Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 57  —  57. mál.




Frumvarp til laga



um vitamál.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



I. KAFLI
Yfirstjórn og verkefni Siglingastofnunar Íslands.
1. gr.

    Um yfirstjórn vitamála fer eftir lögum um Siglingastofnun Íslands.

2. gr.

    Siglingastofnun Íslands ber að sjá sjófarendum fyrir nauðsynlegum leiðbeiningum til öryggis í siglingum við Íslandsstrendur og á fiskimiðum í kringum landið með þeim undantekningum sem síðar getur.
     Til slíkra leiðbeininga teljast m.a. vitar og önnur föst merki á landi, fljótandi leiðarmerki, radíómerki til staðarákvörðunar og upplýsingar um veður og sjólag.
    Siglingastofnun Íslands skal einnig hlutast til um útgáfu upplýsinga um þau leiðbeiningarkerfi sem fyrir hendi eru á áðurnefndu svæði og stuðla að útgáfu korta sem innihalda nauðsynlegar upplýsingar til að sjófarendur geti notað áðurnefnd hjálpartæki. Siglingastofnun Íslands skal hafa eftirlit af hálfu ríkisins með uppsetningu og rekstri leiðarmerkja sem einstök sveitarfélög eða einstaklingar setja upp. Siglingastofnun skal, að beiðni Veðurstofu Íslands, annast veðurathuganir á vitastöðum. Þá fer Siglingastofnun með leiðsögumál, svo sem nánar er tilgreint í lögum um leiðsögu skipa.

II. KAFLI
Landsvitar og hafnarvitar.
3. gr.

    Vitakerfi Íslands greinist í tvo meginþætti, landsvita og hafnarvita.
    Til landsvitakerfisins heyra í meginatriðum allir þeir vitar og önnur leiðarmerki sem telja má að þjóni almennum siglingum við ströndina ásamt fiskveiðum.
    Hafnarvitar teljast þeir vitar og önnur leiðarmerki sem eingöngu eru reist til að leiðbeina skipum inn á hafnarsvæði eða um tilteknar hafnir. Með hafnarsvæði er hér átt við það svæði sem lögsaga hafnarinnar nær yfir.
    Við ákvörðun um hvaða leiðarmerki skulu tilheyra landsvitakerfinu skal leita álits siglingaráðs.
    Ef hafnarstjórn eða einstaklingur vill setja upp leiðarmerki fyrir sjófarendur skal gerð þess og staðsetning ákveðin í samráði við Siglingastofnun Íslands, sem leitar umsagnar siglingaráðs um málið. Leiðarmerki má ekki taka í notkun fyrr en úttekt hefur farið fram af hálfu Siglingastofnunar Íslands, sem þá sér um að merkið verði auglýst, svo sem nánar er greint í lögum þessum.
    Siglingastofnun Íslands skal sjá um að landsvitakerfið starfi svo sem til er ætlast og því er lýst í vitaskrá. Siglingastofnun skal jafnframt hafa eftirlit með hafnarvitum.
    Hafnarstjórn eða einstaklingur, sem fengið hefur leyfi og sett upp leiðarmerki, er skuldbundinn til að halda merkinu við og tilkynna Siglingastofnun Íslands tafarlaust um allar breytingar sem á því verða. Ef merki er ekki haldið nægilega við að dómi Siglingastofnunar, er henni heimilt að annast nauðsynlegar lagfæringar á kostnað eiganda. Óski hafnarstjórn eða einstaklingur að leggja niður eða breyta leiðarmerki, skal sótt um það til Siglingastofnunar Íslands.
    Siglingastofnun Íslands getur, að fenginni umsögn siglingaráðs, krafist þess að hafnarstjórn láti gera á eigin kostnað þá vita og önnur leiðarmerki sem Siglingastofnun Íslands telur nauðsynleg til öryggis siglinga um viðkomandi hafnarsvæði. Til eigin kostnaðar telst einnig viðhald og rekstur slíkra vita og leiðarmerkja.

4. gr.

