að veita aðildarfyrirtæki víkjandi lán í sérstakri deild fyrir slík lán, í því skyni að efla eiginfjárstöðu þess, enda verði fjár til þess aflað sérstaklega með lántöku. Stjórn sjóðsins getur sett skilyrði fyrir lánveitingu, svo sem að lántaki afli aukins eiginfjár eða geri aðrar ráðstafanir til að styrkja rekstur sinn.
    Stjórn sjóðsins er heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag aðildarfyrirtækja sem veitt er víkjandi lán. Stjórn sjóðsins getur í þessu sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki.

IV. KAFLI
Erlend útibú.
13. gr.

    Útibúum erlendra viðskiptabanka, sparisjóða, fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða, sem starfa hér á landi en hafa staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, er heimil aðild að sjóðnum vegna innstæðna, verðbréfa og reiðufjár sem ekki er tryggt á sambærilegan hátt á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Erlend útibú skv. 1. mgr. sem hafa staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins og starfa hér á landi skulu vera aðilar að sjóðnum, enda sé slíkt útibú ekki aðili að sambærilegu tryggingakerfi í heimaríki sínu.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um aðild erlendra útibúa samkvæmt þessari grein að sjóðnum, svo og um þær viðbótartryggingar sem útibú þurfa til þess að geta starfað hér á landi. Um iðgjöld og greiðslur vegna trygginga samkvæmt þessari grein skal nánar kveðið á í reglugerð.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
14. gr.
Ársreikningur og endurskoðun.

    Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Löggiltur endurskoðandi sjóðsins skal kosinn á aðalfundi. Endurskoðaður ársreikningur skal samþykktur og áritaður af stjórn hans og staðfestur af ráðherra.

15. gr.
Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög þessi, reglugerð og samþykktir fyrir sjóðinn. Um eftirlitið gilda að öðru leyti lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

16. gr.
Skriflegar upplýsingar til reiðu.

    Aðildarfyrirtæki skulu á afgreiðslustöðum sínum hafa til reiðu skriflegar upplýsingar um aðild sína að sjóðnum, umfang tryggingar, hvaða eignir eru ekki tryggðar og hvert kröfuhafi geti snúið sér neiti aðildarfyrirtæki kröfuhafa um greiðslu. Skulu upplýsingar vera á íslensku og ávallt til reiðu þannig að auðvelt sé að nálgast þær.
    Auglýsingar aðildarfyrirtækja um aðild að sjóðnum skulu takmarkaðar við beina tilvísun til hlutaðeigandi deildar hans.

17. gr.
Undanþága frá skatti og gjaldþrotalögum.

    Sjóðurinn er undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Sjóðurinn verður hvorki tekinn til gjaldþrotaskipta né er heimilt að gera aðför í eignum hans.

18. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins, m.a. um tilhögun á greiðslum úr sjóðnum, tryggingu á innstæðu, verðbréfum eða reiðufé þegar um sameiginlegan reikning er að ræða eða þegar viðskiptavinur aðildarfyrirtækis á ekki ótvíræðan rétt til innstæðu, verðbréfa og reiðufjár og um ávöxtun á eignum sjóðsins.

VI. KAFLI
Öryggissjóðir.
19. gr.

    Viðskiptabönkum annars vegar og sparisjóðum hins vegar, með staðfestu hér á landi, er heimilt að stofna sjálfseignarstofnanir, öryggissjóði, sem allir viðskiptabankar eða allir sparisjóðir skulu vera aðilar að í því skyni að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka eða sparisjóða.
    Til að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og í því skyni fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka eða sparisjóðs getur öryggissjóður veitt lán eða yfirtekið vissar eignir, gengið í ábyrgðir, bætt sérstakt tap og kostnað sem viðskiptabanki eða sparisjóður verður fyrir og veitt viðskiptabönkum eða sparisjóðum stuðning að öðru leyti á hvern þann hátt sem stjórnir sjóðanna ákveða í samræmi við ákvæði laga þessara og samþykkta sjóðsins. Í þessu skyni er öryggissjóði heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag viðskiptabanka eða sparisjóðs. Í samþykktum skal setja nánari reglur um starfsemina, svo og um tekjur og lánveitingar.
    Öryggissjóði er enn fremur heimilt að veita viðskiptabanka eða sparisjóði víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans. Stjórn sjóðsins getur sett skilyrði fyrir veitingu víkjandi láns. Henni er heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag viðskiptabanka eða sparisjóðs sem veitt er víkjandi lán. Getur stjórnin í því sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði.
    Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum öryggissjóðs. Sérhver aðili að sjóðnum fer á aðalfundi með atkvæðisrétt í samræmi við hlut sinn í heildareignum viðskiptabanka eða sparisjóða. Stjórn sjóðsins fer með málefni hans á milli aðal- og aukafunda. Hún skal skipuð fimm mönnum og skulu fjórir stjórnarmenn og jafnmargir til vara kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn, hlutbundinni kosningu ef óskað er. Ráðherra tilnefnir einn mann og skal hann tilnefndur til þriggja ára í senn. Nánar skal kveðið á um skipan og verkefni stjórnar í samþykktum.
    Stjórnarmenn og starfsmenn öryggissjóða eru bundnir þagnarskyldu í samræmi við ákvæði laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Öryggissjóður er undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Sjóðurinn verður hvorki tekinn til gjaldþrotaskipta né er heimilt að gera aðför í eignum hans.
    Aðalfundur setur öryggissjóði samþykktir sem háðar skulu staðfestingu ráðherra að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi öryggissjóða. Um eftirlitið gilda að öðru leyti lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

VII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
20. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000. Sjóðurinn yfirtekur þá eignir og skuldir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og innstæðudeildar Tryggingarsjóðs sparisjóða sem lagðir verða niður frá sama tíma.
    Halda skal stofnfund fyrir 31. desember 1999 þar sem settar eru samþykktir fyrir sjóðinn, sbr. 5. gr. Ákvæði þessarar málsgreinar tekur þegar gildi.
    Með lögum þessum falla úr gildi ákvæði X. kafla (75.–81. gr.) laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

21. gr.