    Óheimilt er að byggja hús eða mannvirki sem skyggt gætu á leiðarmerki frá sjónum á þeim boga sjóndeildarhringsins þar sem því er ætlað að þjóna sjófarendum, og hæfilega langt til beggja handa. Getur Siglingastofnun Íslands látið rífa húsið eða mannvirkið á kostnað eiganda þess ef brotið er á móti þessu.
    Óheimilt er að setja upp ljós eða önnur merki sem kynnu að villa um fyrir sjófarendum.

5. gr.

    Hverjum landeiganda ber skylda til að láta af hendi mannvirki og land sem þarf til vitabygginga samkvæmt lögum þessum, svo og til íveruhúsa handa vitagæslumönnum. Enn fremur til þess að gera brautir og vegi í því sambandi, til að leyfa að tekin verði í landi hans grjót, möl og önnur jarðefni og þola þær eignakvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti sem vitabyggingin hefur í för með sér, allt þó gegn því að fullar bætur komi fyrir.
    Um ákvörðun bóta skal farið eftir lögum nr. 11 frá 6. apríl 1973, um framkvæmd eignarnáms.
    

III. KAFLI

Vitagjald.

6. gr.

    Til að standa straum af kostnaði við rekstur Siglingastofnunar Íslands skal greitt vitagjald af skipum þeim sem sigla við Íslandsstrendur og hafa hér viðkomu. Gjald þetta skal aðeins heimilt að nota í verkefni samkvæmt 2. gr. Heimilt er að færa fjármagn á milli fjárlagaára.

7. gr.

    Við ákvörðun vitagjalda samkvæmt stærð skipa skal miðað við brúttótonnatölu skips samkvæmt alþjóðlegu mælibréfi, sem gefið er út samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar um mælingu skipa frá 1969.
    Vitagjald, 64,70 kr. af hverju brúttótonni skips, skal greiða af skipum sem taka höfn hér á landi og skal hálft tonn eða þar yfir teljast heilt tonn, en minna broti sleppt. Þó skal þetta gjald aldrei vera lægra en 5.000 kr.
    Undanþegin gjaldi þessu eru herskip, varðskip, tollgæslubátar og vitaskip. Sama gildir um skip sem leita hafnar í neyð en taka engan farm úr landi né úr öðrum skipum né heldur flytja farm í land eða í önnur skip, enda hafi sannast í sjóprófi eða með annarri lögfullri sönnun að þau hafi verið í nauðum stödd vegna áreksurs, sjóskemmda, veikinda, farmskekkju eða ófriðar.
    Skip sem eigi er notað við Íslandsstrendur á gjaldárinu eða er án haffæris allt gjaldárið er þó ekki gjaldskylt á því gjaldári.

8. gr.

    Vegna íslenskra skipa skal gjald þetta greitt eigi síðar en 1. apríl ár hvert og þá þar sem skipið er skrásett. Af erlendum skipum, sem setja farþega eða vörur á land, skal greiða fjórðung vitagjaldsins við hverja komu til landsins, en þó ekki oftar en fjórum sinnum á hverju almanaksári. Fyrir slík skip greiðist gjaldið í fyrstu höfn sem það tekur hér við land.
    Lögreglustjórar, í Reykjavík tollstjórinn, sjá um innheimtu vitagjaldsins. Skyldur er skipstjóri að sýna innheimtumanni leiðarbók skipsins og skipsskjöl og er innheimtumanni rétt að halda eftir alþjóðamælibréfi og þjóðernisskírteini, nema gjaldið hafi verið greitt.
    Ágreiningi um gjaldskyldu og útreikning má skjóta til samgönguráðuneytisins.

IV. KAFLI

Upplýsingaskylda.

9. gr.

    Siglingastofnun Íslands skal sjá um að allar breytingar á leiðbeiningum til öryggis í siglingum verði tilkynntar sjófarendum. Auglýsingar skulu birtar minnst mánaðarlega í Tilkynningum til sjófarenda, sem Sjómælingar Íslands gefa út.
    Upplýsingar, sem varða öryggi sjófarenda og ekki verða auglýstar með nægum fyrirvara í Tilkynningum til sjófarenda, skulu tilkynntar um strandstöðvar og í útvarpi þegar þörf krefur.
    Sérhverjum, sem annast rekstur leiðarmerkis, er skylt að koma tilkynningum um breytingar og bilanir til Siglingastofnunar Íslands svo fljótt sem verða má, en stofnunin sér síðan um birtingu þeirra. Á sama hátt ber öllum, sem verða varir við bilanir í vitakerfi landsins, að senda tilkynningar um þær til Siglingastofnunar Íslands svo fljótt sem verða má. Enn fremur skal Siglingastofnun Íslands tilkynnt um alla farartálma sem verða á almennri siglingaleið og ekki er getið í sjókortum eða tilkynningum til sjófarenda.