    Lög þessi eru sett í samræmi við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/1994 og nr. 12/1998 og til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins nr. 19 frá 1994 um innstæðutryggingar og nr. 9 frá 1997 um tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 97/9/EC. Tilskipunin kveður á um samræmdar reglur um lágmarksvernd fyrir fjárfesta sem eiga kröfu á hendur fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir í tengslum við viðskipti með verðbréf gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis.
    Tilskipunin kemur í framhaldi af tilskipun um innstæðutryggingar, nr. 94/19/EC, sem sett var árið 1994. Sú tilskipun tryggir innstæðueigendur upp að vissu marki gegn greiðsluerfiðleikum viðskiptabanka og sparisjóða. Lögum um viðskiptabanka og sparisjóði var breytt árið 1996 (lög nr. 113/1996), m.a. til að uppfylla ákvæði innstæðutryggingatilskipunarinnar. Nú starfa tveir tryggingarsjóðir, Tryggingarsjóður viðskiptabanka og Tryggingarsjóður sparisjóða, sem tryggja innstæðueigendur gegn greiðsluerfiðleikum og starfa samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Sjóðunum er heimilt að starfa í tveimur deildum, innstæðudeild, sem tryggir innstæður, og lánadeild sem getur veitt lán í því skyni að styðja við rekstur innlánsstofnunar. Tryggingarsjóður sparisjóða hefur nýtt sér þessar heimildir og starfar í tveimur deildum en ekki Tryggingarsjóður viðskiptabanka.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að Tryggingarsjóður viðskiptabanka, innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða og nýtt tryggingakerfi fyrir fjárfesta renni saman í einn sjóð, Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Með því yrði til einn heildstæður tryggingarsjóður sem verndaði innstæðueigendur og viðskiptavini lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu gegn greiðsluerfiðleikum þessara fyrirtækja. Helstu rök að baki slíkum samruna eru að bankastarfsemi og verðbréfastarfsemi er orðin mjög samofin. Þá er hagstætt út frá tryggingarfræðilegu sjónarmiði að stækka sjóðinn og dreifa áhættu auk þess sem rekstrarkostnaður yrði minni. Flókið samspil tveggja eða fleiri kerfa er heldur ekki fýsilegt frá sjónarmiði neytendaverndar.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný lög verði sett um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta í stað kafla í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði um tryggingarsjóði innlánsstofnana. Þetta er gert þar sem fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir eru einnig aðilar að sjóðnum. Þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að innstæðutryggingum eru hins vegar byggð á núgildandi ákvæðum í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Frumvarpið er að nokkru byggt á dönskum lögum en Danir hafa nú nýlega samþykkt lög sem byggjast á svipaðri hugmynd og hér er lögð til (Lov om en garantifond for indskydere og investorer, nr. 415 af 26/06/1998).
    Frumvarpið er samið af nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði 6. ágúst 1998 til að semja frumvarp sem uppfyllti tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Nefndin skyldi stefna að því að sameina innstæðutryggingarsjóði og tryggingarkerfið fyrir fjárfesta í einn tryggingarsjóð. Í nefndinni voru: Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneyti, formaður, Finnur Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra viðskiptabanka, Gunnar Helgi Hálfdánarson, forstjóri Landsbréfa, Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Sigurður Hafstein, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, og Sveinbjörn Hafliðason, aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands.
     Helstu efnisatriði frumvarpsins eru þessi:
          Nýr tryggingarsjóður, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, verður til með sameiningu Tryggingarsjóðs viðskiptabanka, innstæðudeildar Tryggingarsjóðs sparisjóða og nýs tryggingakerfis fyrir fjárfesta.
          Sjóðurinn verður sjálfseignarstofnun með sex manna stjórn og starfar í tveimur sjálfstæðum deildum, innstæðudeild og verðbréfadeild. Heimilt er að lána fé á milli deildanna að vissu marki.
          Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal ávallt nema a.m.k. 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum. Eignir verðbréfadeildar skulu vera a.m.k. 100 millj. kr.
          Viðskiptavinur aðildarfyrirtækis getur krafið sjóðinn um greiðslu innstæðu, verðbréfa og reiðufjár sem hann hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu á í samræmi við þá skilmála er gilda og aðildarfyrirtækið er að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna tafarlaust af hendi eða í nánustu framtíð vegna greiðsluerfiðleika eða ef það hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.
          Ef eignir sjóðsins hrökkva ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár skal greiðslu úr sjóðnum skipt þannig milli kröfuhafa að heildarkrafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. verði bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Sjóðnum er heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum hrökkvi eignir sjóðsins ekki til.
          Lagt er til að viðskiptabönkum og sparisjóðum verði heimilt að stofna sjálfseignarstofnanir, öryggissjóði, sem allir viðskiptabankar eða allir sparisjóðir skulu vera aðilar að í því skyni að tryggja fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka og sparisjóða. Nú er starfandi lánadeild Tryggingarsjóðs sparisjóða sem hefur sambærilegar heimildir.

Helstu ákvæði tilskipunar um tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    Markmiðið með tilskipuninni er að koma á samræmdum reglum um lágmarksvernd fyrir fjárfesta sem eiga kröfu á hendur fyrirtæki sem hefur starfsleyfi samkvæmt tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, nr. 93/22/EC, eða hefur heimild til að veita þjónustu í tengslum við viðskipti með verðbréf. Hér er átt við fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir.
    Hafi fyrirtæki ekki fjárhagslegt bolmagn til að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart fjárfestum og verði að mati lögbærra yfirvalda ekki fært um að uppfylla þær í náinni framtíð fær hver fjárfestir bætur sem svara að lágmarki til 20.000 evrum sem jafngildir tæplega 1,6 millj. kr., ef krafa á hendur verðbréfafyrirtæki nær þeirri upphæð. Heimilt er að ákveða að bætur takmarkist við ákveðið hlutfall af kröfu en þó verður að bæta minnst 90% af kröfum lægri en 20.000 evrur. Jafnframt er heimilt að ákveða að vissir fjárfestar skuli útilokaðir frá tryggingakerfinu eða að trygging þeirra skuli vera lægri. Hér er t.d. átt við hið opinbera og fagfjárfesta.
    Tilskipunin er keimlík tilskipun um innstæðutryggingar og markmiðið hið sama. Í tilskipuninni um tryggingakerfi fyrir fjárfesta er kveðið á um að lánastofnanir, sem hafa heimild til að veita verðbréfaþjónustu, falli undir tilskipunina. Þó er ekki nauðsynlegt að slík lánastofnun falli undir bæði kerfin ef annað uppfyllir bæði skilyrði innstæðutryggingartilskipunarinnar og tilskipunar um tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    Tilskipunin veitir einungis vernd fyrir verðbréfafyrirtæki og lánastofnanir sem hafa heimildir til viðskipta með verðbréf samkvæmt tilskipun um verðbréfaþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Það þýðir að eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum eru ekki tryggðir. Hins vegar eru hlutdeildarskírteinin tryggð ef þau eru hluti af verðbréfasafni fjárfestis í fjárvörslu hjá verðbréfafyrirtæki.
    Ekki er kveðið á um það í tilskipuninni hvernig tryggingakerfi fyrir fjárfesta skuli fjármagnað. Þó er sagt að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu verði að jafnaði sjálf að bera kostnaðinn við fjármögnun kerfanna og að fjárhagsleg geta kerfanna verði að vera í samræmi við hugsanlegar kröfur. Kerfin mega samt ekki stefna stöðugleika fjármálakerfis viðkomandi aðildarríkis í hættu.

Tryggingakerfi fyrir fjárfesta í Evrópu.
    
Tvö lönd innan Evrópusambandsins, Bretland og Belgía, hafa lengi rekið tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Utan Evrópusambandsins hefur Noregur tryggingarskyldu sem svipar um margt til þeirrar starfsábyrgðartryggingar sem fyrirtæki í verðbréfaþjónustu hér á landi hafa. Önnur ríki hafa verið að koma á fót kerfi, eða eru að því um þessar mundir, sem uppfyllir ákvæði tilskipunar ESB. Danir hafa til að mynda stofnað nýjan sjóð sem byggist á sömu hugmynd og þetta frumvarp. Svíar gera einnig ráð fyrir nánum tengslum innstæðutryggingakerfisins og tryggingakerfis fyrir fjárfesta.

Bretland.
    Bretar hafa rekið tryggingakerfi frá árinu 1988. Kerfið er rekið af sérstakri stofnun, Investors Compensation Scheme (ICS), sem hefur um eitt hundrað starfsmenn. Meginhlutverk ICS er að vernda fjárfesta gegn greiðsluerfiðleikum verðbréfafyrirtækja líkt og tilskipun ESB. Kerfið veitir þó mun víðtækari tryggingarvernd en tilskipunin. Til dæmis verndar það fjárfesta fyrir slæmri ráðgjöf verðbréfafyrirtækja og lágmarksvernd er mun hærri.
    ICS tryggir fyrstu 3,4 millj. kr. hvers einstaklings og 90% af næstu 2,3 millj. kr. Hámarksvernd hvers einstaklings er því 5,7 millj. kr. á þeim tíma sem frumvarpið er lagt fram. Kerfið er fjármagnað með gjaldi á öll verðbréfafyrirtæki en þau eru um 1.800.
    Kröfum á verðbréfafyrirtæki hefur fjölgað frá því að ICS tók til starfa fyrir áratug. ICS hefur að jafnaði greitt út um 2 milljarða kr. á síðustu árum. Einungis um tíundi hluti þeirra greiðslna er vegna atvika sem gerðu vernd samkvæmt tilskipun ESB virka.

Belgía.
    
Í Belgíu hafa verðbréfafyrirtæki verið skylduð til að greiða í tryggingarsjóð frá árinu 1990. Tryggingin nær til allra fjárfesta, hvort heldur einstaklinga eða stofnanafjárfesta. Hæstu bætur fyrir hvern fjárfesti eru um 5 millj. kr. Hámarksbætur sem kerfið greiðir út á hverju ári eru 500 millj. kr.
    Belgar munu þurfa að gera nokkrar breytingar á kerfinu til að uppfylla skilyrði tilskipunarinnar, m.a. að afnema hámark þess sem kerfið greiðir út á hverju ári.

Noregur.
    
Frá 1985 hefur verið í gildi reglugerð í Noregi um vernd viðskiptavina verðbréfafyrirtækja sem hefur stoð í lögum um verðbréfaviðskipti. Verðbréfafyrirtæki skulu leggja fram vátryggingu eða bankaábyrgð til að vernda viðskiptavini gegn tjóni sem verðbréfafyrirtækið veldur þeim með starfsemi sinni. Lágmarkstryggingavernd fyrir hvern fjárfesti er um 2 millj. ísl. kr. fyrir hvert tjónsatvik. Verðbréfafyrirtækjum er þó heimilt að setja hámark á vátryggingu sem þau afla sér. Það hámark má þó ekki vera lægra en 250 millj. ísl. kr. Það er nú til athugunar hvort þetta kerfi stenst gagnvart tilskipun ESB.
    Vátryggingin tekur ekki einungis til greiðsluþrots verðbréfafyrirtækis heldur einnig þess að það valdi fjárfesti skaðabótaskyldu tjóni. Viðskiptavinir sem eiga kröfu á hendur þrotabúi fyrirtækis vegna fjárfestingarþjónustu eru ekki almennir kröfuhafar í þrotabú heldur sértökumenn þar eð skylt er að halda eignum viðskiptamanna tryggilega aðgreindum frá öðrum eignum.

Danmörk.
    
Danir hafa ekki haft tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Lög um tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta voru sett í júní 1998. Gert er ráð fyrir að breikka grundvöll tryggingarsjóðs innlánsstofnana þannig að hann taki einnig á greiðslufalli verðbréfafyrirtækja. Samkvæmt frumvarpinu eru innstæðueigendur og viðskiptavinir verðbréfafyrirtækja tryggðir að 3 millj. ísl. kr. að hámarki vegna innstæðna og fjárfestingarþjónustu. Sjóðurinn skiptist í þrennt: innlánsstofnanadeild, verðbréfafyrirtækjadeild og húsnæðisbréfadeild. Heimilt er að lána á milli deilda upp að vissu marki reynist innstæða í sjóðsdeild ekki nægileg til að bæta tjón.
    Í athugasemdum við danska frumvarpið kemur fram að þar eð svo margt sé líkt með innstæðutryggingarsjóðnum og ákvæðum tilskipunarinnar um nýtt kerfi sé eðlilegt að hafa sjóðinn aðeins einn. Það muni líka leiða til minni áhættu því að hún dreifist á fleiri aðila. Þá sé líklegt að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja viti betur um rétt sinn ef einn sjóður tryggir bæði innstæðueigendur og fjárfesta en ef tegund fjármálaþjónustu ræður fjölda sjóða.
    Danir huguðu einnig að öðrum möguleikum. Það var mat vinnuhóps sem vann að gerð tillagna um tilskipunina að trygging eða ábyrgð tryggði ekki fullnægjandi vernd. Einnig taldi vinnuhópurinn að sérstakur sjóður fyrir verðbréfafyrirtæki þyrfti að vera mun stærri en ef einn sjóður tæki sameiginlega á málum innlánsstofnana og verðbréfafyrirtækja.

Svíþjóð.
    
Í nýsamþykktum lögum um þetta efni kemur fram að stofnaður verði sérstakur tryggingarsjóður fyrir verðbréfafyrirtæki, en hann verði í nánum tengslum við innstæðutryggingarsjóðinn og sama stjórn verði yfir báðum sjóðunum. Bætur greiðast að hámarki 2,5 millj. ísl. kr. á hvern fjárfesti. Ekki er gert ráð fyrir neinni sjálfsáhættu viðskiptavinarins. Fjármálafyrirtæki, hið opinbera og stofnanafjárfestar njóta ekki tryggingarverndar. Í fyrstu hugmyndum Svía um stærð sjóðsins var miðað við að safna þyrfti um 3 milljörðum ísl. kr. í sjóð til að standa skil á þeim kröfum sem kunna að falla á sjóðinn vegna þrots verðbréfafyrirtækja.

Bætur til innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi.
    
Alþingi hefur sett ákvæði í þrenn lög um bætur til innstæðueigenda og fjárfesta sem eru í viðskiptum við innlánastofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu:
     1.      Innstæðutryggingar, sbr. X. kafla laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, en sá kafli fjallar um tryggingarsjóði innlánsstofnana.
     2.      Tryggingarskylda fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sbr. 3. gr. laga nr. 13/1996, um verð bréfaviðskipti, og reglugerð nr. 361/1993, um tryggingarskyldu vegna verðbréfamiðlunar og verðbréfaviðskipta.
     3.      Skaðabætur vegna mistaka verðbréfamiðstöðva og reikningsstofnana, sbr. lög nr. 131/ 1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

Innstæðutryggingar.
    Tryggingarsjóður viðskiptabanka og Tryggingarsjóður sparisjóða hafa haft með höndum innstæðutryggingar hér á landi. Innstæðueigendur eru tryggðir gegn greiðsluerfiðleikum banka og sparisjóða að ákveðnu marki eins og kveðið er á um í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Lögin taka mið af tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar.
    Hlutverk Tryggingarsjóðs viðskiptabanka samkvæmt lögunum er að tryggja innstæðueiganda skil á greiðslu innstæðu sem hann hefur krafist endurgreiðslu á og viðskiptabanki eða útibú getur ekki innt af hendi. Meginhlutverk Tryggingarsjóðs sparisjóða er að tryggja fjárhagslegt öryggi þeirra og full skil á innlánsfé við endurskipulagningu eða slit sparisjóðs. Tryggingarsjóður sparisjóða starfar í tveimur deildum, innstæðudeild og lánadeild, en Tryggingarsjóði viðskiptabanka er samkvæmt lögunum heimilt að stofna lánadeild. Tryggingarsjóðunum er heimilt að veita víkjandi lán.
    Í báðum sjóðunum eru tryggðar innstæður sem orðnar eru til vegna innlána í innlendum eða erlendum gjaldmiðli eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi. Tryggingin nær ekki til skuldabréfa, víxla og annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.
    Ef eignir tryggingarsjóðanna duga ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna skal greiðslu úr sjóðunum skipt þannig milli innstæðueigenda að samanlögð heildarinnstæða hvers innstæðueiganda allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en það sem umfram er hlutfallslega eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Tryggingarfjárhæðin tekur til heildarinnstæðu innstæðueiganda en ekki sérhvers reiknings sem er í eigu hans.
    Samkvæmt gildandi lögum skal stefnt að því að heildareign innstæðudeilda tryggingarsjóðanna nemi a.m.k. 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Hafi heildareign ekki náð þessu lágmarki skulu viðskiptabankar og sparisjóðir greiða gjald til sjóðsins er nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði. Nýr viðskiptabanki eða sparisjóður skal greiða 0,15% af tryggðum innstæðum í sjö ár og leggja auk þess fram yfirlýsingu um að hann sé ábyrgur fyrir mismuninum á 1% af tryggðum innstæðum og greiðslu til sjóðsins. Innstæðudeildir beggja sjóðanna hafa náð 1% lágmarkinu. Viðskiptabankar hafa ekki þurft að greiða til Tryggingarsjóðs viðskiptabanka í fimm ár.
    Tryggingarsjóður viðskiptabanka var stofnaður árið 1985 sem ríkisstofnun. Sama ár var Tryggingarsjóður sparisjóða gerður að samtryggingarsjóði og í formi sjálfseignarstofnunar en sjóðurinn rekur sögu sína aftur til ársins 1941. Með lögum nr. 113/1996 voru starfsheimildir sjóðanna samræmdar að verulegu leyti en rekstrarform og eignarhald þeirra er þó ólíkt. Eins og fyrr sagði er Tryggingarsjóður viðskiptabanka ríkisstofnun. Viðskiptaráðherra skipar tvo menn af þremur í stjórn sjóðsins og Samband íslenskra viðskiptabanka einn. Tryggingarsjóður sparisjóða er hins vegar sjálfseignarstofnun og eru fjórir af fimm stjórnarmönnum kosnir á aðalfundi þar sem hver aðili að sjóðnum fer með hlut í samræmi við hlutdeild sína í tryggðum innstæðum. Viðskiptaráðherra skipar fimmta manninn í stjórn sjóðsins.
    Í frumvarpi að lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, var gert ráð fyrir að tryggingarsjóðirnir tveir sameinuðust í einn tryggingarsjóð innlánsstofnana. Ekki var hins vegar meirihlutavilji á Alþingi fyrir slíkri breytingu.
    Í niðurstöðu nefndar sem fjallaði um framtíðarfyrirkomulag innstæðutrygginga hér á landi árið 1994 og var skipuð fulltrúum viðskiptabanka, sparisjóða og stjórnvalda sagði: „Nefndin leggur til að Tryggingarsjóður viðskiptabanka og Tryggingarsjóður sparisjóða starfi áfram með óbreyttum hætti að öðru leyti en því sem reynast kann nauðsynlegt vegna samræmdra reglna um innstæðutryggingar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Nefndin leggur með öðrum orðum til að sjóðirnir starfi aðskildir enn um sinn. Hins vegar telur nefndin margt mæla með því að innan nokkurra ára verði sjóðirnir sameinaðir.“