V. KAFLI

Farartálmar.

10. gr.

    Ef skip eða annað fljótandi far ferst eða strandar á siglingaleið ber eiganda þess að tilkynna um atburðinn tafarlaust til Siglingastofnunar Íslands, sem síðan merkir staðinn ef ástæða er talin til.
    Eiganda farsins skal skylt að fyrirmælum Siglingastofnunar Íslands að gera þær ráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar til öryggis fyrir siglingar og fiskveiðar.
    Að liðnum gefnum fresti getur Siglingastofnun Íslands á kostnað eiganda fjarlægt hverja þá farartálma eða flök sem hér um ræðir.
    Kostnaður við merkingu farartálma skal greiddur af eiganda hans.

VI. KAFLI

Vitavarsla.

11. gr.

    Sérhver viti eða annað leiðarmerki skal vera í vörslu ábyrgs umsjónarmanns. Leiðarmerki, sem eru í eign hafnarsjóða, skulu talin í ábyrgð hafnarstjóra eða hafnarvarðar og er hafnarstjórn skylt að senda Siglingastofnun Íslands tilkynningu um hver sé ábyrgðarmaður merkisins.

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

12. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.

13. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 56/1981, um vitamál, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu og Siglingastofnun Íslands og er því ætlað að leysa af hólmi lög um vitamál, nr. 56/1981, með síðari breytingum.
    Rekstur og eignarhald vitakerfisins er tvískipt. Landsvitar eru til leiðbeiningar á almennum siglingaleiðum en hafnarvitar vísa leið inn á hafnir. Landsvitar eru í eigu og umsjón ríkisins en hafnarvitar í eigu og umsjón sveitarfélaganna. Siglingastofnun fer með framkvæmd vitamála á Íslandi, þ.e. annast uppbyggingu og rekstur landsvitakerfisins og hefur umsjón og eftirlit með uppbyggingu og rekstri hafnarvita og innsiglingarmerkja.
    Vita- og leiðsögubúnaður stofnunarinnar er margþættur. Tækniframfarir hafa breytt samsetningu og sjálfvirkni búnaðarins verulega undanfarna áratugi. Uppbyggingu ljósvitakerfisins lauk að mestu á 6. áratugnum með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954 en þá var ljósvitahringnum um landið lokað. Alls eru 104 ljósvitar í umsjá stofnunarinnar. Flestir fá orku sína frá rafmagni, samveitum eða geymum, en einnig eru margir knúnir með sólarorku. Aðeins einn, Hvaleyrarviti í Hvalfirði, er enn með gasljósi. Starfsmenn stofnunarinnar sinna viðhaldi vitanna og þarf að leigja skip annað hvert ár til að sinna viðhaldi bauja og þeirra vita sem ekki er hægt að nálgast frá landi.
    Annar leiðsögubúnaður er baujur (ljósdufl), radarsvarar, öldumælingadufl og sjálfvirkar veðurstöðvar. Öldumælingaduflum og veðurstöðvum hefur fjölgað undanfarin ár í tengslum við uppbyggingu á upplýsingakerfi Siglingastofnunar um veður og sjólag. Baujum og radarsvörum hefur hins vegar farið fækkandi með tilkomu nýrrar tækni. Um 20 ljósvitar eru í hafnarvitakerfinu auk innsiglingarljósa á garðsendum og bryggjum, leiðarljósalínum og baujum er vísa leið í innsiglingum að höfnum.
    Radíóvitar í notkun eru sex, Reykjanesviti, Bjargtangaviti, Skagatáarviti, Raufarhafnarviti, Djúpavogsviti og Skarðsfjöruviti. Þeir eru fyrst og fremst notaðir til að senda út leiðréttingarmerki með GPS-staðsetningarkerfinu en sú aðferð nefnist DGPS. Leiðréttingarmerkin gera kleift að auka nákvæmni staðsetningar úr um 100 metrum í 5 metra á útsendingarsvæðinu. Leiðréttingamerkin nást í allt að 200–400 sjómílna fjarlægð.