Tryggingarskylda fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.
    Í lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, var fyrst kveðið á um að verðbréfamiðlarar skyldu afla sér starfsábyrgðartryggingar hjá vátryggingafélagi eða bankatryggingar áður en þeir fengju starfsleyfi. Tryggingin skyldi bæta tjón er verðbréfamiðlarar kynnu að baka viðskiptavinum með störfum sínum. Í athugasemdum við frumvarpið sagði að hliðsjón hefði verið höfð af þeim tryggingum sem fasteignasölum væri gert að afla sér til þess að öðlast leyfi til fasteignasölu. Nánari ákvæði voru sett með reglugerð.
    Ný lög um verðbréfaviðskipti voru samþykkt árið 1993 og reglugerð byggð á þeim fylgdi í kjölfarið. Enn voru ný lög samþykkt árið 1996 en ný reglugerð hefur enn ekki verið sett. Núgildandi reglugerð um tryggingarskyldu vegna verðbréfamiðlunar og verðbréfaviðskipta er því nr. 361/1993, með breytingu nr. 466/1993.
    Fleiri aðilum en fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu er skylt lögum samkvæmt að afla sér starfsábyrgðartryggingar. Þar má nefna endurskoðendur, lögmenn, bílasala, vátryggingamiðlara og fasteignasala. Trygging fyrirtækja í verðbréfaþjónustu er óvenju víðtæk starfsábyrgðartrygging þar sem hún tekur ekki aðeins til einfalds gáleysis heldur einnig stórkostlegs gáleysis og ásetnings. Tryggingarskyldan tekur til allra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, þ.e. bæði verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana, en sem dæmi um annað fyrirkomulag má nefna að vátryggingamiðlurum er gert skylt að afla sér starfsábyrgðartryggingar þótt ekki sé gerð sambærileg krafa á vátryggingarfélög.
    Í reglugerð um tryggingarskyldu er kveðið á um fjárhæðarmörk. Starfsábyrgðartrygging verðbréfamiðlana bætir allt að 4,5 millj. kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks en heildarfjárhæð bóta getur þó ekki orðið hærri en 13,5 millj. kr. á tímabilinu. Sambærilegar tölur fyrir verðbréfafyrirtæki eru 9 millj. kr. og 27 millj. kr., hvort tveggja miðað við verðlag ársins 1993.
    Starfsábyrgðartrygging fyrirtækja í verðbréfaþjónustu veitir viðskiptavinum fyrirtækjanna vernd gegn skaðabótaskyldu tjóni sem þau eru talin bera ábyrgð á. Þessi trygging er að sumu leyti víðtækari en sú vernd sem kemur fram í tilskipun Evrópusambandsins. Markmiðið með tilskipun um tryggingarkerfi fyrir fjárfesta er að vernda viðskiptavini gegn greiðsluerfiðleikum fyrirtækis í verðbréfaþjónustu eða lánastofnunar. Ekki kemur til útborgunar úr tryggingarkerfinu fyrr en ljóst er að verðbréfafyrirtæki eða lánastofnun getur ekki staðið við skuldbindingar sínar að mati Fjármálaeftirlitsins. Á starfsábyrgðartrygginguna getur hins vegar reynt þó að ekki sé um greiðslufall eða gjaldþrot verðbréfafyrirtækis að ræða.
    Annar veigamikill munur á starfsábyrgðartryggingunni og tilskipuninni er sá að í starfsábyrgðartryggingunni er tiltekið hámark vátryggingar fyrir hvert einstakt tjónsatvik og fyrir öll tjónsatvik á hverju ári en í tilskipuninni er kveðið á um lágmarksvernd fyrir hvern einstakan viðskiptavin. Samkvæmt tilskipuninni er ekki heimilt að kveða á um hámarksfjárhæð.

Skaðabætur vegna mistaka verðbréfamiðstöðva og reikningsstofnana.
    Í árslok 1997 voru samþykkt lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Verðbréfamiðstöðvar fá starfsleyfi viðskiptaráðherra samkvæmt lögunum. Með verðbréfamiðstöð verður uppgjör verðbréfaviðskipta rafrænt og þar verða eignir fjárfesta skráðar rafrænt fyrir milligöngu reikningsstofnana, þ.e. viðskiptabanka, sparisjóða, fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða, Seðlabankans og Lánasýslu ríkisins. Verðbréf sem tekin eru til skráningar í verðbréfamiðstöð verða ekki gefin út á pappír og eina lögformlega skráningin á réttindum eigandans verður í verðbréfamiðstöð. Stofnað hefur verið félag um verðbréfamiðstöð hér á landi.
    Með tilkomu verðbréfamiðstöðvar mun áhætta af verðbréfaviðskiptum minnka mjög. Hins vegar er mjög mikilvægt að almenningur eða fyrirtæki bíði ekki fjárhagslegt tjón ef mistök verða í starfsemi hennar. Almenningur og fyrirtæki eiga ekki að þurfa að óttast um öryggi fjármuna sinna í verðbréfamiðstöð.
    Samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa ber verðbréfamiðstöð hlutlæga ábyrgð á tjóni sem rakið verður til starfsemi hennar í tengslum við tilkynningar um skráningu, breytingar eða afmáningu réttinda á reikningi í miðstöðinni. Bótaábyrgð nær þó hvorki til tjóns vegna glataðra viðskiptatækifæra né til tjóns vegna óviðráðanlegra ytri atvika. Sömu reglur gilda um reikningsstofnun ef tjón verður rakið til starfsemi hennar. Samanlagður ábyrgðarsjóður verðbréfamiðstöðvar skal að lágmarki nema 650 millj. kr. í formi ábyrgða eða á annan hátt.
    Bætur fyrir mistök í skráningu í verðbréfamiðstöð eru eftir atvikum greiddar af verðbréfamiðstöð eða reikningsstofnun. Sérstakur ábyrgðarsjóður er í verðbréfamiðstöð vegna mistaka sem rakin verða til starfsemi hennar, eins og að framan greinir, en ekki er gerð krafa í lögum um sambærilegan sjóð reikningsstofnana. Tryggingakerfi fyrir fjárfesta mun samkvæmt tilskipun ESB veita fjárfestum ákveðna lágmarksvernd ef fyrirtæki í verðbréfaþjónustu getur ekki afhent verðbréf sem eru í vörslu þess og fyrirtækið er ekki fjárhagslega í stakk búið að standa við skuldbindingar sínar. Ekki skiptir máli í þessu efni hvort verðbréfin eru á pappírsformi eða í rafrænni vörslu á verðbréfareikningi í umsjón fyrirtækis í verðbréfaþjónustu.

Líkur á gjaldþroti fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.
    Þó svo að tilskipun um tryggingakerfi fyrir fjárfesta byggist að mestu leyti á innstæðutryggingatilskipuninni er þó engu að síður veigamikill munur á innstæðum og viðskiptum með verðbréf. Innstæður eru meginuppistaðan í fjármögnun banka og sparisjóða og koma fram á efnahagsreikningi þeirra. Þessu er ólíkt farið hjá fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu. Þau eru oftast að selja bréf sem gefin eru út af þriðja aðila. Verðbréf sem tryggð eru samkvæmt tilskipuninnni koma því ekki fram á efnahagsreikningi fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.
    Fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu er skylt skv. 19. gr. laga um verðbréfaviðskipti að halda fjármunum viðskiptamanna sinna tryggilega aðgreindum frá eignum fyrirtækisins. Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu getur því orðið gjaldþrota án þess að viðskiptavinir fyrirtækisins í tengslum við viðskipti með verðbréf tapi fjármunum sínum. Til að viðskiptavinir fyrirtækisins tapi fjármunum þurfa að koma til stórkostleg mistök eða sviksamlegt athæfi.
    Ógjörningur er að meta líkur á gjaldþroti fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Með öflugu lögbundnu eftirliti og ströngum lagaskilyrðum um eigið fé og áhættustýringu ættu gjaldþrot fyrirtækja í verðbréfaþjónustu að vera afar fátíð. Reynslan annars staðar á Norðurlöndum bendir einmitt til að svo sé. Hins vegar er ekki hægt að útiloka að viðskiptavinir geti tapað fjármunum vegna gjaldþrots verðbréfafyrirtækis, en markmið tilskipunarinnar er að vernda fjárfesta gegn slíku.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eignir verðbréfadeildar sjóðsins verði a.m.k. 100 millj. kr. Talið er að líkur á að viðskiptavinir fyrirtækja í verðbréfaþjónustu tapi meiri fjármunum á gjaldþroti séu litlar. Stærð sjóðsins er hlutfallslega svipuð og sambærilegra sjóða í Danmörku og Svíþjóð. Ráðherra getur að tillögu stjórnar sjóðsins ákveðið að auka eignir verðbréfadeildar sjóðsins. Auk þess er heimilt að lána á milli deilda sjóðsins að ákveðnu marki.

Fjárhagsstaða tryggingarsjóða innlánsstofnana.
    Tryggingaskyldar innstæður í viðskiptabönkum og sparisjóðum voru samtals um 208 milljarðar kr. í árslok 1998. Í lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, segir að stefnt skuli að því að heildareignir innstæðudeildanna séu a.m.k. 1% af samanlögðum tryggðum innstæðum. Eignir innstæðudeilda Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og Tryggingarsjóðs sparisjóða eru hins vegar samtals 2.650 þús. kr. eða um 1,27% af tryggingastofni. Samanlagðar innstæður í innstæðudeildum eru því vel ofan við lögbundið lágmark.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er sett fram það markmið laganna að veita innstæðueigendum og fjárfestum lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Þeir sem njóta tryggingarverndar eru annars vegar innstæðueigendur í bönkum og sparisjóðum, sbr. ákvæði 9. gr., og hins vegar viðskiptavinir fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga um verðbréfaviðskipti til að stunda viðskipti með verðbréf, sbr. þó ákvæði 9. gr. Hér er átt við viðskiptamenn í tengslum við viðskipti með verðbréf en ekki almenna birgja fyrirtækisins. Þessi fyrirtæki geta verið viðskiptabankar, sparisjóðir, lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir, sbr. lög nr. 123/1993, og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu.

Um 2. gr.

    Gert er ráð fyrir að sérstök stofnun, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, fari með tryggingar samkvæmt lögum þessum. Fallið er frá því að nefna sjóðinn eftir þeim fyrirtækjum sem í hann greiða, sbr. Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða, en sjóðurinn þess í stað nefndur eftir þeim sem tryggðir eru gegn greiðsluerfiðleikum fyrirtækjanna.
    Lagt er til að sjóðurinn verði sjálfseignarstofnun eins og Trygingarsjóður sparisjóða er nú. Tryggingarsjóður viðskiptabanka er hins vegar ríkisstofnun. Fram til 1998 voru Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands ríkisbankar og nutu ríkisábyrgðar. Nú eru allir viðskiptabankar hins vegar reknir í formi hlutafélaga og njóta því ekki ríkisábyrgðar. Ekki þykir ástæða til að hinn nýi tryggingarsjóður verði rekinn sem ríkisstofnun. Þykir fara best á því að sjóðurinn verði rekinn sem sjálfseignarstofnun, enda kemur þá skýrt fram að aðilar að sjóðnum eiga ekki það fé sem í honum liggur. Sjálfseignarstofnun er einnig velþekkt rekstrarform þótt það sé reyndar ekki vel skilgreint í lögum.

Um 3. gr.

    Aðilar að sjóðnum skulu samkvæmt greininni vera viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf. Allir viðskiptabankar, sparisjóðir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu eiga aðild að sjóðnum en hins vegar þykir ekki rétt að lánastofnanir sem starfa samkvæmt lögum nr. 123/1993 eigi aðild að sjóðnum nema því aðeins að viðkomandi lánastofnun nýti sér heimildir laga til að stunda verðbréfaviðskipti. Sem dæmi um aðrar lánastofnanir sem ekki nýta sér þessar heimildir eru Hafnabótasjóður og Orkusjóður.

Um 4. gr.

    Í greininni er kveðið á um skipan og hæfi stjórnar og framkvæmdastjóra. Í 1. mgr. er gerð grein fyrir skipan stjórnar og lagt til að stjórn sjóðsins skipi sex manns. Lagt er til að aðildarfyrirtæki tilnefni meiri hluta í stjórn sjóðsins, eða fjóra menn, en viðskiptaráðherra tvo. Í stjórn Tryggingarsjóðs viðskiptabanka eru nú þrír menn, þar af tveir tilnefndir af viðskiptaráðherra og einn er frá viðskiptabönkum. Í stjórn Tryggingarsjóðs sparisjóða eru fimm manns, fjórir frá sparisjóðum og einn tilnefndur af viðskiptaráðherra.
    Í 2. mgr. kemur fram heimild stjórnar til að ráða framkvæmdastjóra við sjóðinn, eða semja við lögaðila um rekstur og vörslu hans. Ekki er gert ráð fyrir fullu starfi framkvæmdastjóra. Umfang starfseminnar er tiltölulega lítið á meðan ekki kemur til útborgunar úr sjóðnum og felst aðallega í umsjón með inngreiðslum og umsýslu með verðbréf. Tryggingarsjóður viðskiptabanka er nú í vörslu Seðlabankans en Tryggingarsjóður sparisjóða í vörslu sparisjóðanna.
    Í 3. mgr. koma fram hæfisskilyrði fyrir stjórnarmenn og framkvæmdastjóra. Skilyrðin í 3. mgr. eru hin sömu og fram koma í 3. mgr. 6. gr. laga um opinber eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Kveða skal nánar á um verkefni stjórnar í samþykktum. Sem dæmi um verkefni sem hægt væri að kveða á um í samþykktum væri að gera tillögu um árlegt gjald aðildarfyrirtækja til sjóðsins og sjá um innheimtu á því, afla ábyrgðaryfirlýsinga frá aðildarfyrirtækjum, taka ákvarðanir um ávöxtun á fé sjóðsins, taka ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum, semja ársreikning, taka ákvarðanir um rekstur sjóðsins, svo sem að ráða framkvæmdastjóra eða semja við lögaðila um rekstur hans, boða til aðalfunda, gera tillögu til ráðherra um hækkun á eignum verðbréfadeildar og taka ákvarðanir sem snerta starfsemi sjóðsins að öðru leyti.