Innheimta vitagjalds.
    
Fyrsti vitinn var reistur á Reykjanesi árið 1878. Þann 1. desember sama ár var hafin innheimta vitagjalds til þess að standa straum af rekstri vitans og þeirra er síðar áttu eftir að koma. Vitagjaldið er því eitt það elsta af núverandi þjónustugjöldum. Upphaflega rann það til reksturs og uppbyggingar á ljósvitakerfi landsins. Síðar kom öflugri leiðsögutækni til sögunnar þ.e. radíóvitar og DGPS-stöðvar. Loks var farið að líta á rekstur leiðsögukerfa ásamt upplýsingakerfi um veður og sjólag sem hluta af öryggisþjónustu við sjófarendur.
         Vitagjaldið stendur að hluta straum af stofnkostnaði og rekstrarkostnaði við eftirtalda þjónustu:
          ljósvita,
          siglingamerki á sjó og landi,
          DGPS-leiðréttingarkerfið,
          radarsvara og
          upplýsingakerfi um veður og sjólag.
    Vitagjald var í upphafi hugsað sem þjónustugjald en ekki skattur. Lengst af var í 2. gr. laganna skýrt tekið fram að tekjum af gjaldinu skyldi einungis varið til reksturs og uppbyggingar á vitakerfi landsins. Þessari grein laganna var breytt þegar farið var yfir lögin og þau endurskoðuð með tilliti til nýrrar stofnunar, Siglingastofnunar Íslands, sem tók við rekstri á vitakerfi landsins. Núna eru ákvæði laganna ekki eins þröng og segir þar aðeins að tekjum af vitagjaldi skuli varið til Siglingastofnunar Íslands. Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að þetta verði fært til fyrri vegar og einungis heimilt að ráðstafa vitagjaldi til verkefna skv. 2. gr. frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lagagrunnur vitagjaldsins sé styrktur á þann veg að hann uppfylli þau skilyrði sem lagagrunnur skattlagningarheimilda þarf að uppfylla. Við þetta verður fjárhæð gjaldsins tilgreind í lögunum sjálfum.

Innheimta vitagjalda erlendis.
    Upplýsingar frá 1996 um vitagjald (light dues) í Bretlandi sýna að skip greiða það við hverja komu til landsins, þó ekki nema í eitt skipti í almanaksmánuði og ekki oftar en sjö sinnum yfir árið. Annars vegar greiða þau eitt gjald, sem er 62 pund, og hins vegar 43 pens fyrir hvert tonn. Fyrir 20.000 brúttótonna skip er gjaldið því 62 + 0,43 x 20.000 = 62 + 8.600 eða 8.662 pund. Meiri hluti gjaldsins er miðaður við stærð skipsins.
    Í Noregi miðast vitagjaldið einnig við brúttótonnastærð skips. Ekki liggja fyrir upplýsingar um vitagjald í öðrum löndum, nema að ekkert vitagjald er innheimt í Danmörku.

Tekjur af vitagjaldi.
    Innheimt vitagjald árið 1998 nam 72 millj. kr. Þar af greiddu erlend skip 59,3 millj. kr. Sama ár nam stofnkostnaður og kostnaður við rekstur öryggiskerfis fyrir sjófarendur hjá Siglingastofnun Íslands um 108,8 millj. kr.

Álagt vitagjald og rekstur vitakerfis 1994–99, millj. kr.
1994 1995 1996 1997 1998 1999
Álagt, innlend og erlend skip samtals
58,1 61,7 62,3 64,6 72,5
    þar af innlend skip
13,6 13,9 13,8 13,4 13,2 13,1
Álagt samtals á verðlagi september 1999
65,4 68,3 67,5 68,7 75,9
Rekstur vitasviðs SÍ án stofnkostnaðar, á verðlagi hvers
árs

83,1

81,8

82,2

90,0
Rekstur vitasviðs á verðlagi september 1999
    
92,0 88,6 87,4 94,2 95,0
Stofnkostnaður vitareksturs á verðlagi hvers árs
30,3 22,7 17,1 17,2 18,8 19,3
Ath. Tölur um rekstur vitakerfis 1999 eru úr áætlun Siglingastofnunar Íslands.     