Um 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um aðalfundi. Á aðalfundi skal leggja fram endurskoðaðan ársreikning og ársskýrslu stjórnar auk þess sem hann setur sjóðnum samþykktir sem þó skulu háðar samþykki ráðherra að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Sem dæmi um verkefni aðalfundar sem hægt væri að kveða á um í samþykktum er að leggja fram ársreikning stjórnar, leggja fram og ræða ársreikning, setja samþykktir, kjósa löggiltan endurskoðanda og taka upp önnur mál um starfsemi sjóðsins sem aðildarfyrirtæki vilja taka upp.
    Sérhvert aðildarfyrirtæki á rétt til setu á aðildarfundi. Í 2. mgr. er lýst hvernig atkvæðum er skipt milli einstakra flokka fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að viðskiptabankar fari með helming atkvæða á aðildarfundi og sparisjóðir með fjórðung. Viðskiptabankar og sparisjóðir munu eiga aðild að báðum deildum sjóðsins, innstæðudeild og verðbréfadeild. Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir munu hins vegar aðeins greiða í verðbréfadeild sjóðsins og er lagt til að þessi fyrirtæki fari saman með fjórðung atkvæða á aðildarfundi.

Um 6. gr.

    Greinin fjallar um inngreiðslur í innstæðudeild sjóðsins og byggist í öllum efnisatriðum á 80. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996. Eins og fram kom í almennum athugasemdum verður hlutfall eigna í innstæðudeild sjóðsins nokkru hærra en lögbundið 1% lágmark. Hlutfall eigna Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og Tryggingarsjóðs sparisjóða af tryggðum eignum var 1,27% í lok árs 1998. Ólíklegt er því að komi til innborgunar viðskiptabanka og sparisjóða í innstæðudeildina á næstu missirum. Í greininni kemur jafnframt fram að greiðslur til sjóðsins séu óendurkræfar. Stjórn sjóðsins getur því ekki ráðstafað til baka þeim hluta eigna deildarinnar sem er umfram lágmarkið.
    Eftirfarandi eru drög að ákvæðum reglugerðar um greiðslur í innstæðudeildina:
     a.      Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Nái heildareign ekki lágmarki skv. 1. málsl. skulu allir viðskiptabankar og sparisjóðir greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári, sbr. þó viðmunarmörk skv. 1. málsl.
     b.      Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki skal hver viðskiptabanki og sparisjóður leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu. Í yfirlýsingunni skal hver viðskiptabanki og sparisjóður ábyrgjast að hann muni inna af hendi sérstaka greiðslu til deildarinnar í þeim tilvikum sem deildinni ber að endurgreiða innstæður, skv. IV. kafla, í einhverjum þeim viðskiptabanka eða sparisjóði sem aðild á að sjóðnum.
                  Ábyrgðaryfirlýsingin skal hljóða upp á sama hlutfall þeirrar fjárhæðar er vantar á lágmarkið og nemur hlutfalli tryggðra innstæðna hlutaðeigandi af samanlögðum tryggðum innstæðum. Kröfur um innborgun í deildina á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga geta á ári hverju þó ekki verið hærri en sem nemur einum tíunda af lágmarksstærð sjóðsins. Viðskiptabönkum og sparisjóðum er skylt að inna greiðsluna af hendi þegar sjóðurinn krefst þess og framangreindar aðstæður eru fyrir hendi.
                  Greiðslur til deildarinnar eru óendurkræfar.
     c.      Nýr viðskiptabanki eða sparisjóður skal greiða sérstaklega til deildarinnar 1. mars ár hvert frá því að hann hefur starfsemi hér á landi 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári þar til lágmarki skv. 1. mgr. er náð. Auk þess leggur hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður fram ábyrgðaryfirlýsingu er stjórn sjóðsins metur gilda fyrir mismun á greiðslu til sjóðsins og lágmarki skv. 1. málsl. 1. mgr.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um að eignir verðbréfadeildar skuli vera a.m.k. 100 millj. kr. Í tilskipun um tryggingakerfi fyrir fjárfesta er ekki gert ráð fyrir samræmingu á fjármögnun tryggingakerfanna á milli landa né heldur er kveðið á um stærð kerfisins. Það er því á valdi einstakra aðildarríkja að setja reglur um stærð sjóðsins og fjármögnun.
    Gera má ráð fyrir að tryggð verðbréf í vörslu eða umsjón verðbréfafyrirtækja fyrir viðskiptamenn þeirra hafi verið um 200–210 milljarðar kr. í lok árs 1998. Þar af eru um 70 milljarðar kr. í verðbréfasjóðum og hlutabréfasjóðum sem að stórum hluta eru í öryggisvörslu í verðbréfafyrirtækjum. Gera má ráð fyrir að rúmlega 100 milljarðar kr. af fé stofnanafjárfesta sé í fjárvörslu í verðbréfafyrirtækjum. Samkvæmt upplýsingum frá verðbréfafyrirtækjum eru um 25 milljarðar kr. í fjárvörslu í eigu tæplega tvö þúsund einstaklinga og lögaðila annarra en fagfjárfesta. Meðalupphæð einstaklinga og lögaðila annarra en fagfjárfesta er samkvæmt þessu um 12,5 millj. kr. Auk þessa tryggir verðbréfadeildin innborgað reiðufé fjárfestis til aðildarfyrirtækis, sbr. 9. gr.
    Í frumvarpinu er lagt til að eignir deildarinnar verði að ákveðnu lágmarki sem hækki með ákvörðun ráðherra samkvæmt tillögu stjórnar sjóðsins í stað þess að eignir deildarinnar breytist í samræmi við tryggingarstofn líkt og í innstæðudeildinni. Danir hafa einnig farið þá leið að fastsetja eignir deildarinnar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að tryggingarstofn verðbréfadeildarinnar er að öðru jöfnu meiri breytingum háður en tryggðar innstæður í innstæðudeild.
    Viðskiptaráðuneytið fékk Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðing til að gera tillögu um æskilega stærð verðbréfadeildar með hliðsjón af fjárhæð í vörslu hjá verðbréfafyrirtækjum og fjölda fjárvörslureikninga. Niðurstaða Benedikts var sú að æskileg stærð sjóðs væri í kringum 100 millj. kr. og er í frumvarpinu miðað við þá fjárhæð. Hún er einnig í góðu samræmi við hugmyndir um sambærilega sjóði í Danmörku og Svíþjóð.
    Verðbréfadeild sjóðsins er lítil í samanburði við tryggð verðbréf. Hins vegar er ljóst, eins og kom fram í almennum athugasemdum við frumvarpið, að til þess að viðskiptavinir fyrirtækis í verðbréfaþjónustu eða lánastofnunar tapi fé í tengslum við viðskipti með verðbréf þurfa að koma til stórkostleg mistök eða sviksamlegt athæfi. Telja verður líklegt að 100 millj. kr. í verðbréfadeild muni nægja til að tryggja lágmarksbætur fyrir viðskiptavini fyrirtækis í verðbréfaþjónustu eða lánastofnunar við gjaldþrot hennar. Ekki þykir því rétt að binda meira fé í verðbréfadeild sjóðsins. Hafa verður í huga að samkvæmt tilskipuninni má fjármögnun tryggingakerfisins ekki stofna stöðugleika fjármálakerfisins í hættu.