    Í athugun sem gerð var árið 1996 kom í ljós að 37 þús. tonna skemmtiferðaskip greiddi rúmlega 1.030 þús. kr. í hafnagjöld og opinber gjöld við komu til landsins. Opinberu gjöldin námu um 60% af upphæðinni og vógu tollafgreiðslugjald og vitagjald þyngst. Núna væru gjöld fyrir sambærilegt skip 69.120 kr. í tollafgreiðslugjald og 562.400 kr. í vitagjald. Tollafgreiðslugjaldið er greitt fyrir fyrstu sex skipti sem komið er til landsins á almanaksárinu en vitagjaldið fyrir fyrstu fjögur.
    Vitalögin voru endurskoðuð og endurútgefin árið 1995. Í nýju lögunum var erlendum skipum gert að greiða 1/ 4 af fullu gjaldi fyrstu fjögur skiptin á almanaksárinu í stað 1/ 5 gjaldsins fyrstu fimm skipti ársins. Einnig var heimild fyrir lægra gjaldi til skemmtiferðaskipa felld niður. Í reglugerð sem byggð var á eldri lögunum var fullt vitagjald af skemmtiferðaskipum ákveðið um það bil 1/ 6 af gjaldi almennra skipa. Síðan var 1/ 5af því innheimt fyrstu fimm skipti sem komið var til landsins á almanaksári. Skemmtiferðaskip eru yfirleitt mun stærri mælt í brúttótonnum en þau flutningaskip sem koma til landsins vegna aðstöðu um borð fyrir þjónustu og afþreyingu. Gámaflutningaskip eru stærst um 10.000 tonn en skemmtiferðaskip eru mörg á bilinu 20.000–60.000 tonn. Vitagjald af skemmtiferðaskipum miðað við 25.000 brúttótonna meðalstærð og 50 komur á ári er 19,0 millj. kr.

Áhrif frumvarpsins á innheimtu vitagjalds.
    Innheimt vitagjald árið 1998 nam 72 millj. kr. Með frumvarpi þessu er miðað við að tekjur af vitagjaldi árið 2000 verði 90 millj. kr., en rekstrarkostnaður Siglingastofnunar Íslands af leiðsögukerfinu er áætlaður 95 millj. kr. árið 1999.
     Vitagjald af skipum á íslensku skipaskránni var um 13 millj. kr. árið 1998 og 59 millj. kr. af erlendum skipum, eða samtals 72 millj. kr. Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að nánast öll flutningaskip sem koma til landsins í eigu íslenskra eða erlendra kaupskipaútgerða eru á erlendum skipaskrám. Flutningaskip og skemmtiferðaskip eru nær undantekningarlaust stærri en fiskiskip mælt í brúttótonnum og greiða því hærra vitagjald. Auk þess eru skip minni en 10 brúttótonn undanþegin vitagjaldi samkvæmt gildandi reglum.

Innheimta vitagjalds miðað við gildandi lög og tillögur í frumvarpi, millj. kr.
Gildandi lög Tillögur frv.
Innheimt vitagjald 1998
72 72
Gróf áætlun um aukin umsvif
3 3
Bátar undir 10 brúttótonnum, þ.e. 1.600 nýir gjaldendur*
8
Hækkun gjalds á 350 báta sem eru 10–78 brúttótonn
2
Leiðrétting verðlags, 5,8%
4,4 4,4
Hækkun vitagjalds, 0,7%
0,6
79,4 90
Vitagjald er núna 60,70 kr.
á brúttótonn
63,4 64,7
* Bátar undir 10 brúttótonum eru núna undanþegnir vitagjaldi.