    Í 2. mgr. koma fram reglur um það hvað skuli liggja til grundvallar inngreiðslum í deildina, þ.e. annars vegar fjöldi stöðugilda í aðildarfyrirtækjum í tengslum við viðskipti með verðbréf og hins vegar fjöldi viðskiptareikninga hjá aðildarfyrirtækjum í tengslum við viðskipti með verðbréf. Nánari ákvæði um útfærslu skulu síðan sett í reglugerð.
    Það er erfiðleikum bundið að miða greiðslur aðildarfyrirtækja í verðbréfadeildina við tryggð verðbréf. Það stafar annars vegar af því að miklar sveiflur geta verið á þeim stofni. T.d. gæti lífeyrissjóður sett mikið fé í vörslu aðildarfyrirtækis sem hækkaði iðgjaldagreiðslur sjóðsins mjög en sjóðurinn ætti samt sem áður ekki rétt á meiri tryggingu en fjárvörsluþegar með mun lægri fjárhæðir í vörslu. Hins vegar verður einnig að taka mið af því að tilskipunin tekur ekki aðeins til verðbréfa í vörslu heldur einnig til reiðufjár sem fjárfestirinn kann að eiga hjá aðildarfyrirtækinu í tengslum við viðskipti með verðbréf.
    Af þessum sökum er nauðsynlegt að finna einhverja nálgun sem að gagni kemur við að ákveða inngreiðslur aðildarfyrirtækja. Rökin fyrir því að lagt er til að fjöldi stöðugilda sé notaður sem viðmiðun fyrir inngreiðslur eru þau að vart kemur til kasta deildarinnar nema starfsmenn verði sekir um stórkostleg mistök eða sviksamlegt athæfi. Telja verður að því fleiri sem starfsmenn aðildarfyrirtækis eru, þeim mun líklegra sé að einn þeirra muni gerast sekur um sviksamlegt athæfi og þar með að tryggingin verði virk. Hér ber þess að geta að einungis skal telja starfsmenn aðildarfyrirtækja í tengslum við viðskipti með verðbréf. Telja verður eðlilegt að miða við heildarfjölda stöðugilda í fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu en einungis þá starfsmenn lánastofnana sem koma beint að verðbréfaviðskiptum í lánastofnunum að viðbættu hæfilegu álagi.
    Rökin fyrir því að fjöldi viðskiptareikninga er einnig notaður sem viðmiðun er sú að tilskipunin um tryggingakerfi fyrir fjárfesta byggist á rétti hvers einstaklings til bóta vegna greiðsluerfiðleika aðildarfyrirtækis. Því þykir rétt að taka mið af fjölda viðskiptareikninga í aðildarfyrirtækjum.
    Í 3. mgr. kemur fram að sjóðnum sé heimilt að kaupa vátryggingu til að tryggja sig gegn tjóni. Það kann að reynast hentugri kostur að kaupa vátryggingu en að safna í sjóð. Sjálfsagt þykir að stjórn sjóðsins hafi heimild til að taka þann kost sem hagkvæmastur þykir. Í Svíþjóð er hinn nýi tryggingarsjóður um þessar mundir að kanna áhuga vátryggingafélaga á slíkri tryggingu.
    Í 4. mgr. er ráðherra veitt heimild til þess að ákvarða með reglugerð hvernig greiðslum aðildarfyrirtækja verði háttað og hvernig ný aðildarfyrirtæki fái inngöngu. Eftirfarandi eru drög að ákvæðum reglugerðar um greiðslur í innstæðudeildina.
     a.      Heildareign verðbréfadeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 100 millj. kr. Viðskiptaráðherra getur að fenginni tillögu stjórnar sjóðsins samþykkt að auka eignir deildarinnar. Stjórn sjóðsins skal á tveggja ára fresti gera ráðherra grein fyrir afstöðu sinni til hækkunar á eignum deildarinnar, í fyrsta sinn fyrir 1. janúar 2002.
                  Nái heildareign sjóðsins ekki lágmarki skv. 1. mgr. skulu aðildarfyrirtæki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur samtals 20 millj. kr. þar til sjóðurinn hefur náð tilskildri lágmarksstærð.
                  Gjaldið sem hvert aðildarfyrirtæki greiðir skal miðast að hálfu við hlut þess í samanlögðum fjölda stöðugilda í aðildarfyrirtækjum í tengslum við viðskipti með verðbréf í lok næstliðins árs og að hálfu við hlut þess í samanlögðum fjölda viðskiptareikninga hjá aðildarfyrirtækjum í lok næstliðins árs í tengslum við viðskipti með verðbréf. Fjöldi viðskiptareikninga er fundinn með því að leggja saman fjölda viðskiptamanna skv. c-lið 1. tölul. og a- og b-lið 2. tölul. 8. gr. laga nr. 13/1996. Viðskiptamenn skv. c-lið 1. tölul. og a-lið 2. tölul. hafa tvöfalt vægi í samtölu. Viðskiptamenn með meiri eign en 1,7 milljónir miðað við gengi EUR 5. janúar 1999 hafa tvöfalt vægi í samtölu.
                  Greiðslur til deildarinnar eru óendurkræfar.
     b.      Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki skulu aðildarfyrirtæki sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu. Í yfirlýsingunni skal hvert aðildarfyrirtækjanna ábyrgjast að það muni inna af hendi sérstaka greiðslu til deildarinnar í þeim tilvikum sem deildinni ber að endurgreiða viðskiptavinum, skv. IV. kafla, í einhverju aðildarfyrirtæki.
                  Ábyrgðaryfirlýsingin skal hljóða upp á sama hlutfall þeirrar fjárhæðar er vantar á lágmarkið og nemur hlutfalli greiðslna aðildarfyrirtækis af samanlögðum greiðslum aðildarfyrirtækja við fyrstu greiðslu eftir að ljóst er að heildareign deildarinnar nái ekki tilskildu lágmarki. Aðildarfyrirtækjum er skylt að inna greiðsluna af hendi þegar sjóðurinn krefst þess og framangreindar aðstæður eru fyrir hendi.
     c.      Þrátt fyrir ákvæði í a- og b-lið er stjórn sjóðsins heimilt að kaupa vátryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi á Evrópska efnahagssvæðinu til að tryggja sig gegn tjóni. Kaupi sjóðurinn vátryggingu skal þó í það minnsta fjórðungur af lágmarksstærð deildarinnar skv. a-lið vera í verðbréfum eða reiðufé.
     d.      Nýtt aðildarfyrirtæki sem nýtir sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti skal greiða sérstaklega til deildarinnar 1. mars ár hvert í fimm ár frá því að það hefur starfsemi hér á landi það hlutfall af 20 millj. kr. sem nemur hlutfalli þess í samanlagðri veltu aðildarfyrirtækja í verðbréfaviðskiptum á næstliðnu ári og í samanlögðum fjölda viðskiptareikninga hjá aðildarfyrirtækjum í lok næstliðins árs í tengslum við viðskipti með verðbréf. Greiðslan skal innt af hendi í fyrsta sinn fullu ári eftir upphaf starfseminnar. Auk þess leggur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki fram ábyrgðaryfirlýsingu er stjórn sjóðsins metur gilda fyrir fjórfaldri greiðslu fyrsta ársins.

Um 8. gr.

    Greinin er efnislega hliðstæð 81. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Lagt er til að stjórn sjóðsins kynni bæði ráðherra og Fjármálaeftirlitnu ef aðildarfyrirtæki uppfyllir ekki skyldur sínar gagnvart sjóðnum.