    Fremri dálkurinn í töflunni miðast við óbreytt vitagjald samkvæmt gildandi lögum. Ekki er óvarlegt að áætla að umferð skipa aukist enn árið 2000 og tekjur af vitagjaldi hækki, t.d. vegna aukinnar skipaumferðar til álveranna og járnblendiverksmiðjunnar, en þessar verksmiðjur hafa verið stækkaðar, auk þess að nýtt álver tók til starfa á Grundartanga árið 1998. Siglingastofnun telur óhætt að gera ráð fyrir að vitagjaldið fari úr 72 millj. kr. í um 75 millj. kr miðað við óbreytta gjaldskrá.
    Seinni dálkurinn sýnir tillögur frumvarpsins um hvernig má auka tekjur af vitagjaldi samkvæmt framangreindum forsendum. Í frumvarpinu er lagt til að gjaldið nái til allra báta á skipaskrá með því að setja 5.000 kr. lágmarksgjald. Við það fara ríflega 1.600 bátar að greiða vitagjald sem áður voru undanþegnir því vegna þess að þeir náðu ekki 10 brúttótonna lágmarksstærð. Auk þess hækkar gjaldið á um 350 bátum vegna þess að lágmarksgjaldið er hærra en gjald miðað við núverandi forsendur, þ.e. ákveðin upphæð á hvert brúttótonn. Með lágmarksgjaldi er komið til móts við þau sjónarmið að láta smærri báta greiða hlutfallslega hærra gjald en þeir gera í dag. Miðað við núverandi gjaldskrá hækkar þetta gjaldið á innlendum skipum úr u.þ.b. 13 millj. kr. í um 23 millj. kr., eða um 10 millj. kr.
    Vitagjaldi var síðast breytt árið 1997. Ofangreindar forsendur, þ.e. 3 millj. kr. hærri tekjur vegna aukinnar skipaumferðar og 10 millj. kr. við tilkomu lágmarksgjalds, gefa 85 millj. kr. í vitagjald. Hækka þarf vitagjaldið um 6,5%, þ.e. úr kr. 60,70 í kr. 64,70 til þess að tekjur af vitagjaldi verði 90 millj. kr., sem er um 0,7% hærra en verðlagsþróun gefur tilefni til.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Grein þessi er samhljóða gildandi 1. gr. laga um vitamál, nr. 56/1981, eins og henni var breytt með 8. gr. laga nr. 7/1996 þegar Siglingastofnun Íslands var sett á fót.

Um 2. gr.


    Grein þessi er nýmæli frá gildandi lögum um vitamál og fjallar hún um verkefni og skyldur Siglingastofnunar Íslands til að tryggja öryggi í siglingum við Íslandsstrendur með því að sjá sjófarendum fyrir nauðsynlegum leiðbeiningum, t.d. vitum, fljótandi leiðarmerkjum og radíómerkjum til staðarákvörðunar. Sams konar ákvæði var upphaflega í lögum um nr. 56/1981, um vitamál.

Um 3. gr.


    Grein þessi er efnislega samhljóða 2. gr. gildandi laga um vitamál. Skv. 7. mgr. getur Siglingastofnun að fenginni umsögn siglingaráðs krafist þess að hafnarstjórn láti gera á eigin kostnað þá vita og önnur leiðarmerki sem Siglingastofnun Íslands telur nauðsynleg til öryggis í siglingum um viðkomandi hafnarsvæði eins og þau eru skilgreind í viðkomandi hafnarreglugerðum. Það nýmæli kemur fram í lokamálslið 7. mgr. að til eigin kostnaðar teljist einnig viðhald og rekstur slíkra vita og leiðarmerkja.

Um 4. gr.


    Þessi grein er óbreytt frá 3. gr. gildandi laga um vitamál og kveður á um að óheimilt sé að byggja hús eða mannvirki sem skyggt getur á vita eða leiðarmerki.

Um 5. gr.


    Þessi grein er efnislega óbreytt frá 4. gr. gildandi laga um vitamál og fjallar um skyldur landeiganda til að láta af hendi mannvirki og land til byggingar vita.

Um 6. gr.


    Þessi grein er efnislega óbreytt frá 5. gr. gildandi laga um vitamál. Greinin kveður á um að greitt skuli vitagjald af skipum sem sigla við Íslandsstrendur og hafa viðkomu hér á landi og er gjaldinu ætlað að standa straum af stofn- og rekstrarkostnaði Siglingastofnunar Íslands til að tryggja öryggi í siglingum skv. 2. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.