Um 9. gr.

    Í greininni er fjallað um heimildir viðskiptavina aðildarfyrirtækja til að krefja sjóðinn um greiðslu. Greinin er byggð á 1.–3. mgr. 78 gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/ 1996. Heimildir viðskiptavina til að krefja sjóðinn um greiðslu eru þó víðtækari en áður þar sem auk innstæðna í bönkum og sparisjóðum eru nú tryggð verðbréf og reiðufé í tengslum við viðskipti með verðbréf. Er það í samræmi við tilskipun ESB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    Í 3. mgr. er nánari skilgreining á tryggðum innstæðum, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga nr. 113/1996. Verðbréf teljast ekki til innstæðu samkvæmt þessari grein og er það í samræmi við innstæðutryggingatilskipunina sem heimilar aðildarríkjunum að undanþiggja tryggingunni ýmis innlán, sem og útgefin verðbréf.
    Í 4. mgr. er nánari skilgreining á tryggðum verðbréfum. Tryggð eru verðbréf sem eru í vörslu, umsjón eða umsýslu aðildarfyrirtækis og því ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda um samskipti aðildarfyrirtækja og fjárfestis samkvæmt lögum eða samningum. Hér er átt við eignaumsýslu, svo sem vegna fjárvörslu eða öryggisvörslu fjár, sem einkanlega á sér stað í verðbréfafyrirtækjum. Með verðbréfum er einnig átt við rafbréf, sbr. lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
    Í 5. mgr. er nánari skilgreining á tryggðu reiðufé. Hér er átt við innborgað reiðufé fjárfestis til aðildarfyrirtækis þegar það stendur ekki við skyldu sína um afhendingu keyptra verðbréfa. Hér er átt við kröfur sem til eru komnar vegna verðbréfamiðlunar í lánastofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu. Sem dæmi má nefna að einhver tími getur liðið frá því að viðskiptavinur leggur fé inn á reikning verðbréfafyrirtækis og þar til eign hans er færð til bókar í fyrirtækinu.
    Í 6. mgr. er kveðið á um undanþágur frá tryggingu. Þær eru af tvennum toga. Annars vegar eru undanskildar innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður- og dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning. Þetta er í samræmi við ákvæði laga um viðskiptabanka og sparisjóði um innstæðutryggingarsjóði. Þar sem aðildarfyrirtæki taka nú ekki einungis til viðskiptabanka og sparisjóða heldur einnig til annarra lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu er um útvíkkun á þessari undanþágu að ræða. Hins vegar eru undanskildar innstæður, verðbréf og reiðufé sem tengist málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti. Þessi undanþága er í samræmi við tilskipanir um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Um 10. gr.

    Greinin er efnislega hliðstæð 3. og 4. mgr. 80. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

Um 11. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að heimilt sé að lána allt að 50 millj. kr. á milli innstæðudeildar og verðbréfadeildar. Rétt þykir að hafa heimild til að auka eignir annarrar deildarinnar ef hún verður eignalaus vegna gjaldþrots.

Um 12. gr.

    Í greininni kemur fram heimild fyrir sjóðinn til að veita aðildarfyrirtækjum víkjandi lán. Sams konar heimild er fyrir hendi í 79. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Þykir ástæða til að viðhalda henni. Með því á sjóðurinn möguleika á að grípa fyrr til aðgerða og minnka þannig líkurnar á því að komi til útgreiðslu til viðskiptavina.

Um 13. gr.

    Greinin er efnislega hliðstæð 77. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði nema hún tekur einnig til annarra lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Rétt þykir að taka fram í þessu sambandi að sjóðurinn tryggir einnig innstæður viðskiptavina innlendra aðildarfyrirtækja í útibúum annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Um 14.gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 15. gr.

    Í greininni er fjallað um eftirlit með sjóðnum. Í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er kveðið á um hvernig eftirlitsgjald skuli ákvarðað. Enginn gjaldstofn er þar tilgreindur fyrir tryggingarsjóði eða öryggissjóði. Telja verður eðlilegt að slíkir sjóði greiði gjald fyrir eftirlitið og að gjaldið greiðist samkvæmt reikningi.

Um 16. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að aðildarfyrirtæki skuli ætíð hafa til reiðu skriflegar upplýsingar um aðild sína að sjóðnum. Sambærilegt ákvæði er að finna í reglugerð nr. 21/1997, um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og tilhögun á greiðslum úr tryggingarsjóðum innlánsstofnana. Þykir rétt að ákvæði um upplýsingaskyldu, sem þýðingu hefur fyrir neytendavernd, sé fundinn staður í lögum frekar en reglugerð.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að auglýsingar aðildarfyrirtækja um aðild að sjóðnum skuli takmörkuð við beina tilvísun til hlutaðeigandi deildar. Þykir rétt að stemmu stigu við því að aðildarfyrirtæki nýti sér aðild að sjóðnum í samkeppnisskyni. Samsvarandi ákvæði er að finna í reglugerð nr. 21/1997, um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og tilhögun á greiðslum úr tryggingarsjóðum innlánsstofnana.

Um 17. gr.


    Í greininni er undanþága frá tekjuskatti og eignarskatti, gjaldþrotaskiptum og aðför. Þetta er í samræmi við 78. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 19. gr.

    Markmiðið með öryggissjóðum er að tryggja hagsmuni viðskiptavina og fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka eða sparisjóða. Með slíku forvarnastarfi má leiða að því líkum að síður komi til kasta Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Ákvæði þessarar greinar eru ekki ný af nálinni því að þau eiga sér samsvörun í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Heimildir viðskiptabanka og sparisjóða til að stofna sjálfseignarstofnanir í þessum tilgangi eru því fyrir hendi í gildandi lögum. Hins vegar hafa aðeins sparisjóðirnir nýtt sér þessi heimild. Sérstök lánadeild er starfandi við Tryggingarsjóð sparisjóða sem hefur svipaðar heimildir og hér eru lagðar til. Ef vilji stendur til þess geta sparisjóðir því haldið áfram starfsemi lánadeildarinnar með svipuðum hætti og verið hefur. Sparisjóðirnir telja að lánadeildin hafi reynst mjög mikilvæg í forvarnastarfi fyrir sparisjóðina í landinu.
    Til viðbótar við ákvæði gildandi laga er veitt heimild fyrir öryggissjóði til að rannsaka rekstur og efnahag viðskiptabanka eða sparisjóðs til að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og fjárhagslegt öryggi.

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 21. gr.

    Í tilskipunum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta eru ákvæði um að aðildarríkjum beri skylda til þess að setja í lög, sem sett eru til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði hennar, tilvísun til þeirra tilskipana sem verið er að lögleiða hverju sinni. Í greininni er að finna tilvísun í samræmi við framangreint ákvæði tilskipunarinnar og þarfnast hún ekki frekari skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fjárfesta.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að Tryggingarsjóður viðskiptabanka, innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða og nýtt tryggingakerfi fyrir fjárfesta renni saman í einn sjóð. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir verði einnig aðilar að sjóðnum sem samkvæmt frumvarpinu mun heita Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta. Tilgangurinn er m.a. að mynda einn tryggingarsjóð sem verndar innstæðueigendur og viðskiptavini lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu gegn greiðsluerfiðleikum þessara fyrirtækja.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta verði sjálfseignarstofnun með aðild allra viðskiptabanka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja og annarra sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf. Gert er ráð fyrir að þessir aðilar greiði í tryggingarsjóð, svo og allan stofn- og rekstrarkostnað.
    Í aðalatriðum eru efnislega hliðstæð ákvæði nú þegar í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og hafa Fjármálaeftirlitið og viðskiptaráðuneyti eftirlit með framkvæmd þeirra laga. Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins muni leiða til aukinna útgjalda ríkissjóðs.