    Þessi grein fjallar um ákvörðun vitagjalds, viðmiðun þess, upphæð, lágmarksgjald og undanþágur. Helstu breytingar frá gildandi lögum eru eftirfarandi:
     1)     Brúttótonn: Með 1. gr. laga nr. 63/1995 var kveðið á um að viðmiðun vitagjalds skyldi vera brúttótonn í stað brúttórúmlesta áður og er það í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.
     2)     Upphæð vitagjalds: Samkvæmt reglugerð um vitagjald er gjaldið nú 60,70 kr. af hverju brúttótonni skips. Með frumvarpi þessu er lagt til að upphæðin verði bundin í lögum en ekki í reglugerð eins og verið hefur. Lagt er til að gjaldið verði 64,70 kr. af hverju brúttótonni og er það um það bil 6,5% hækkun, þ.e. annars vegar 5,8% verðlagshækkun og 0,7% hækkun á vitagjaldi. Allar hækkanir á vitagjaldi, verði frumvarp þetta að lögum, verða því ákveðnar af Alþingi með sérstökum lagabreytingum.
     3)     Gjaldskylda: Í 6. gr. gildandi laga um vitamál er miðað við að vitagjald skuli greiða einu sinni á ári af öllum skipum sem eru stærri en 10 brúttótonn. Með frumvarpi þessu er lagt til að vitagjald verði greitt af öllum skipum og að lágmarksgjald verði 5.000 kr.
     4)     Undanþágur: Hér er lagt til að herskip, varðskip og tollgæslubátar skuli undanþegnir gjaldinu, sem og skip sem leita hafnar í neyð. Er það ekki breyting frá því sem verið hefur. Það er hins vegar nýmæli að skip sé ekki gjaldskylt ef það hefur ekki verið notað við Íslandsstrendur á viðkomandi gjaldári eða verið án haffæris allt það ár, en samkvæmt gildandi reglum hefur í slíkum tilfellum verið heimilt að fella gjaldið niður.

Um 8. gr.


    Í grein þessari er kveðið á um gjalddaga vitagjalds, fyrirkomulag greiðslu erlendra skipa, hver annast innheimtu vitagjalds og hvert skjóta megi ágreiningi um gjaldskyldu og útreikning.

Um 9. gr.


    Þessi grein er óbreytt frá 8. gr. gildandi laga um vitamál og fjallar um skyldu Siglingastofnunar Íslands til að auglýsa og tilkynna sjófarendum um allar breytingar á leiðbeiningum til öryggis í siglingum.

Um 10. gr.


    Þessi grein er óbreytt frá 9. gr. gildandi laga um vitamál og fjallar um viðbrögð við því ef skip eða annað fljótandi far ferst eða strandar á siglingaleið.

Um 11. gr.


    Þessi grein er óbreytt frá 10. gr. gildandi laga um vitamál og fjallar um vörslu vita og annarra leiðarmerkja.

Um 12. gr.


    Þessi grein er óbreytt frá 11. gr. gildandi laga um vitamál og kveður á um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laganna.

Um 13. og 14. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um vitamál.


    Tilgangur frumvarpsins er að breyta lagagrunni fyrir vitagjald sem ætlað er að standa straum af stofn- og rekstrarkostnaði Siglingastofnunar Íslands á leiðsögukerfi fyrir skip og leysa af hólmi lög um vitamál, nr. 56/1981, með síðari breytingum. Lagt er til að lagagrunnurinn verði styrktur á þann veg að hann uppfylli sömu skilyrði skattlagningarheimildar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að vitagjaldið nái til allra báta á skipaskrá með því að setja lágmarksgjald. Við það greiða 1.600 bátar vitagjald sem áður voru undanþegnir gjaldinu.
    Ekki verður séð að umfang starfseminnar aukist frá því sem nú er og því verður ekki séð að frumvarpið hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Tekjur af vitagjaldinu eru áætlaðar 78 m.kr. árið 1999 og með breytingunni á gjaldinu aukast þær um 12 m.kr. og verða 90 m.kr. Gert er ráð fyrir tekjum af aukinni gjaldtöku í forsendum frumvarps til fjárlaga 2000.